„Það er ekki í samræmi við góða siði að geispa í nærveru konungs. Ég banna þér að gera það!“
Eitthvað í þá veru sagði konungur á fjarlægri plánetu við Litla prinsinn, þegar hann bar þar að garði, í sögu Antoines de Saint-Exupéry. Og prinsinn sagðist ekkert ráða við sig, hann væri kominn úr langri ferð, hefði ekkert sofið. „Ó, jæja þá,“ svaraði konungurinn. „Þá skipa ég þér að geispa. Ég hef ekki séð neinn geispa árum saman. Mér þykja geispar forvitnilegir. Svona nú! Geispaðu aftur! Það er skipun.“
„Má ég setjast?“ spurði prinsinn stuttu síðar. „Ég skipa þér að gera það“ svaraði konungurinn. „Má ég spyrja þig að svolitlu …“ – „Ég skipa þér að spyrja mig.“ Og þá spyr prinsinn yfir hverju kóngurinn ríki. „Yfir öllu“ svarar hann. – „Og stjörnurnar hlýða þér?“ – „Svo sannarlega. Þær hlýða samstundis. Ég líð engan uppsteyt“.
Prinsinn biður þá konunginn um að láta sólina setjast, sér þætti svo indælt að sjá sólsetur. Allt í lagi, segir konungur að lokum, „þú færð sólsetrið þitt, ég mun skipa fyrir um það. En samkvæmt stjórnunarfræðum mínum mun ég bíða þar til aðstæður eru hagstæðar.“ Og hvenær verður það? spyr prinsinn. Kóngurinn leit þá á almanak, hummaði svolítið og svarar loks: „Það verður í kvöld um klukkan tuttugu mínútur í átta. Þá munt þú sjá hversu vel mér er hlýtt.“
Sagan er lengri, tíundi kafli Litla prinsins, og sjálfsagt hefur hún verið betur þýdd í íslenskri útgáfu. En meginatriðin eru á þessa leið. Kóngurinn býr einn á fjarlægri plánetu, ríkir yfir öllu, segir hann, en ræður í reynd engu. Áður en prinsinn yfirgefur plánetu kóngsins rétt nær kóngurinn að kalla til prinsins að þar með sé hann orðinn sendiherra sinn. Allt skal í orði kveðnu vera upp á hann komið.
Þetta er ekki bara saga um narsissisma, heldur um vald. Og hún hvarflaði að mér þegar ég sá í fréttum að Bandaríkjaforseti lýsti því nú yfir að heimsbyggðin standi á barmi kjarnorkustyrjaldar, það verði ragnarök ef forseti Rússlands bakkar ekki. Undanliðið ár hefur Biden, eins og leiðtogar Vesturlanda yfirleitt, lagt mikið á sig og aðra til að sannfæra íbúa ríkja sinna um að óþarft sé að óttast heimsfaraldurinn, við höfum stjórn á honum. Öllum sé óhætt – eiginlega skipað – að lifa á ný „eðlilegu lífi“. Því ekki ætlum við að lifa í ótta. Að því sögðu: nú megið þið hríðskjálfa því veröldin stendur á barmi tortímingar.
Hver er munurinn á óttanum við smitsjúkdóm og óttanum við kjarnorkustyrjöld? Frá sjónarhóli konungsins í kafla tíu er stærsti munurinn sá að smitsjúkdómnum ræður hann ekki, þann ógnvald særði hann ekki fram sjálfur. En ef hann getur haft í hótunum með vopnaburði, þá er ótti fólks á hans valdi. Ríkið stendur þann ótta ekki bara af sér, ríkið stendur á honum.
Rússlandsforseti hefur auðvitað verið að gera einmitt þetta, svo mánuðum skiptir, gera veröldinni ljóst að ef eitthvað er að óttast þá sé það hann.
Alþjóðastjórnmál eru flókin og ég hef enga haldbæra skýringu á því hvers vegna við erum hingað komin. Þetta hér er engin greining. En á þarsíðustu öld, þegar örverur uppgötvuðust, og tjónið sem þær geta valdið í líkömum fólks, þá er sagt að fjöldi konunga og konungshirða hafi átt erfitt með að fallast á að eitthvað svo ógnarsmátt gæti haft úrslitaáhrif á tilveru svo stórra persóna, jafnvel heilla ríkja. Ég er ekki viss um að við séum alfarið vaxin upp úr því, að við séum búin að fallast á það tilfinningalega, sem þá var kenning, kenningin um örverur, þó að hún sé nú fyrir löngu rækilega staðfest. Og það hvarflar að mér, ég er ekki viss hvort það er í gráu gríni eða jafn grárri alvöru, en það hvarflar að mér að það eigi hugsanlega sinn þátt í þessu rugli, þessum stríðsæsingi, því sem virðist óbilandi vilji allra deilandi aðila til að stefna veröldinni fram að hengifluginu. Að þau sem ráða ríkjum hafi séð að allt var á leið til fjandans hvort eð er og vilji þá heldur hafa hönd í bagga, vilji heldur að það verði af völdum þeirra eigin vopnaskaks en veirukrílis. Auðvitað ekki alfarið meðvitað, þau myndu ekki segja það svona eða kannast við það. En innst inni, eins og það heitir. Að innst inni vilji leiðtogar ríkja ef til vill öðru fremur að ríkin þeirra og valdið standi í stað þótt veröldin farist.