René Girard, fæddur 1923, dáinn 2015, fann nýja lesendur um það leyti sem hann dó, spurðist til mín upp úr því, ég þekkti ekki til hans áður.
Á Wikipediu má lesa að verk hans nái yfir nokkuð margar fræðigreinar en séu þó fyrst og fremst bókfærð sem heimspekileg mannfræði. Girard samdi, þróaði, meitlaði nokkur hugtök. Þetta hér verður ekki fræðileg umfjöllun, þetta er bara bloggfærsla, lesendum er óhætt að hafa þann fyrirvara. En meginþráðurinn í verkum hans, að því leyti sem ég þekki þau, snýst um uppruna og sögu trúarbragða sem aðferða til að fást við langanir og greiða úr átökum. Löngun, segir Girard, er eftiröpun: við öpum upp langanir hvert annars, allt frá bernsku. Og vegna þess að löngun er eftiröpun og okkur langar í það sama verður til barátta. Baráttan verður raunar svo plássfrek að það sem okkur upphaflega langaði í gleymist, víkur fyrir baráttunni sjálfri, þetta sem okkur langaði í víkur fyrir því sem okkur langar að ryðja úr vegi, eyða. Óvini. Spennan sem þannig hleðst upp, úr henni leysa samfélög með því að velja sér sameiginlega óvin sem er loks komið fyrir kattarnef. Hvernig sem endir er bundinn á óvininn, hvort sem það er með útlegð eða dauða, þá myndast friður í samfélaginu í kjölfarið.
Þetta ferli sem Girard lýsir er í enskum textum nefnt the scapegoat mechanism. Orðið scapegoating yfir það að hengja bakara fyrir smið á rætur að rekja til sömu fórnarathafna og íslenska orðið fórnarlamb. En þar sem fórnarlamb hefur lengstaf verið notað yfir þolendur, almennt og yfirleitt, er það ekki heppileg þýðing. Á íslensku mætti kannski bara tala um bakara-og-smiðs-ferlið.
Þetta lítur Girard á sem upphafsreit trúarbragða og samhengið sem allar fórnarathafnir þeirra eiga sameiginlegt. Með því að varpa allri skuld á bara-einhvern og koma þeim fyrir kattarnef leysi samfélag úr uppsafnaðri spennu og geti þannig haldið áfram að virka. Þessi friður er alltaf tímabundinn og því þarf að endurtaka fórnarathöfnina reglubundið.
Meðal trúarbragða heims er sérstaða kristninnar, samkvæmt Girard, að hafa vísað veginn út úr þessum vítahring hinna endurteknu fórnarathafna, þegar hin guðlega vera fórnaði sér sjálf, í eitt skipti fyrir öll. Að því sögðu er Girard ekki glórulaus bjartsýnismaður, lítur ekki svo á að þar með sé vandinn leystur, en að hann hafi að minnsta kosti færst úr stað.
Nóg um það. Það er borin von að endursegja höfundarverk heillar ævi í nokkrum paragröfum. Sjálfur þekki ég nógu illa til verka Girards til að leyfa mér þetta, ef ég hefði lesið hótinu meira af þeim liði mér áreiðanlega vandræðalegar yfir þessari samantekt en ég hef vit á hér og nú. En þetta með bakarann og smiðinn, það liggur í því sú hugmynd að alltaf þegar safnast upp spenna í kjölfar áfalla sem dynja á samfélagi, þegar eitthvað mikið er skilið eftir óleyst, miklar sakir óuppgerðar, þá fari þessi hundgamli mekanismi á stjá. Þegar smiðurinn finnst ekki. Þá sé hugsanlega vert að hafa augun opin fyrir því hvort margir fari um í leit að bökurum.
Heimsfaraldur væri dæmi um slíkt álag. Bæði hið raunverulega tjón og hið ímyndaða. Skaðinn, óttinn, óttinn við óttann – í stuttu máli álagið. Þegar því sleppir, meira eða minna, þegar flestir hætta að halda niðri í sér andanum þá væri einfaldari niðurstaða, samkvæmt þessu módeli, að tjónið reyndist vera einhverjum að kenna. Ef veiran hefði verið smíðuð og látin berast sem vopn, ef óvinur hefði verið þar að verki, þá þýddi það stríð og þessi spenna fengi útrás í að koma óvininum fyrir kattarnef. En því er ekki að heilsa, ekki nema mannkyn vilji efna til átaka við leðurblökur. Ef Girard er ekki úti að aka, þá má vænta þess í kjölfar svona spennuástands, að leitað verði að bökurum.
Þetta er auðvitað of grófgert og goðsagnakennt til að tala um skýringargildi, beinlínis. En þetta módel hvarflar samt að mér þegar ég sé átök magnast í kjölfar faraldursins, hvort sem er innrás Rússa í Úkraínu, sem sumum sérfræðingum í sögu og stjórnmálum beggja landa hefur frá upphafi þótt svo órökvís ákvörðun að fram á síðustu stundu bjuggust þeir alls ekki við að af henni yrði. Að vopnaburður aukist, hnífaárásum fjölgi, að ekki bara virðist svona stuttur þráðurinn í mörgum heldur hafi það svo afdrifaríkar afleiðingar. Að fyrsta svar yfirvalda sé að hrópa á stríð, í þessu samhengi líka, stríð gegn glæpagengjum. Allt þetta at. Það hvarflar að mér að það gæti verið eitthvað til í líkani Girards, að eftir að álag safnast upp í samfélagi leiti það útrásar með því að skapa óvin og sálga honum.
En kannski er þetta langsótt skýring. Og hin einfaldari þá kannski sennilegri, að allt sé þetta bara vegna skaðans sem veiran getur valdið á framheilum fólks.