Oft er notuð sú líking að veirur breyti frumum okkar í verksmiðjur til að fjölfalda sjálfar sig. Líklega er það hótinu geðslegri tilhugsun en að þær noti okkur sem útungunarstöðvar. Að þær tímgist við okkur. En seinni líkingin er að minnsta kosti jafn tæk. Og ef veiran að baki fyrstu bylgju faraldursins var eingetið náttúrubarn, svo að segja, þá eiga allar seinni kynslóðirnar tvö foreldri: undanfarandi veiru og það mannlega samfélag sem hún tímgaðist við. Af þessu leiðir að minnsta kosti tvennt forvitnilegt.
Í fyrsta lagi höfum við áhrif á þróun veirunnar, með því að segja já eða nei, halda sumum afbrigðum í skefjum en öðrum ekki. Þessi áhrif okkar, og þróunarfræðilegi þrýstingurinn sem þau fela í sér, eru það sem liggur að baki öllum áformum að ala veiruna, eða ala hana upp, frekar en kveða hana í kútinn. Að eftir nokkrar kynslóðir af þessu innvali og útvali verði búið að húsvenja hana. Úr ljóninu verði heimilisköttur.
Í öðru lagi fylgir þessu samspili, eins og allri kynæxlun, eins konar tilhugalíf. Þessi ekki-beint-kynæxlun-en-samt opnar nýjan flokk eiginleika sem geta orðið veirunni til framdráttar í tilverunni. Þegar kynæxlun1 leysir kynlausa æxlun af hólmi skiptir ekki lengur aðeins máli að lífvera hafi tiltekna eiginleika til að bera heldur, um leið, að hún líti út fyrir að hafa tiltekna eiginleika til að bera. Þegar mótaðilinn sem hún þarf til að fjölga sér getur sagt já eða nei, valið eða hafnað, vísað henni á brott eða tekið henni fagnandi, þá vinnur það með lífverunni að verða, í hvaða skilningi sem við á, aðlaðandi. Nýju eiginleikarnir sem taka að skipta máli felast þá í merkjasendingum af toga sem má líkja við markaðssetningu. Merkjasendingum sem að einhverju leyti eru óháðar raunveruleikanum að baki. Þannig opnast, öðrum orðum, möguleikinn á blekkingu.
Darwin skrifaði töluvert um þau þróunarfræðilegu ósköp sem spretta af slíkum merkjasendingum í dýraríkinu. Frægastar eru stélfjaðrir páfugla, sem upphaflega hafa líklega verið til marks um hreysti og flughæfni fuglsins. Þessi ummerki um hæfni og heilsu verða fuglinum til framdráttar við mökun, svo glæstari og glæstari fjaðrir veljast inn í tegundina, þar til ásýnd þeirra fer að skipta meira máli en flughæfnin sjálf, fjaðrirnar vaxa fram úr því sem gæti gagnast nokkrum fugli, og sitja eftir sem merkjasending um ekkert nema sjálfar sig. Svo fór sem fór og tegundin situr uppi með þessi ósköp. Til eru tilgátur um að mannleg greind eða ákveðnir þættir hennar, til dæmis tungumál, séu af sama meiði. Þessi ofvöxtur hafi hlaupið í miðtaugakerfi okkar og hugarstarf, ekki til að forðast hættu eða afla fæðu heldur til að ganga í augun á öðrum. Eitthvað sem lítur út eins og hæfni, eða gerði það einhvern tíma, en er bara glys. Stélfjaðrir.
Eftir allar þær kynslóðir sem fóru um jörðina á undan okkur mætti orða uppsöfnuð áhrif kynvalsins sem svo að sem tegund séum við mótuð af milljóna ára sögu alls sem undanfarandi tegundir dreymdi. Við erum ekki einfaldlega draumur fiskanna sem sprikluðu í leðju á leiðinni upp á land, heldur safnhaugur þeirra drauma, drauma forvera þeirra og afkomenda. Milljónir ára af draumum, tálsýnum og misskilningi, allt í einni kös, bútasaumur úr öllu því sem einhverju dýri þótti einhvern tíma álitlegt í fari einhvers annars. Merkjasendingum. Sumt af merkjasendingunum var satt og annað logið. Sumt skynsamlegt, annað vitleysa.
