Við sem vorum þegar orðin rígfullorðin þegar faraldurinn hófst tilheyrum nú öll að einhverju leyti horfnum heimi. Ákveðnar forsendur, hlutir sem við gengum að sem vísum, eru brostnar og verða ekki endurheimtar, ekki auðveldlega, ekki strax, ekki í sömu mynd. Ákveðinn léttleiki sem við tókum ekki eftir að væri léttleiki, ekki frekar en að loftþrýstingurinn hérna er lífvænlegur, þyngdaraflið passlegt, ákveðnir hlutir í ákveðnu jafnvægi.
Það er ekki að ég geti ekki sest á kaffihús og fengið mér kaffi eins og ég var vanur. En ég get ekki sest á kaffihús og fengið mér kaffi eins og ég var vanur án þess að stefna mér og öðrum þar með í svolitla hættu. Hún er meiri núna, þegar smittíðni er há, en hún verður á öðrum tímapunktum. En á meðan faraldurinn stendur yfir verður hún aldrei núll.
Er alltaf tjón eða áhætta af öllu sem við gerum? Ekki svona, nei. Ef verkafólk sætir illri meðferð á hinum enda virðiskeðjunnar, við uppskeru, framleiðslu, flutning á kaffinu til mín, þá er netið á milli mín og þeirra nógu flókið og ógegnsætt til að ég veit ekki hvort þau báru skaða af þeirri ákvörðun minni að kaupa tiltekinn bolla einhvern tiltekinn dag, höfðu hag af því eða hvort ákvörðunin var áhrifalaus á tilveru þeirra. Það er eina mögulega tjónið sem mér dettur í hug, af því að drekka kaffibolla á kaffihúsi, undir venjulegum kringumstæðum – og fælist þá í drykknum en ekki umhverfinu sem hans er neytt í. Að setjast á kaffihús er með öðrum orðum eitthvað sem ég á því að venjast að sé skaðlaust athæfi, eitthvað sem ég get gert í sakleysi. Í faraldrinum sem nú stendur yfir er það ekki tilfellið.
Að setjast á kaffihús er að leggja sitt af mörkum í dreifikerfi veiru sem dregur fólk til dauða. Það orsakasamhengi er ekki skammtafræðilegt grín eins og var vinsælt viðfangsefni kringum aldamótin, að fiðrildi sem blakar vængjunum í einni heimsálfu geti valdið umferðarslysi í annarri. Niðurfelling sóttvarna olli, í liðinni viku, einu til þremur dauðsföllum á dag. Þá takmarka ég talninguna við dauðsföll á þessu landi, þó að smitin hafi vitaskuld afleiðingar víðar. Orsakasamhengið er skýrt. Áhættan af því að setjast á kaffihús, undir þessum kringumstæðum, er klárlega sýnileg á þeim siðferðilega radar sem við annars notum. Hraðahindranir eru settar upp til að koma í veg fyrir slys sem annars gætu einn daginn orðið, plaströr hafa verið tekin úr umferð af samúð með skjaldbökum sem annars gætu fengið þau í nefið.
Það sem á við um kaffibollann á auðvitað við um alla samveru. Að fara í leikhús, bíó, matarboð, sækja tónleika, líta í búðir, fara í frí, svo við horfum bara til þess sem er valkvæmt og við gerum til að njóta. Allt það felur nú í sér áhættu, möguleika á tjóni. Ákvarðanir sem áður voru svo smávægilegar að þær birtust okkur ekki sem ákvarðanir, aðeins hreyfing um rými, þeim fylgir nú siðferðilegur farangur.
Ein leið til að mæta þeirri stöðu er að lágmarka tjón með því að eiga sem minnst samneyti við aðra. Það var fyrsta viðbragð stjórnvalda og almennings í mörgum löndum, þar á meðal hér. Annar möguleiki er að hunsa stöðuna, láta eins og allt sé eins og áður. Það er viðbragðið sem stjórnvöld krefja nú almenning um.
