Veiran sem vinnuveitandi

21.1.2022 ~ 4 mín

Þróun­ar­lega er ekki alveg úr lausu lofti gripið að veiran vilji ekki, út af fyrir sig, drepa okkur. Allt tal um vilja eða ásetn­ing í þessu samhengi er abstrak­sjón, stundum umdeild en fyrst og fremst þokka­lega skýr: veira er bara form sem við ákveðin skil­yrði getur afrit­ast. Endur­tekið sig. Þessi skil­yrði hennar eru einkum aðgangur að frumum dýra. Þó að veira sé ekki fær um að vilja nokk­urn skap­aðan hlut birt­ist þessi tilhneig­ing hennar okkur sem ásetn­ingur, eða eitt­hvað hlið­stætt ásetn­ingi – þráhyggja, mætti jafn­vel segja. Það sem þetta form gerir. Um leið og það hætti að gera það, fyrir fullt og allt, væri það orðið eitt­hvað allt annað, ekki lengur veira, heldur ósýni­legur og afleið­inga­laus hnyk­ill af næstum engu, sem myndi brátt tætast í sundur, gleyma sér, skilja ekkert eftir sig.

Svo við leyfum okkur að segja þetta svona: veiran vill fjölga sér. Það er ekki einu sinni auka­at­riði fyrir henni hvort við lifum eða deyjum, það er ekkert atriði fyrir henni yfir­leitt, nema að það hafi einhver áhrif á getu hennar til að fjölga sér. Bjart­sýn­is­menn benda á að veira sem drepur hýsil svo hratt að hann nái ekki að smita neinn, hún komist ekki langt. Það er auðvitað rétt en það háir þess­ari veiru ekki neitt, hún berst greið­lega, svo dögum skiptir, frá smit­bera til næsta manns, áður en nokkur deyr. Svo greið­lega reyndar að sérfræð­inga greinir í mesta lagi á um hvort Omicron-afbrigðið er mest smit­andi sýkill sem mann­kyn þekkir til, eða sá næst­mest smit­andi, þá á eftir veirunni sem veldur misl­ingum. Þó að það sé ekki eigin­legt markmið veirunnar að drepa fólk, þá er ekki heldur, á meðan hún kemst svona greið­lega um, neinn þróun­ar­legur þrýst­ingur á hana að gera það ekki.

Ef við sköpum slíkan þrýst­ing – eins og má segja að við höfum að einhverju leyti gert, með því að takmarka útbreiðslu banvæn­ustu afbrigð­anna – þá stendur eftir sú spurn­ing hversu langan tíma það tæki að knýja fram ábyggi­legan sátt­mála við veiruna. Sann­ar­lega eru fordæmi fyrir öðru eins. Hvaða katt­ar­dýr sem varð að heim­ilisketti, á einhverju stigi má segja að við höfum komist að þessu þróun­ar­sögu­lega samkomu­lagi við það: ef það læðist um, hermir eftir barns­hljóðum í stað þess að öskra eða hvæsa, og heldur sig innan þeirra stærð­ar­marka að það veiði helst aðeins smærri mein­dýr, en ekki okkur, þá skulum við sjá því fyrir mat og drykk.

Í því tilfelli má tala um þróun­ar­sögu­legan sátt­mála, enda varð úr þetta samlífi, sem báðir aðilar virð­ast hagn­ast á: mann­fólk hefur gagn af því að kettir veiði mýs og rottur. Kettir hafa gagn af fæðu­ör­yggi og húsa­skjóli, svo ekki sé minnst á að við, þessi tegund sem annars útrýmir því sem henni sýnist, leyfum þeim að þrífast.

Í tilfelli veirunnar, aftur á móti, er ekki gott að sjá hvað það er sem við berum úr býtum með nokkru samkomu­lagi. Veiran fær að fjölga sér, það er hugmyndin, hún fái að þríf­ast í okkur og fjölga sér. Hún er að því leyti betur sett en hún var áður, þegar hún hafði aðeins aðgang að leður­blökum. Ef okkur tekst að knýja fram þessa samn­inga sem við segj­umst vongóð um, þá virð­umst við, hýslar hennar, helst bera það úr býtum að hún drepi okkur ekki. Eða að minnsta kosti sjaldan. Sjaldnar. Að hún drepi færri af okkur en hún hefði annars gert.

Hvernig drepur hún okkur og hvers vegna, ef það er ekki ásetn­ingur hennar? Með því að láta okkur vinna. Það er erindi hennar við líkama okkar. Stundum er notuð sú hlið­stæða að hún beiti frumum okkar sem verk­smiðjum, til að fram­leiða meira af sjálfri sér. Um daginn vildi ég heldur tala um tímgun – að þetta sem hún geri við mann­fólk sé líkara kynæxlun en verk­smiðju­starf­semi. En kannski er nærtæk­ast að horfa á það einfald­lega sem vinnu: hún tekur yfir stjórn á líkömum okkar og beitir frumum þeirra til að viðhalda sjálfri sér. Vinnu­afli sem fram að sýkingu nýtist til að viðhalda okkur sjálfum rænir hún og heldur í gísl­ingu til að fram­leiða og endur­fram­leiða meira af sér.

Upphaf­legt samband okkar við veiruna er þá eins og samband þræla við þræla­hald­ara. Við bindum nú vonir okkar við að hún geri sér grein fyrir sameig­in­legum hags­munum okkar í stöð­unni, að það sé henni sjálfri fyrir bestu að halda okkur á lífi, að aðeins þannig getum við hámarkað hennar ávinn­ing af okkar erfiði. Við vonumst til að hún reyn­ist viðræðu­hæf og samband okkar nái þessum þroska, það uppfær­ist úr sambandi þræla við þræla­hald­ara í samband verka­fólks við vinnuveitanda.