Tilfinn­ingar stillása

21.10.2022 ~ 1 mín

Dagur­inn eftir útgáfu­dag er skárri en útgáfu­dagur, eins og jóla­dagur er skárri en aðfanga­dagur, annar í jólum enn betri, þriðji í jólum loks­ins almennilegur.

Útgáfu­dagur er samt skrítn­astur allra ofan­tal­inna. Á útgáfu­degi er eitt­hvað mikið að gerast, eitt­hvað sem gerist sjaldan – jafn­vel afkasta­mik­ill rithöf­undur fer ekki í gegnum nema nokkra tugi útgáfu­daga á ævinni, þar af kannski tíu veiga­mikla. Mikið fagn­að­ar­efni, að loks­ins líti dags­ins ljós eitt­hvað sem maður hefur unnið að svo árum skiptir. En ekkert sem maður þarf bein­línis sjálfur að gera. Aðrir fara með bókina í búðirnar, aðrir raða henni í hill­urnar, aðrir skoða hana, fletta henni, kaupa hana kannski. Gefa hana, lesa hana. Aðrir reikna út smásölu­verðið, ákveða kannski tilboðs­verð, aðrir auglýsa hana, aðrir tala jafn­vel um hana. Maður sjálfur, eftir að skrifa hana, er eigin­lega jafn óþarfur og arki­tekt eða smiður eftir að blokk er reist og íbúð­irnar komnar í sölu. Eftir að íbúar koma sér fyrir virð­ast reyndar arki­tekt­arnir helst birt­ast til að skipta sér af því hvaða gard­ínur fólk velur sér í glugg­ana eða jóla­ljós á sval­irnar, ef það stingur í stúf við hönnun húss­ins. Ég sé ekki fyrir mér að hafa þess háttar afskipti af lestri bókar­innar. Frá og með deginum í gær er ég jafn óþarfur þess­ari bók og hverjir aðrir stillásar.

Það er áreið­an­lega ljúfsár tilfinn­ing að vera stil­lásar, þegar þeir eru teknir niður.