Veira drauma okkar

14.1.2022 ~ 6 mín

Oft er notuð sú líking að veirur breyti frumum okkar í verk­smiðjur til að fjöl­falda sjálfar sig. Líklega er það hótinu geðs­legri tilhugsun en að þær noti okkur sem útung­un­ar­stöðvar. Að þær tímgist við okkur. En seinni líkingin er að minnsta kosti jafn tæk. Og ef veiran að baki fyrstu bylgju farald­urs­ins var eingetið nátt­úru­barn, svo að segja, þá eiga allar seinni kynslóð­irnar tvö foreldri: undan­far­andi veiru og það mann­lega samfé­lag sem hún tímg­að­ist við. Af þessu leiðir að minnsta kosti tvennt forvitnilegt.

Í fyrsta lagi höfum við áhrif á þróun veirunnar, með því að segja já eða nei, halda sumum afbrigðum í skefjum en öðrum ekki. Þessi áhrif okkar, og þróun­ar­fræði­legi þrýst­ing­ur­inn sem þau fela í sér, eru það sem liggur að baki öllum áformum að ala veiruna, eða ala hana upp, frekar en kveða hana í kútinn. Að eftir nokkrar kynslóðir af þessu innvali og útvali verði búið að húsvenja hana. Úr ljón­inu verði heimilisköttur.

Í öðru lagi fylgir þessu samspili, eins og allri kynæxlun, eins konar tilhuga­líf. Þessi ekki-beint-kynæxlun-en-samt opnar nýjan flokk eigin­leika sem geta orðið veirunni til fram­dráttar í tilver­unni. Þegar kynæxlun1 leysir kynlausa æxlun af hólmi skiptir ekki lengur aðeins máli að lífvera hafi tiltekna eigin­leika til að bera heldur, um leið, að hún líti út fyrir að hafa tiltekna eigin­leika til að bera. Þegar mótað­il­inn sem hún þarf til að fjölga sér getur sagt já eða nei, valið eða hafnað, vísað henni á brott eða tekið henni fagn­andi, þá vinnur það með lífver­unni að verða, í hvaða skiln­ingi sem við á, aðlað­andi. Nýju eigin­leik­arnir sem taka að skipta máli felast þá í merkja­send­ingum af toga sem má líkja við mark­aðs­setn­ingu. Merkja­send­ingum sem að einhverju leyti eru óháðar raun­veru­leik­anum að baki. Þannig opnast, öðrum orðum, mögu­leik­inn á blekkingu.

Darwin skrif­aði tölu­vert um þau þróun­ar­fræði­legu ósköp sem spretta af slíkum merkja­send­ingum í dýra­rík­inu. Fræg­astar eru stél­fjaðrir páfugla, sem upphaf­lega hafa líklega verið til marks um hreysti og flug­hæfni fugls­ins. Þessi ummerki um hæfni og heilsu verða fugl­inum til fram­dráttar við mökun, svo glæst­ari og glæst­ari fjaðrir velj­ast inn í tegund­ina, þar til ásýnd þeirra fer að skipta meira máli en flug­hæfnin sjálf, fjaðr­irnar vaxa fram úr því sem gæti gagn­ast nokkrum fugli, og sitja eftir sem merkja­send­ing um ekkert nema sjálfar sig. Svo fór sem fór og tegundin situr uppi með þessi ósköp. Til eru tilgátur um að mann­leg greind eða ákveðnir þættir hennar, til dæmis tungu­mál, séu af sama meiði. Þessi ofvöxtur hafi hlaupið í miðtauga­kerfi okkar og hugar­starf, ekki til að forð­ast hættu eða afla fæðu heldur til að ganga í augun á öðrum. Eitt­hvað sem lítur út eins og hæfni, eða gerði það einhvern tíma, en er bara glys. Stélfjaðrir.

Eftir allar þær kynslóðir sem fóru um jörð­ina á undan okkur mætti orða uppsöfnuð áhrif kynvals­ins sem svo að sem tegund séum við mótuð af millj­óna ára sögu alls sem undan­far­andi tegundir dreymdi. Við erum ekki einfald­lega draumur fisk­anna sem sprikl­uðu í leðju á leið­inni upp á land, heldur safn­haugur þeirra drauma, drauma forvera þeirra og afkom­enda. Millj­ónir ára af draumum, tálsýnum og misskiln­ingi, allt í einni kös, bútasaumur úr öllu því sem einhverju dýri þótti einhvern tíma álit­legt í fari einhvers annars. Merkja­send­ingum. Sumt af merkja­send­ing­unum var satt og annað logið. Sumt skyn­sam­legt, annað vitleysa.

