Að minnsta kosti tvær þverstæður gera vart við sig í samhengi við þekkingu á sjúkdómum.
Í fyrsta lagi að þekkingar á sjúkdómi er ekki hægt að afla nema sjúkdómurinn sé til staðar. Að því leyti er vísindaleg ástríða ekki sjálfkrafa samferða hagsmunum sjúklings. (Góði læknirinn í Plágunni eftir Camus orðar þetta eitthvað á þá leið að það sé ekki hægt að lækna og vita hvort tveggja í senn – nú beri að lækna, það sé mikilvægara.)
Í öðru lagi þá var það þekkingarleysi á nýjum smitsjúkdómi sem varð til þess að ríki heims gripu til stórtækra varna vorið 2020, aðgerða sem gögnuðust nær öllum íbúum þeirra jafnt. Þau áttu engin ráð nema að halda aftur af útbreiðslu smita, sem dró úr smithættu allra. Eftir því sem þekking á sjúkdómnum eykst, bæði smitleiðum, einkennum, bólusetningu og mögulegum lækningum, þá eykst úrval leiða til að verja suma fyrir veikindum en skilja aðra eftir. Sýnilegasta dæmið er auðvitað dreifing bóluefna, þar sem öll efnaðri lönd heims hafa troðið sér fremst í röðina, staðið þar og hámað þau í sig en skilið önnur eftir. Enda var útbreiðslu veirunnar hleypt af stað víðast hvar um leið og krítískum massa „þeirra sem skipta máli“ hafði þannig verið forðað úr bráðastri hættu. Eftir standa þau sem úrskurðað hefur verið að skipti ekki máli, berskjölduð. Þekkingarleysi varð þeim til bjargar framan af, aukin þekking fól í sér aukinn ójöfnuð, banvænan ójöfnuð.
Það þýðir ekki að vísindi séu ill. Aðeins að hagsmunir þeirra og hagsmunir almennings fara ekki, í öllum tilfellum, óhjákvæmilega saman. Samlíf okkar við vísindin er flókið.