Dagurinn eftir útgáfudag er skárri en útgáfudagur, eins og jóladagur er skárri en aðfangadagur, annar í jólum enn betri, þriðji í jólum loksins almennilegur.
Útgáfudagur er samt skrítnastur allra ofantalinna. Á útgáfudegi er eitthvað mikið að gerast, eitthvað sem gerist sjaldan – jafnvel afkastamikill rithöfundur fer ekki í gegnum nema nokkra tugi útgáfudaga á ævinni, þar af kannski tíu veigamikla. Mikið fagnaðarefni, að loksins líti dagsins ljós eitthvað sem maður hefur unnið að svo árum skiptir. En ekkert sem maður þarf beinlínis sjálfur að gera. Aðrir fara með bókina í búðirnar, aðrir raða henni í hillurnar, aðrir skoða hana, fletta henni, kaupa hana kannski. Gefa hana, lesa hana. Aðrir reikna út smásöluverðið, ákveða kannski tilboðsverð, aðrir auglýsa hana, aðrir tala jafnvel um hana. Maður sjálfur, eftir að skrifa hana, er eiginlega jafn óþarfur og arkitekt eða smiður eftir að blokk er reist og íbúðirnar komnar í sölu. Eftir að íbúar koma sér fyrir virðast reyndar arkitektarnir helst birtast til að skipta sér af því hvaða gardínur fólk velur sér í gluggana eða jólaljós á svalirnar, ef það stingur í stúf við hönnun hússins. Ég sé ekki fyrir mér að hafa þess háttar afskipti af lestri bókarinnar. Frá og með deginum í gær er ég jafn óþarfur þessari bók og hverjir aðrir stillásar.
Það er áreiðanlega ljúfsár tilfinning að vera stillásar, þegar þeir eru teknir niður.