Og veiran sem makast nú við okkur, hún mótast líka af draumum okkar, kynslóð fyrir kynslóð. Eftir því sem meira er af henni í okkur verður meira af okkur í henni. Við sögðum að vissu leyti nei við fyrstu kynslóðir hennar en miklu leyti já við þá nýjustu. Veljum ákveðna eigin­lega inn, ákveðna eigin­leika út. Hvað hún verður er þannig háð því hverju við föllum fyrir. Veiran er háð því að ganga í augun á okkur.

Hugs­an­lega hefur hún þegar sýnt nokkur klók­indi í þeim efnum.2 Í öllu falli er næstum undra­vert hvað nýja afbrigð­inu lánað­ist vel að mark­aðs­setja sig. Fyrstu fréttir af því hermdu að það smit­að­ist marg­falt hraðar en fyrri afbrigði. Daginn eftir tóku fjár­mála­mark­aðir skarpa dýfu. Þetta eina andar­tak virt­ist til marks um ákveðið heil­brigði, ákveðna glóru, að yfir­vof­andi hörm­ungar utan kaup­hall­anna gerðu fjár­festa loks svolítið svart­sýna. Því væru takmörk sett hvað mark­að­irnir gerðu ráð fyrir að hagn­ast mikið á faraldr­inum. En eftir dýfuna leið varla sólar­hringur þar til fréttir bárust af því að nýja afbrigðið væri „milt“, sjúk­dóm­ur­inn sem það ylli væri vægur. Þeir sem drógu bjart­sýn­astar álykt­anir af þessum fréttum með mestu hraði fengu stærstar fyrir­sagnir, flestar deil­ingar, mesta athygli, dag eftir dag í kjöl­farið, viku eftir viku, þar til þetta urðu viðtekin sann­indi, að ekkert væri að óttast, nýja afbrigðið fæli í sér góðar fréttir, það væri jafn­vel „nátt­úru­legt bólu­efni“ eins og Pútín orðaði það. Undir lá hugmyndin, draum­ur­inn, um ónæmi án telj­andi veik­inda. Þessi mark­aðs­setn­ing Omicron fór fram með leift­ur­hraða, ein stærsta, bíræfn­asta og mögu­lega kostn­að­ar­sam­asta markaðs­her­ferð sögunnar.

Markaðs­her­ferðin þurfti ekki að rista djúpt, bara halda athygli okkar í svolitla stund, rétt á meðan smit voru svo fá að ekki virt­ist tíma­bært að grípa inn í. Veld­is­vöxt­ur­inn sá um rest. Leift­ur­sókn. Um leið og tími virt­ist kominn til að gera eitt­hvað mátti segja að það væri orðið of seint. Að þetta sem mun nú vinda fram næstu vikur væri þá þegar, í reynd, orðinn hlutur. Nú er full­yrt að helm­ingur Evrópu­búa muni smit­ast áður en nokkuð fæst að gert. En ef við komumst yfir þessa hæð, ef nógu margir smit­ast, þá er því líka einhvern veginn lofað (án þess að neinn muni taka á því ábyrgð ef það bregst) að þar hinu megin bíði okkar Dalur hins eðli­lega lífs, þar sem ónæmið drýpur af hverju strái.

Líkurnar á að það reyn­ist rétt eru kannski einhverjar. En þær eru ekki yfir­gnæf­andi. Og virð­ast fara þverr­andi. Líkurnar á að það gerist án dauðs­falla eru engar og hafa aldrei verið. Hæðin verður blóði drifin, hvað sem reyn­ist handan við hana.

Áður en lengra er haldið, áður en við tökumst á við næstu bylgju, gæti verið gagn­legt að taka til athug­unar hvaða hlut­verk lang­anir leika í úrvinnslu upplýs­inga. Undir hvaða kring­um­stæðum fólk á í mestum vanda að gera grein­ar­mun á vitn­eskju og von. Og hverjir gætu, eins og veiran, átt hags­muna að gæta í að við ruglumst.

References
1 Nei, þetta er auðvitað ekki bókstaf­leg kynæxlun en tímgun veirunnar er eftir sem áður tveggja aðila tangó, hið minnsta, og felur að því leyti í sér skylda virkni. Bókstafstrú um merk­ingu orða hentar þessum texta áreið­an­lega ekki vel.
2 Hver veira fyrir sig hefur auðvitað hvorki vilja né lang­anir, ekkert agency. En allt sem lýtur þróun­ar­fræði­legum lögmálum sýnir af sér eitt­hvað sem má lýsa sem strategíu. Og þegar ásýnd skiptir máli er óhætt að tala um klókindi.