Í kvöld um klukkan tutt­ugu mínútur í átta

07.10.2022 ~ 4 mín

„Það er ekki í samræmi við góða siði að geispa í nærveru konungs. Ég banna þér að gera það!“

Eitt­hvað í þá veru sagði konungur á fjar­lægri plán­etu við Litla prins­inn, þegar hann bar þar að garði, í sögu Antoines de Saint-Exupéry. Og prins­inn sagð­ist ekkert ráða við sig, hann væri kominn úr langri ferð, hefði ekkert sofið. „Ó, jæja þá,“ svar­aði konung­ur­inn. „Þá skipa ég þér að geispa. Ég hef ekki séð neinn geispa árum saman. Mér þykja geispar forvitni­legir. Svona nú! Geisp­aðu aftur! Það er skipun.“

„Má ég setj­ast?“ spurði prins­inn stuttu síðar. „Ég skipa þér að gera það“ svar­aði konung­ur­inn. „Má ég spyrja þig að svolitlu …“ – „Ég skipa þér að spyrja mig.“ Og þá spyr prins­inn yfir hverju kóng­ur­inn ríki. „Yfir öllu“ svarar hann. – „Og stjörn­urnar hlýða þér?“ – „Svo sann­ar­lega. Þær hlýða samstundis. Ég líð engan uppsteyt“.

Prins­inn biður þá konung­inn um að láta sólina setj­ast, sér þætti svo indælt að sjá sólsetur. Allt í lagi, segir konungur að lokum, „þú færð sólsetrið þitt, ég mun skipa fyrir um það. En samkvæmt stjórn­un­ar­fræðum mínum mun ég bíða þar til aðstæður eru hagstæðar.“ Og hvenær verður það? spyr prins­inn. Kóng­ur­inn leit þá á almanak, hummaði svolítið og svarar loks: „Það verður í kvöld um klukkan tutt­ugu mínútur í átta. Þá munt þú sjá hversu vel mér er hlýtt.“

Sagan er lengri, tíundi kafli Litla prins­ins, og sjálfsagt hefur hún verið betur þýdd í íslenskri útgáfu. En megin­at­riðin eru á þessa leið. Kóng­ur­inn býr einn á fjar­lægri plán­etu, ríkir yfir öllu, segir hann, en ræður í reynd engu. Áður en prins­inn yfir­gefur plán­etu kóngs­ins rétt nær kóng­ur­inn að kalla til prins­ins að þar með sé hann orðinn sendi­herra sinn. Allt skal í orði kveðnu vera upp á hann komið.

Þetta er ekki bara saga um nars­iss­isma, heldur um vald. Og hún hvarfl­aði að mér þegar ég sá í fréttum að Banda­ríkja­for­seti lýsti því nú yfir að heims­byggðin standi á barmi kjarn­orku­styrj­aldar, það verði ragnarök ef forseti Rúss­lands bakkar ekki. Undan­liðið ár hefur Biden, eins og leið­togar Vest­ur­landa yfir­leitt, lagt mikið á sig og aðra til að sann­færa íbúa ríkja sinna um að óþarft sé að óttast heims­far­ald­ur­inn, við höfum stjórn á honum. Öllum sé óhætt – eigin­lega skipað – að lifa á ný „eðli­legu lífi“. Því ekki ætlum við að lifa í ótta. Að því sögðu: nú megið þið hríð­s­kjálfa því veröldin stendur á barmi tortímingar.

Hver er munur­inn á óttanum við smit­sjúk­dóm og óttanum við kjarn­orku­styrj­öld? Frá sjón­ar­hóli konungs­ins í kafla tíu er stærsti munur­inn sá að smit­sjúk­dómnum ræður hann ekki, þann ógnvald særði hann ekki fram sjálfur. En ef hann getur haft í hótunum með vopna­burði, þá er ótti fólks á hans valdi. Ríkið stendur þann ótta ekki bara af sér, ríkið stendur á honum.

Rúss­lands­for­seti hefur auðvitað verið að gera einmitt þetta, svo mánuðum skiptir, gera veröld­inni ljóst að ef eitt­hvað er að óttast þá sé það hann.

Alþjóða­stjórn­mál eru flókin og ég hef enga hald­bæra skýr­ingu á því hvers vegna við erum hingað komin. Þetta hér er engin grein­ing. En á þarsíð­ustu öld, þegar örverur uppgötv­uð­ust, og tjónið sem þær geta valdið í líkömum fólks, þá er sagt að fjöldi konunga og konungs­hirða hafi átt erfitt með að fall­ast á að eitt­hvað svo ógnarsmátt gæti haft úrslita­áhrif á tilveru svo stórra persóna, jafn­vel heilla ríkja. Ég er ekki viss um að við séum alfarið vaxin upp úr því, að við séum búin að fall­ast á það tilfinn­inga­lega, sem þá var kenn­ing, kenn­ingin um örverur, þó að hún sé nú fyrir löngu ræki­lega stað­fest. Og það hvarflar að mér, ég er ekki viss hvort það er í gráu gríni eða jafn grárri alvöru, en það hvarflar að mér að það eigi hugs­an­lega sinn þátt í þessu rugli, þessum stríðs­æs­ingi, því sem virð­ist óbilandi vilji allra deilandi aðila til að stefna veröld­inni fram að hengiflug­inu. Að þau sem ráða ríkjum hafi séð að allt var á leið til fjand­ans hvort eð er og vilji þá heldur hafa hönd í bagga, vilji heldur að það verði af völdum þeirra eigin vopna­skaks en veirukrílis. Auðvitað ekki alfarið meðvitað, þau myndu ekki segja það svona eða kann­ast við það. En innst inni, eins og það heitir. Að innst inni vilji leið­togar ríkja ef til vill öðru fremur að ríkin þeirra og valdið standi í stað þótt veröldin farist.