Ráf

20.11.2022 ~ 2 mín

Ég álpað­ist inn á twitter af rælni? Eða hvað? Ég man ekki hvenær ég opnaði reikn­ing þar. Miðill­inn sjálfur segir að það hafi verið 2013, svo það hlýtur að vera satt, en ég held að ég hafi ekki notað hann að ráði fyrr en síðustu tvö ár. Ég hef frá upphafi látið frá mér 1.750 tíst, segir miðill­inn líka, sem eru þá hérumbil fjögur á hvern þann sem nú fylgir mér. Þetta er ekki minn miðill, svo að segja, en ég kann að meta tvennt eða þrennt við hann hingað til. Í fyrsta lagi hefur hann reynst langtum gagn­legri en aðrir samfé­lags­miðlar sem ég þekki til að afla sér þekk­ingar á atburðum líðandi stundar. Innan um allan hávað­ann og lætin þá er önnur hlið á pólariser­ing­unni sem þar fer fram, og búbbl­unum sem fólk festir sig í. Sú hlið er rökfesta. Ég veit ekki fyrir víst hvað veldur en að minni reynslu er miklu algeng­ara að fólk haldi þræði í samtölum á twitter en á Facebook.

Í öðru lagi þá hef ég kynnst fólki, örfáum mann­eskjum, sem ég þekki bara á twitter, og ræði þar aðeins við um tiltekin sameig­in­leg hugð­ar­efni. Ég kann afar vel að meta þau kynni.

Allt hitt, skarkal­inn, hávað­inn, háðið, glós­urnar, eineltið, svo það sé sagt, samtín­ing­ur­inn af því ómerki­leg­asta og merki­leg­asta í tilver­unni, aragrú­inn, hann fellur auðveld­lega í bakgrunn og er ekki endi­lega svo ólíkur því sem vænta má af hvaða netrými sem er. Það allt er eins og veður, maður klæðir það af sér eða heldur sig inni við eftir því sem tilefni er til. Og reyndar grunar mig að veður­fræðin hljóti að luma á einhverjum módelum sem gætu reynst gagn­leg til að skoða storma á samfé­lags­miðlum, fyrir­bærin virð­ast skyld.

En ég álpað­ist þangað af rælni í þeirri merk­ingu að ég man ekki eftir því að ákveða nokk­urn tíma að vera á Twitter. Einn daginn er það bara raunin. Að því leyti er skrítin tilhugsun að opna Mastodon-reikn­ing hér og nú, það virð­ist svo mark­viss og meðvituð ákvörðun í saman­burði. Að segja já, ég vil þetta. Því … vil ég þetta? Ef það hverfur, vantar mig það þá?

Ég veit það ekki. Kannski kemur það á daginn. Í milli­tíð­inni er ég að velta því fyrir mér að reyna að blogga af aðeins meira viti á ný. Að blogga, það er þó eitt­hvað sem ég ákvað á einhverjum tíma­punkti. Og maður ákveður aftur og aftur. Þetta er ekki í alfara­leið, enginn mun rekast á neitt hér af rælni, í þessu rými sendi ég frá mér einhver merki því ég vil gera það og ef einhver meðtekur þau, ef einhver les, þá hefur viðkom­andi viljað lesa það.

Held ég.

Þetta eru ekki dagar mikillar full­vissu. Og þetta eru ekki rými mikillar full­vissu. Ég er eigin­lega bara að máta. Þetta er eins konar mátunarklefi.