Ný plága! Mild­ari! Tífalt hraðari!

11.3.2022 ~ 4 mín

Fram að síðustu áramótum höfðu, samkvæmt opin­berum tölum, 37 manns látið lífið af völdum Covid-19 á Íslandi. Í dag, 10. mars 2022, er sú tala 77. Fleiri hafa nú þegar dáið af völdum Covid það sem af er þessu ári en fyrstu tvö ár farald­urs­ins saman­lagt.1

Fleiri á 68 dögum en á 680 dögum fram að því. Það er tífaldur hraði.

Var þessi hröðun óhjá­kvæmi­leg? Nei. Veldur Omicron-afbrigðið þess­ari fjölgun dauðs­falla alls staðar? Nei, ekki heldur. Ísland stát­aði af einhverjum besta árangri Evrópu í faraldr­inum fyrstu tvö árin, út frá þessum einfalda mæli­kvarða, að hér dóu þó færri en víðast. Nú er landið í fyrsta sinn komið fram úr meðal-dánar­tíðni í löndum álfunnar. Fram að áramótum voru uppsöfnuð smit um helm­ingi færri hér en að meðal­tali í Evrópu. Nú eru þau tvöfalt fleiri hér en þar. Hvers vegna hefur ekki orðið hlið­stæð þróun þar? Vegna þess að þar eru enn viðhafðar sótt­varnir. Ekki neitt lockdown, bara skipu­lagðar, einfaldar, hvers­dags­legar ráðstaf­anir. Í Berlín­ar­borg, alræmdri fyrir frjáls­lyndi, er til dæmis enn engum hleypt inn í verslun án FFP2-grímu.

Hvers vegna voru þá allar sótt­varnir felldar niður á Íslandi? Stysta svarið væri: vegna þess að þær voru felldar niður í Danmörku. En auðvitað er metingur við lítið, sérvisku­legt konungs­ríki ekki allt og sumt. Sú rökvísi liggur að baki þess­ari breyttu stefnu að með útbreiðslu smita nú megi vonast eftir auknu ónæmi fyrir sama sjúk­dómi, síðar meir. Það er fram­andi rökvísi fyrir mann­eskjur, hverja og eina. Fyrir hvert og eitt okkar er ekkert unnið með því að smit­ast af sjúk­dómi til að varna því að smit­ast af sama sjúk­dómi. Ef sótt­varnir snúast um þann ávinn­ing að lengja lífið, helst við góða heilsu, þá er hreint tap af því að flýta þess­ari áhættu.

Bóndi getur hins vegar hugsað á þessum nótum um skepn­urnar sínar. Ef engin hætta er á að sjúk­dómur felli bústofn­inn, ef býlið er ekki í hættu, þá getur verið skyn­sam­legt að láta faraldur ganga yfir sem hrað­ast, þó að nokkrar skepnur falli.

Opin­berar sótt­varnir – og opin­bert sinnu­leysi um sótt­varnir – snúast um býlið eða verbúð­ina, um eyríkið sem rekstr­arein­ingu. Fyrir síðustu kosn­ingar sagði einhver að nú væri frjáls­hyggja liðin undir lok, sem hugmynda­fræði. En hún ákvað þá að minna svona á sig beint í kjöl­farið og bíta til blóðs. Afstaða íslenskra stjórn­valda til farald­urs­ins nú er frjáls­hyggja að því leyti sem hún snýst um að afnema reglur í þágu sameig­in­legra varna og uppræta samstöðu. En hún er líka þjóð­ern­is­hyggja að því leyti sem hún krefur þannig raun­veru­legar mann­eskjur, einstak­linga, um að fórna lífi sínu eða annarra fyrir meintan þjóð­ar­hag. Þannig afhjúpar þessi kafli í sögu farald­urs­ins hvernig þetta tvennt, frjáls­hyggja og þjóð­ern­is­hyggja, er sitt hvor hliðin á sama fyrir­bær­inu, hugmynd­inni um fyrir­tækið. Að það að tilheyra samfé­lagi sé að tilheyra fyrir­tæki. Og þegar afkoma fyrir­tæk­is­ins er í húfi sé óhag­kvæmum einingum – „viðkvæmum hópum“ – fórnandi.

Auðvitað væri ærlegra að halda einfald­lega fórn­ar­at­hafnir, klæð­ast kuflum, kasta fólki á bálköst og kyrja sálma um eðli­legt líf, undir­liggj­andi sjúk­dóma og muninn á forsetn­ing­unum með og vegna, á meðan fólkið brennur. Það væri heið­ar­legra, en hér er löng hefð fyrir því að blóta heiðin goð á laun. Annars vegar. Hins vegar samræm­ast blóð­fórnir illa ímynd lands­ins, færu ekki vel í verð­mæt­ustu ferðamennina.

Í því ljósi er kannski ekki skrítið að fjöl­miðlar þegi um afleið­ingar þess­arar stefnu. Þeirrar stefnu í sótt­vörnum að fella þær niður. Líklega hættu fjöl­miðlar frétta­flutn­ingi um málið af sömu ástæðu. Skyldu­rækni. Við þjóðarhag.


P.S. Ónæmið. Það er ekki víst að það sé þarna.

P.P.S. Ourworldindata.org tekur saman opin­ber gögn og gerir aðgengileg.

References
1 Þann 24. febrúar dró reyndar Sjúkra­húsið á Akur­eyri eina skrán­ingu til baka, og vísaði til nýrrar skil­grein­ingar land­læknis á dauðs­föllum af völdum Covid. Ég hef ekki séð þá skil­grein­ingu, en hún hefur semsagt verið þrengd á tíma­bil­inu. Því má gera ráð fyrir að þessi fjölgun sé varlega áætluð, ef eitt­hvað er.