Dauðsföll vegna Covid-19 teljast aðeins þau sem eiga sér stað af völdum sjúkdómsins innan 28 daga frá greiningu. Samkvæmt þeirri talningu hafa nú 73 manneskjur látist af völdum faraldursins á Íslandi það sem af er þessu ári, það er í omicron-bylgjunni. Á þremur og hálfum mánuði. 73 manneskjur á Íslandi jafngilda, sem hlutfall af íbúafjölda, 280 þúsund manns í Kína. Það er því afar, afar varkárt mat, afar naumt talið, að ef sama afbrigði veirunnar léki lausum hala í Kína myndu að minnsta kosti 280 þúsund manns láta lífið af hennar völdum. Leggjum allt hitt til hliðar, að dauðsföllin yrðu líklega enn fleiri, bólusetningar þar eru ekki jafn útbreiddar og hér, horfum fram hjá því hversu margir verða veikir til langframa, fjölgun munaðarlausra barna – í Bandaríkjunum eru 200 þúsund börn nú munaðarlaus vegna dauðsfalla í faraldrinum – og horfum fram hjá þeirri hröðun sem getur orðið á þróun nýrra afbrigða með útbreiðslu smita í svo fjölmennu landi. Látum eins og eina afleiðingin af því að fella niður sóttvarnir í Kína væru 280.000 dauðsföll. Hvernig hefur lífssýn okkar þróast síðustu tvö ár, gildismat þessa samfélags, hvers konar barbarismi hefur verið samþykktur sem rökfestan í tilveru okkar, ef það vekur furðu og veldur áhyggjum hér að stjórnvöld í Kína séu tilbúin að kosta nokkru til, til að forðast 280.000 ótímabær dauðsföll?
Sérvitrir þessir kommúnistar
15.4.2022
~ 1 mín