Sú tilgáta líffræð­innar að B‑myndin sem við lifum í heiti Hefnd leðurblökunnar

04.5.2022 ~ 1 mín

Sú kenn­ing er til innan líffræð­innar, frá því löngu áður en þessi faraldur brast á, að sá fjöldi vírusa sem leyn­ist oft í leður­blökum, án þess að valda þeim sjálfum tjóni, eigi sér þróun­ar­sögu­legar rætur sem eins konar vopna­búr leður­blak­anna. Það er að segja, bíttin í því samlífi tegund­anna felist í að leður­blök­urnar leyfa veir­unum að þríf­ast en þær veita leður­blök­unum á móti inni­stæðu fyrir orðlausri hótun í garð hvaða tegundar sem ógnar þeim. Það bjargar ekki sjálfri leður­blök­unni sem þú borð­aðir þó að þú veikist í kjöl­farið en til lengri tíma litið, segir kenn­ingin, gæti það bjargað stofn­inum og jafn­vel tegund­inni að slík neysla hafi stundum voveif­legar afleið­ingar í för með sér. Veir­urnar eru þá eins konar gereyð­ing­ar­vopn leður­blak­anna, varnir þeirra hvíla á þessum fæling­ar­mætti. Kannski hefur eitt­hvert slíkt minni, arfur af fyrri viður­eignum tegund­anna, sitt að segja um hvað flestum þykja leður­blökur skelfi­legar, um viðbjóð­inn sem þær geta vakið.

Og sú tilgáta hefur þá líka heyrst að kóróna­veiran sem heims­byggðin glímir nú við sé ættuð úr þessu sýkla­vopna­búri allt annarrar tegundar. Mér finnst það heill­andi tilgáta. Ekkert hefur enn verið stað­fest um uppruna veirunnar, það ég viti, svo þessu má öllu taka með nokkrum fyrir­vara. En neysla á leður­blöku­kjöti er ofar­lega á lista.

Líklega tækjum við pest­ina meira alvar­lega ef við litum á hana sem árás frekar en óhapp. Ef mann­eskja, hópur eða ríki væri ábyrg fyrir þeim millj­ónum dauðs­falla sem farald­ur­inn hefur þegar valdið, svo ekki sé minnst á bilun­ina framundan, heila­bil­un­ina, hjarta­bil­un­ina, stoð­kerf­is­bil­un­ina og hvað sem annað kemur í ljós, þá held ég að við hefðum ekki lagt svona fúslega upp laup­ana. Kannski væri að því leyti gagn­legt að hugsa um aðrar tegundir, ekki beint sem persónur, en ekki heldur alfarið persónulausar.