Ímynd­un­ar­veikin

02.5.2022 ~ 3 mín

„Sérfræð­ingar matvæla­stofn­unar telja að hest­höfuð, sem fannst á stöng við Esjurætur á föstu­dag­inn, hafi verið af hesti sem var aflíf­aður með mann­úð­legum hætti.“

Það er ekkert lát á nýjum setn­ingum þessa dagana. Ég hefði ekki séð þessa fyrir. Birt­ist í fréttamiðli í dag, mánu­dag­inn 2. maí.

Millj­ónir sjálf­boða­liða starfa fyrir Twitter dag frá degi, þar á meðal, stundum, ég. Fyrir miðil sem nú er í einka­eigu ríkasta manns í heimi. Miðill­inn nær svo víða að jafn­vel efni sem alls ekki hentar honum birt­ist þar, að mér sýnist, í vaxandi mæli. Fólk birtir þar nokkuð langar ritgerðir, bútaðar niður í 280 tákna parta, þræði, sem geta hver orðið margir tugir tísta að lengd. Hverju tísti í þræð­inum geta síðan fylgt önnur tíst, annars fólks, trjá­greinar svo text­inn kvísl­ast hingað og þangað. Ég var alinn upp í aðeins línu­legri heimi og verð líklega alltaf aðeins betur heima hjá mér þar. En það var ekki það sem ég ætlaði að segja heldur bara hitt að á meðan aðrir birta langar ritgerðir á Twitter, þá finnst mér freist­andi að nota þetta blogg til að láta frá mér svona örfærslur. Varla neitt neitt.

Til að láta eins og hér sé enn heimur og ég sé í honum. Enn lít ég á farald­ur­inn sem mesta áhyggju­efni veraldar, svo óskap­legt að allar aðrar fréttir séu fyrst og fremst smjörklípur, til þess fallnar að draga athygli okkar þaðan. En það þýðir ekki að tala um það, það hefur ekkert upp á sig, hin skila­boðin hafa svo miklu meira aðdrátt­ar­afl, á svo marga vegu, að enn sé öllum fyrir bestu að gera ekki neitt. Þau nokkur hundruð tilfelli lifr­ar­bólgu meðal barna sem komið hafa upp í heim­inum á undan­förnum vikum, það er alls ekki víst að það sé veiran sem valdi þeim. Og það er alls ekki víst að veiran, sem ræðst á fjölda kerfa í líkam­anum, sé hlið­stæð við HIV að því leyti að alvar­leg­ustu afleið­ing­arnar komi í flestum tilfellum fram mörgum árum eftir smit. Ef til vill eru nú til nokkuð skýr módel af því hversu mikið einföld ráð og lítið íþyngj­andi, á við grímu­notkun og bætt loft­gæði, geta fækkað smitum. Aftur á móti er alls ekki víst hversu miklu máli skiptir, til lengri tíma litið, hvort maður smit­ast einu sinni eða oftar, af einu afbrigði eða fleirum, og hversu miklu sótt­varnir breyta þá héðan af, þegar flestir hafa smit­ast hvort eð er. Þegar flest snýst um óvissu þá er uggur ófag­lærðra kvíða­sjúk­linga úti í bæ sann­ar­lega ekki áreið­an­legur átta­viti. Ekki myndi ég taka mark á mér.

Yfir­maður WHO, Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­ar­innar eins og hefð er að bæta við á íslensku, Tedros Adhanom Ghebr­eyesus, lét frá sér tíst á sunnu­dag, fyrsta maí. Það var hluti af lengri þræði, eitt úr röð tísta, svo kannski má segja að ég slíti það úr samhengi – en tíst er það þó, svohljóð­andi, eitt og sér: Imag­ine look­ing forw­ard to nothing. Hugsa sér að horfa ekki fram á neitt. Hugsa sér að vænta einskis. Ímynd­aðu þér að hlakka ekki til neins. Hvernig sem best færi á að þýða það – samkvæmt Google er þetta, rétt eins og fréttalínan um mann­eskju­lega aflífun níðstang­ar­hests­ins, ný setn­ing. Enginn hefur látið þetta frá sér í neinu ritmáli sem leit­ar­vél­inni er kunn­ugt um, þessi fimm orð í þess­ari röð. Imag­ine look­ing forw­ard to nothing. Tedros er með öðrum orðum ekki í bjartsýniskasti.