Sú kenning er til innan líffræðinnar, frá því löngu áður en þessi faraldur brast á, að sá fjöldi vírusa sem leynist oft í leðurblökum, án þess að valda þeim sjálfum tjóni, eigi sér þróunarsögulegar rætur sem eins konar vopnabúr leðurblakanna. Það er að segja, bíttin í því samlífi tegundanna felist í að leðurblökurnar leyfa veirunum að þrífast en þær veita leðurblökunum á móti innistæðu fyrir orðlausri hótun í garð hvaða tegundar sem ógnar þeim. Það bjargar ekki sjálfri leðurblökunni sem þú borðaðir þó að þú veikist í kjölfarið en til lengri tíma litið, segir kenningin, gæti það bjargað stofninum og jafnvel tegundinni að slík neysla hafi stundum voveiflegar afleiðingar í för með sér. Veirurnar eru þá eins konar gereyðingarvopn leðurblakanna, varnir þeirra hvíla á þessum fælingarmætti. Kannski hefur eitthvert slíkt minni, arfur af fyrri viðureignum tegundanna, sitt að segja um hvað flestum þykja leðurblökur skelfilegar, um viðbjóðinn sem þær geta vakið.
Og sú tilgáta hefur þá líka heyrst að kórónaveiran sem heimsbyggðin glímir nú við sé ættuð úr þessu sýklavopnabúri allt annarrar tegundar. Mér finnst það heillandi tilgáta. Ekkert hefur enn verið staðfest um uppruna veirunnar, það ég viti, svo þessu má öllu taka með nokkrum fyrirvara. En neysla á leðurblökukjöti er ofarlega á lista.
Líklega tækjum við pestina meira alvarlega ef við litum á hana sem árás frekar en óhapp. Ef manneskja, hópur eða ríki væri ábyrg fyrir þeim milljónum dauðsfalla sem faraldurinn hefur þegar valdið, svo ekki sé minnst á bilunina framundan, heilabilunina, hjartabilunina, stoðkerfisbilunina og hvað sem annað kemur í ljós, þá held ég að við hefðum ekki lagt svona fúslega upp laupana. Kannski væri að því leyti gagnlegt að hugsa um aðrar tegundir, ekki beint sem persónur, en ekki heldur alfarið persónulausar.