Hvað var það, vorið 2020 sem tenórar stigu út á svalir til að syngja heilbrigðisstarfsfólki lof fyrir þrautseigju og fórnfýsi? Og pestinni lauk, faraldurinn var kæfður niður í núll smit, þríeykið fékk fálkaorðuna – heimildamyndin var gerð og bókin kom út – erfitt vor að baki, Guði sé lof að það gekk svona líka vonum framar allt saman.
Vinur minn hafði orð á því þá að líklega hefði framvindan sömu formgerð og hryllingsmynd, að einmitt þegar hetjan virðist hafa kvatt skrímslið í kútinn, þá hlýtur það að snúa aftur. Sem það náttúrulega gerði. Og við gripum til aðgerða og héldum okkur heima og þó að það sé ekki hægt að veita sama fólkinu fálkaorðuna tvisvar og tenórarnir hafi ekki viljað endurtaka prógrammið, þá var þetta enn eins og saga. Upphaf, miðja og endir er snyrtilegast. En upphaf, miðja, falskur endir, ný miðja, annar endir, það er auðvitað líka vel þekkt form. Og mátti í þetta sinn pakka inn með sjónvarpsviðtölum, alþjóðlega, um mikilvægi þess að taka mark á vísindunum, litla eyjan sem gat, litla eyjan sem kunni – sögulok.
Nema, auðvitað ekki. Upp aftur. Að baki lágu ákvarðanir – að opna landamærin eins mikið og fljótt og hægt var og það allt – en ég ætla að hunsa ástæðurnar að baki og horfa bara á framvinduna – ef ég man þetta rétt var það eftir þriðju bylgju sem bóluefnin bárust. Og boðuðu ný sögulok. Faraldurinn ekki kveðinn í kútinn en orðinn veigalítill, öll bólusett, fullnaðarsigur – voru þessi sögulok ekki tilkynnt í Hörpunni? Ráðherrar saman þar í himnasalabirtunni, stóru gleðitíðindin?
Sem fór eins og fór. Delta verra. Þetta var ekki búið. Omicron – er það þá búið? Nýr ráðherra tók við völdum og sagði já, þá er þetta búið, nú erum við hætt, nú deyja þau sem deyja – ef hann væri ögn skrafhreifari hefði hann getað sagt eitthvað á við að uppgjöf sé sætasti sigurinn, það voru hin nýju sögulok: með því að gefast upp og láta veiruna vaða yfir okkur komumst við loks í gegnum þetta, smá kúfur, svo verður það búið.
Við erum auðvitað löngu komin fram úr öllum snyrtilegum frásagnarformum. Engin saga er svona í laginu. Og það virðist standa fréttaflutningi um efnið fyrir þrifum. Ég veit að fleira kemur til, alls kyns hagsmunir, alls kyns ómeðvitaðar forsendur, þrýstingur, þreyta, leti – en ég held að frásagnarformin spili líka inn í. Að eftir að boða endi þessarar sögu í fjórða eða fimmta sinn, þá beinlínis trúi sumir blaðamenn, sumir fréttamenn, jafnvel sumir ráðamenn, ekki sínum eigin augum og hunsi gögnin fyrir framan sig. Nei, þessi saga er búin, svo búin, svo löngu búin, og ef hún skilur það ekki sjálf er ekki við okkur að sakast.
Auðvitað eru til sögur sem eru svona í laginu. Við höfum bara ekki mikið verið að fást við þær framan af þessari öld. Fréttastofur gætu þurft að búa sig undir epísk viðfangsefni. Af epískri lengd, epískri stærðargráðu. Og epískum leiðindum.