Fram að síðustu áramótum höfðu, samkvæmt opinberum tölum, 37 manns látið lífið af völdum Covid-19 á Íslandi. Í dag, 10. mars 2022, er sú tala 77. Fleiri hafa nú þegar dáið af völdum Covid það sem af er þessu ári en fyrstu tvö ár faraldursins samanlagt.1
Fleiri á 68 dögum en á 680 dögum fram að því. Það er tífaldur hraði.
Var þessi hröðun óhjákvæmileg? Nei. Veldur Omicron-afbrigðið þessari fjölgun dauðsfalla alls staðar? Nei, ekki heldur. Ísland státaði af einhverjum besta árangri Evrópu í faraldrinum fyrstu tvö árin, út frá þessum einfalda mælikvarða, að hér dóu þó færri en víðast. Nú er landið í fyrsta sinn komið fram úr meðal-dánartíðni í löndum álfunnar. Fram að áramótum voru uppsöfnuð smit um helmingi færri hér en að meðaltali í Evrópu. Nú eru þau tvöfalt fleiri hér en þar. Hvers vegna hefur ekki orðið hliðstæð þróun þar? Vegna þess að þar eru enn viðhafðar sóttvarnir. Ekki neitt lockdown, bara skipulagðar, einfaldar, hversdagslegar ráðstafanir. Í Berlínarborg, alræmdri fyrir frjálslyndi, er til dæmis enn engum hleypt inn í verslun án FFP2-grímu.
Hvers vegna voru þá allar sóttvarnir felldar niður á Íslandi? Stysta svarið væri: vegna þess að þær voru felldar niður í Danmörku. En auðvitað er metingur við lítið, sérviskulegt konungsríki ekki allt og sumt. Sú rökvísi liggur að baki þessari breyttu stefnu að með útbreiðslu smita nú megi vonast eftir auknu ónæmi fyrir sama sjúkdómi, síðar meir. Það er framandi rökvísi fyrir manneskjur, hverja og eina. Fyrir hvert og eitt okkar er ekkert unnið með því að smitast af sjúkdómi til að varna því að smitast af sama sjúkdómi. Ef sóttvarnir snúast um þann ávinning að lengja lífið, helst við góða heilsu, þá er hreint tap af því að flýta þessari áhættu.
Bóndi getur hins vegar hugsað á þessum nótum um skepnurnar sínar. Ef engin hætta er á að sjúkdómur felli bústofninn, ef býlið er ekki í hættu, þá getur verið skynsamlegt að láta faraldur ganga yfir sem hraðast, þó að nokkrar skepnur falli.
Opinberar sóttvarnir – og opinbert sinnuleysi um sóttvarnir – snúast um býlið eða verbúðina, um eyríkið sem rekstrareiningu. Fyrir síðustu kosningar sagði einhver að nú væri frjálshyggja liðin undir lok, sem hugmyndafræði. En hún ákvað þá að minna svona á sig beint í kjölfarið og bíta til blóðs. Afstaða íslenskra stjórnvalda til faraldursins nú er frjálshyggja að því leyti sem hún snýst um að afnema reglur í þágu sameiginlegra varna og uppræta samstöðu. En hún er líka þjóðernishyggja að því leyti sem hún krefur þannig raunverulegar manneskjur, einstaklinga, um að fórna lífi sínu eða annarra fyrir meintan þjóðarhag. Þannig afhjúpar þessi kafli í sögu faraldursins hvernig þetta tvennt, frjálshyggja og þjóðernishyggja, er sitt hvor hliðin á sama fyrirbærinu, hugmyndinni um fyrirtækið. Að það að tilheyra samfélagi sé að tilheyra fyrirtæki. Og þegar afkoma fyrirtækisins er í húfi sé óhagkvæmum einingum – „viðkvæmum hópum“ – fórnandi.
Auðvitað væri ærlegra að halda einfaldlega fórnarathafnir, klæðast kuflum, kasta fólki á bálköst og kyrja sálma um eðlilegt líf, undirliggjandi sjúkdóma og muninn á forsetningunum með og vegna, á meðan fólkið brennur. Það væri heiðarlegra, en hér er löng hefð fyrir því að blóta heiðin goð á laun. Annars vegar. Hins vegar samræmast blóðfórnir illa ímynd landsins, færu ekki vel í verðmætustu ferðamennina.
Í því ljósi er kannski ekki skrítið að fjölmiðlar þegi um afleiðingar þessarar stefnu. Þeirrar stefnu í sóttvörnum að fella þær niður. Líklega hættu fjölmiðlar fréttaflutningi um málið af sömu ástæðu. Skyldurækni. Við þjóðarhag.
P.S. Ónæmið. Það er ekki víst að það sé þarna.
P.P.S. Ourworldindata.org tekur saman opinber gögn og gerir aðgengileg.
↑1 | Þann 24. febrúar dró reyndar Sjúkrahúsið á Akureyri eina skráningu til baka, og vísaði til nýrrar skilgreiningar landlæknis á dauðsföllum af völdum Covid. Ég hef ekki séð þá skilgreiningu, en hún hefur semsagt verið þrengd á tímabilinu. Því má gera ráð fyrir að þessi fjölgun sé varlega áætluð, ef eitthvað er. |
---|