Og veiran sem makast nú við okkur, hún mótast líka af draumum okkar, kynslóð fyrir kynslóð. Eftir því sem meira er af henni í okkur verður meira af okkur í henni. Við sögðum að vissu leyti nei við fyrstu kynslóðir hennar en miklu leyti já við þá nýjustu. Veljum ákveðna eiginlega inn, ákveðna eiginleika út. Hvað hún verður er þannig háð því hverju við föllum fyrir. Veiran er háð því að ganga í augun á okkur.
Hugsanlega hefur hún þegar sýnt nokkur klókindi í þeim efnum.2 Í öllu falli er næstum undravert hvað nýja afbrigðinu lánaðist vel að markaðssetja sig. Fyrstu fréttir af því hermdu að það smitaðist margfalt hraðar en fyrri afbrigði. Daginn eftir tóku fjármálamarkaðir skarpa dýfu. Þetta eina andartak virtist til marks um ákveðið heilbrigði, ákveðna glóru, að yfirvofandi hörmungar utan kauphallanna gerðu fjárfesta loks svolítið svartsýna. Því væru takmörk sett hvað markaðirnir gerðu ráð fyrir að hagnast mikið á faraldrinum. En eftir dýfuna leið varla sólarhringur þar til fréttir bárust af því að nýja afbrigðið væri „milt“, sjúkdómurinn sem það ylli væri vægur. Þeir sem drógu bjartsýnastar ályktanir af þessum fréttum með mestu hraði fengu stærstar fyrirsagnir, flestar deilingar, mesta athygli, dag eftir dag í kjölfarið, viku eftir viku, þar til þetta urðu viðtekin sannindi, að ekkert væri að óttast, nýja afbrigðið fæli í sér góðar fréttir, það væri jafnvel „náttúrulegt bóluefni“ eins og Pútín orðaði það. Undir lá hugmyndin, draumurinn, um ónæmi án teljandi veikinda. Þessi markaðssetning Omicron fór fram með leifturhraða, ein stærsta, bíræfnasta og mögulega kostnaðarsamasta markaðsherferð sögunnar.
Markaðsherferðin þurfti ekki að rista djúpt, bara halda athygli okkar í svolitla stund, rétt á meðan smit voru svo fá að ekki virtist tímabært að grípa inn í. Veldisvöxturinn sá um rest. Leiftursókn. Um leið og tími virtist kominn til að gera eitthvað mátti segja að það væri orðið of seint. Að þetta sem mun nú vinda fram næstu vikur væri þá þegar, í reynd, orðinn hlutur. Nú er fullyrt að helmingur Evrópubúa muni smitast áður en nokkuð fæst að gert. En ef við komumst yfir þessa hæð, ef nógu margir smitast, þá er því líka einhvern veginn lofað (án þess að neinn muni taka á því ábyrgð ef það bregst) að þar hinu megin bíði okkar Dalur hins eðlilega lífs, þar sem ónæmið drýpur af hverju strái.
Líkurnar á að það reynist rétt eru kannski einhverjar. En þær eru ekki yfirgnæfandi. Og virðast fara þverrandi. Líkurnar á að það gerist án dauðsfalla eru engar og hafa aldrei verið. Hæðin verður blóði drifin, hvað sem reynist handan við hana.
Áður en lengra er haldið, áður en við tökumst á við næstu bylgju, gæti verið gagnlegt að taka til athugunar hvaða hlutverk langanir leika í úrvinnslu upplýsinga. Undir hvaða kringumstæðum fólk á í mestum vanda að gera greinarmun á vitneskju og von. Og hverjir gætu, eins og veiran, átt hagsmuna að gæta í að við ruglumst.
↑1 | Nei, þetta er auðvitað ekki bókstafleg kynæxlun en tímgun veirunnar er eftir sem áður tveggja aðila tangó, hið minnsta, og felur að því leyti í sér skylda virkni. Bókstafstrú um merkingu orða hentar þessum texta áreiðanlega ekki vel. |
---|---|
↑2 | Hver veira fyrir sig hefur auðvitað hvorki vilja né langanir, ekkert agency. En allt sem lýtur þróunarfræðilegum lögmálum sýnir af sér eitthvað sem má lýsa sem strategíu. Og þegar ásýnd skiptir máli er óhætt að tala um klókindi. |