Þessi nýstár­lega ómennska að nenna ekki

25.6.2022 ~ 4 mín

Megnið af mann­legu athæfi snýst um sjúk­dóma­varnir. Í hvert sinn sem við nærumst, sem við gerum flest nokkrum sinnum á dag, er það til að forða hungri. Sama á við um elda­mennsk­una sem tilheyrir næring­unni, innkaupin og hvaða tekju­öflun sem þarf til að standa undir þessu mark­miði, máltíð­inni. Að fara í sturtu eða bað eru siðir sem við tókum upp á þegar hrein­læti reynd­ist þarft til að halda sýklum í skefjum. Svo ekki sé minnst á að ryksuga, sópa, þurrka af, þrif almennt. Líkams­rækt og íþróttir eru allar upphaf­lega hugs­aðar til að halda betri heilsu lengur en ella. Sama á við um útivist og ýmis­legt fleira sem fólk gerir sér til dægra­dvalar. Klæðn­aður snýst um sjúk­dóma­varnir, sérstak­lega hér á kald­ari hliðum jarðar, líkt og það að búa í húsum og öll vinnan sem þeim tilheyrir: að reisa þau, að kynda þau, að viðhalda þeim. Og að hvílast á milli anna, hanga í sófa, sofa í rúmi, það er lífs­nauð­syn­legt líka, það eru líka sjúk­dóma­varnir. Þannig mætti áfram telja. Þau örfáu athæfi sem ekki snúast um sjúk­dóma­varnir eru það sem kall­ast menn­ing og afþrey­ing: listir, skemmt­anir, bókmenntir. Það getur allt á einn eða annan veg talist lífs­nauð­syn­legt líka en ekki á jafn beinan og brýnan máta. Þú getur fastað í dag og á morgun en ef þú borðar ekkert í mánuð þá deyrðu. Þú getur gengið um klæð­laus á meðan vel viðrar en ef þú ferð allra leiða þinna án fatn­aðar gegnum næsta vetur þá deyrðu. Þú getur vakað þessa nótt og næstu en ef þú heldur því áfram mikið lengur en viku þá deyrðu. Þó að þú þrífir hvorki þig né híbýli þín þetta árið og næsta árið þá lifirðu það senni­lega af, en fjölgar miðum þínum í örveru­lottó­inu, lífs­líkur okkar myndu drag­ast saman ef við gerðum það öll í einu og við myndum að jafn­aði deyja fyrr.

Af þessu mætti ætla að allt þetta gerðum við í miklu dauð­ans ofboði – hróp­uðum til himna í hvert sinn sem við reimum á okkur skóna, fórn­uðum höndum við hverja máltíð, hámuðum hana í okkur, fegin að sleppa lifandi nokkrar klukku­stundir enn. En þannig er það ekki. Því okkur er það tamt að gera dygð úr neyð. Að velja hvað við borðum, gera okkur leik úr matreiðsl­unni, njóta máltíð­ar­innar. Velja föt af kost­gæfni, skoða þau í spegli, láta okkur líða vel í þeim. Njóta okkar. Statt og stöð­ugt, í gegnum daginn, erum við að finna fleti á að njóta þess að varna lífs­hættu­legum sjúk­dómum, slá dauð­anum á frest.

Það er allt og sumt. Við höldum dauð­anum ekki varan­lega í skefjum, við sláum honum aðeins á frest, svo lengi sem okkur er það fært. Til að njóta þess að halda áfram að gera einmitt það, finna fleti á að gera okkur það að leik.

Mann­leg tilvera er fárán­leg en þetta er eitt­hvert kjarna­at­riði í því sem má kalla manns­and­ann: að finna hvers­dags­lega ánægju í því sem væri alveg líka hægt að gera í angist og dauð­ans ofboði.

Og það er meðal annars þess vegna sem það er eins og við séum að brjóta á einhverju veru­lega djúp­stæðu þegar við ákveðum, andspænis einni nýrri hættu, sem við gætum í sama skiln­ingi sigr­ast á – ekki fyrir fullt og allt, ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur dag fyrir dag, skref fyrir skref – að þá skulum við allt í einu ákveða: nei, nú er nóg komið. Hingað og ekki lengra. Þess­ari hættu höldum við ekki í skefjum, það væri of langt gengið, hún verður bara að fá að hafa sinn gang og salla niður fólk, því ég nenni ekki meir. Ég ætla að halda áfram að njóta matar­ins, njóta fatn­að­ar­ins, njóta bíls­ins míns og húss­ins og hand­þvott­ar­ins og sturt­unnar og víta­mín­anna sem ég tek og líkams­rækt­ar­innar sem ég stunda og heilsu­drykkj­anna, og alls hins sem ég ver dögunum í að gera til að halda heilsu aðeins lengur, forða sjúk­dómum og fresta dauða mínum, nú ætla ég að fá að halda því öllu áfram í friði án þess að gera mér þetta ómak. Að setja upp grímu, bæta loftræst­ingu, virða fjar­lægð, opna glugga. Hvað það væri. Andspænis þessum veik­indum, þess­ari birt­ing­ar­mynd dauð­ans neita ég, og við öll, að gera hætishót.

Það passar ekki. Ekki sem grund­vall­ar­ákvörðun samfé­lags. Það er eitt­hvað ómennskt við hana. Ekki það að nenna ekki, við eigum öll okkar daga. Heldur að taka höndum saman um það sem grund­vall­ar­at­riði. Boðorðið: Þú skalt ekki nenna þessu. Eða yfir­lýs­ingin, að standa upp frá borði í mótmæla­skyni, segja einum rómi: Ekkert okkar nennir þessu. Sameinuð nennum við þessu ekki. Sundruð nennum við þessu ekki heldur. Og ganga svo út. Það stemmir ekki.