Á milli þessara tveggja öfga eru ótal möguleikar til að draga úr áhættu og létta þannig siðferðilega byrði hversdagslífsins. Þeir eru nýttir víðast hvar. Í Berlínarborg þarf enn FFP2-grímu til að komast í búðir, eða á viðburði með yfir 10 manns, þar er fólk eindregið hvatt til að taka hraðpróf áður en það hittir aðra en sína nánustu og svo framvegis. En ég ætla ekki að fást við það hvað stjórnvöld gætu gert, heldur stöðuna eins og hún er, spurninguna um kaffibollann eins og hún lítur út í Reykjavík, 12. mars 2022, í landi þar sem heilbrigðisráðherra horfir yfir tugi dauðsfalla, kallar þau „tímabundinn kúf“ og leiðir talið að öðru.
Ég reyni að sjá þetta fyrir mér. Ég ímynda mér að ég setjist á kaffihús, innandyra, umkringdur öðru fólki, panti mér bolla, setjist og súpi af kaffinu á meðan ég spjalla við vin, les í bók eða skima gegnum fréttir. Heilsa kunningjum sem skjóta upp kollinum, spjalla. Ég veit að þannig legg ég mitt smáræði af mörkum til að stytta öðru fólki aldur, sem ég vil ekki. Það truflar mig. En ég er kominn til að njóta. Ég þyrfti þá að láta sem ekkert sé. Ég þyrfti að þykjast slappa af og þykjast njóta. Að þykjast er ekki hvíld heldur vinna. Ég myndi þá vinna þá vinnu, að þykjast njóta þess að vera á kaffihúsi, og gæti síðan slappað af yfir kaffibolla þegar ég kæmi aftur heim.
Það væri fáránleg ferð.
Til þess er þó ætlast. „Eðlilegt líf“ er það kallað, og stjórnvöld leggja töluverða áherslu á að við endurheimtum það án þess að faraldurinn sé úr sögunni. Að við látum sem ekkert sé. Þeim virðist ekki þykja sú hugmynd fáránleg. Ég ímynda mér það sé einlægt, að einhverjum úr hópi ráðherra finnist það í alvöru ekki fáránlegt. Frá hvaða sjónarhóli er það mögulegt, frá hvaða sjónarhóli er ekki fáránlegt að þykjast njóta í stað þess að njóta í raun?
Það er ekki fáránlegt á leiksviði, í bíómynd eða í auglýsingu. Þess vegna er ferðaiðnaðurinn fyrsta augljósa svarið, að þessi sviðsetning sé ætluð til markaðssetningar landsins. Við þurfum að sitja á kaffihúsum og þykjast njóta þess, til að ferðamennirnir haldi að við höfum það fínt og vilji vera með okkur. Og líklega leikur það markmið ákveðið hlutverk, í hagkerfi hinnar endalausu fórnfýsi. En ég held að það geti ekki verið allt og sumt. Það getur ekki verið að allir sem sitja á kaffihúsum hafi reiknað það út sem sitt fórnfúsa framlag til vöruskiptajöfnuðarins. Hver og einn hlýtur að bera eitthvað annað úr býtum.
Að líta út fyrir að vera manneskja sem kann að njóta hefur ákveðið gildi. Í einhverjum tilfellum er verðmæti þess meira en nautnin sjálf. Ef þú ert rétt týpa, á réttum aldri, getur myndin af þér að njóta kaffibolla, í réttri birtu og réttu umhverfi, verið töluvert verðmætari en bein nautn þín af kaffibollanum. Veröldin öll er leiksvið og það allt.
Ég er samt ekki sannfærður um að það dugi til. Ég held að nógu margir þekki beina ánægju af því að sitja og drekka kaffi til að láta ekki gott heita að þykjast njóta þess. Ekki í sama mæli, ekki til lengdar, ekki þannig að það gæti haldið kaffihúsunum gangandi. Mér gæti skjátlast um þetta, hér liggur engin rannsókn að baki, bara tilfinning: maginn minn hallast að því að það standist ekki.
Á föstudag lágu hundrað manns á sjúkrahúsi. Færri voru á gjörgæslu en á fimmtudag, því tvö höfðu dáið. Daginn þar áður dó einn, daginn þar áður dóu þrjú, daginn þar áður líka þrjú, og svo framvegis.
Það er mögulegt að kaffihúsin fari á hausinn áður en líður á löngu, að angrið sem fylgi þessum afleiðingum félagslífs án sóttvarna beri sviðsetninguna ofurliði, við höldum það ekki út til lengdar, í þessum kringumstæðum, að þykjast njóta, hvorki af skyldurækni né í atvinnuskyni. Að óathuguðu máli þætti mér þetta sennilegast. Ef ég hefði engin gögn fyrir framan mig.
En gögnin eru þarna og gefa annað til kynna. Og þegar ég segi gögn þá meina ég unga sjónvarpsfréttamenn að greina frá tónleikum í Hörpunni, frjálsum opnunartíma skemmtistaða, stemningunni á djamminu, skötuveislunum á Þorláksmessu. Og ég á ekki bara við fréttamennina heldur glottið framan í þeim. Ég hef séð sama glott á einum eða tveimur þingmönnum, það ferðast milli andlita, festir sig á þeim. Ef ég er læs á glott sýnist mér þetta tiltekna glott til marks um að þeir geri ráð fyrir að áhorfandinn deili leyndarmáli með þeim. Viti meira en sagt er, sé á sömu buxunum.
Ég sagði að fyrir faraldur hefði ekkert tjón eða siðferðileg vídd fylgt kaffibollum. Það er ekki allskostar satt. Meðvitund um að á hinum enda virðiskeðjunnar gæti einhver þjáðst vegna kaffibollans sem þú kaupir varð útbreidd um síðustu aldamót. Þá hófust verkefni til að fyrirbyggja slíkt ranglæti og/eða að gera þér kleift að trúa að það væri fyrirbyggt. Að fair trade-vottaðar kaffibaunir tryggðu bændum og verkafólki sanngjörn laun, græn vottorð staðfestu að vöruflutningurinn væri kolefnisjafnaður og svo framvegis. Slavoj Žižek lagði til framúrskarandi greiningar á sjálfsmyndinni sem fólk reyndist þá tilbúið að greiða fyrir, að kaupa ekki aðeins kaffibollann heldur um leið vottun þess að ánægja þín af bollanum hafi ekki verið á kostnað annarra.
Glottið í sjónvarpinu upp á síðkastið sýnist mér gefa til kynna viðsnúning á þessum virðisauka, að hér standi yfir samfélagslegt átaksverkefni um að njóta, ekki þrátt fyrir að afi og amma geti orðið veik og dáið heldur njóta þess, beinlínis, að vita að afi og amma verða veik af því og deyja. Að til er ánægja af því að valda öðrum tjóni er ekki bara löngu þekkt heldur á meðal fyrstu þekktu bindiefna samfélaga. Fyrir kristnitöku tíðkuðust mannfórnir hér eins og víðar. Andspænis glottinu í sjónvarpinu líður mér eins og ég sé hrifsaður aftur um þúsund ár, þegar höfðingjar eyjunnar ákváðu að byggja samfélag á því að þykjast kristin en halda fornu blótin á laun. Að þar snúi aftur, á opinberum vettvangi, ánægjan af mannfórnum. Í stað þess að hverjum kaffibolla fylgi vottun um að enginn hafi þjáðst fyrir hann, fylgi honum nú loforð um að einhver muni áreiðanlega þjást af völdum hans. Komi með eins og sykurmoli. Ekki bögg heldur feature.
Kannski er nóg að tala um forherðingu. Ég vil ekki búa í forhertu samfélagi. Hvað þýðir það að 2019 snúi ekki aftur? Það þýðir að faraldurinn hefur ekki minni áhrif á okkur þó að við hunsum hann. Aðeins önnur áhrif og mögulega talsvert verri. Mér sýnast hversdagslegar sóttvarnir skárri valkostur en að menning og félagslíf hvíli á opinberum mannfórnum. Ekki aðeins fyrir þau okkar sem er fórnað heldur líka þau okkar sem eftir lifa, sitja uppi með það samfélag sem við höfum þá skapað, þær forsendur sem við höfum lagt rækt við.