Að æfa sig

23.12.2022 ~ 3 mín

Eins og glað­vær æfing fyrir dóms­dag, einhvern veginn þannig upplifi ég aðdrag­anda jóla. Frels­ar­inn fæddur, já já, en það er nátt­úr­lega ekki svo einfalt. Barnið í jötunni er sama persóna og sagt er að snúi aftur einn daginn með lúðra­þyt, plágum, eldi og brenni­steini, dæmi fólk þvers og kruss, steypi því ýmist til glöt­unar eða bjóði til veisl­unnar sem aldrei þverr. Ég held að þannig líti kristnir ekki bein­línis á málið í dag, ég geri ráð fyrir að þetta sé aðeins teikni­mynda­út­gáfan og þess utan bar ekki mikið á trúar­legu tali kringum jólin þegar ég var barn hvort eð er. En sá andi aðvent­unnar sem ég sjálfur ber með mér til full­orð­ins­ár­anna, hann finnst mér auðveld­ara að skilja með dóms­dag í huga en senuna í fjár­hús­inu (sem eru svo kannski ein og sama senan hvort eð er: er ekki einhvers konar heimsendir fólg­inn í því að fæðast?)

Úr einhverri bíómynd eða öðrum skáld­skap rámar mig í persónu sem sagð­ist alltaf ganga í hreinum nærfötum ef ske kynni að hún lenti í slysi og yrði færð í sjúkra­bíl, þá vildi hún ekki verða sér til skammar. Þetta með spari­fötin og jóla­kött­inn, kappið um að vera búin að öllu, að heim­ilið sé hreint og fólkið með og veislu­mat­ur­inn sá vegleg­asti það árið, helst veglegri nú en árið áður – að allt skuli vera tipptopp, þannig myndi maður líklega vilja hafa hlut­ina andspænis skap­ar­anum á efsta degi. Maður myndi vilja vera í sínu fínasta pússi.

Eða, það er að segja … einhver myndi vilja vera í sínu fínasta pússi. Kannski gengur fólk lengra í þessu hér en annars staðar. Í stuttum formála að þýðingu Játn­ing­anna eftir Rous­seau, sem komu út nú fyrir jólin, minn­ist Pétur Gunn­ars­son á þau drög að ævim­inn­ingum sem Magnús Stephen­sen tók saman, þar sem hann andmælti nálgun Rous­seaus af festu: í þess háttar riti skyldi maður auðvitað ekki afhjúpa sig, ljóstra upp um skömm­ustu­leg leynd­ar­mál eða koma til dyranna eins og maður er klæddur, heldur þvert á móti birta sig aðeins í spari­klæð­unum, sýna aðeins á sér betri hlið­ina. Það væru ekki miklar ýkjur, held ég, að kalla hann Magnús fyrsta borg­ara eylands­ins. Tveimur öldum síðar er stressið í honum þá kannski orðið stressið okkar allra. Erfð­a­stressið, sem gerir jólin að dóms­degi. Hvar sem það er upprunnið er það að minnsta kosti umtals­vert eldra en Insta­gram.1

Þetta er líklega meira Þorláks­messu­kveðja en jóla­kveðja … eða bara fauskur að pústa. Heldur ungæð­is­legur fauskur, kannski. Og biðj­ast afsök­unar, hálfpart­inn, á því um leið. Skella skuld­inni á allt aðra menn. Í einni og sömu hreyf­ing­unni. Eitt­hvað í þá veru. Bugumst ekki undan komp­l­ex­unum, heldur svífum á vængjum þeirra inn í nýja árið. Takk fyrir liðið ár, kæru vinir og aðrir gestir. Takk fyrir haustið. Þetta var gott. Gleði­lega hátíð! Gæfan gefi okkur að draga áfram andann, sjást og heyr­ast hinu megin jóla.

References
1 Hin hliðin á þess­ari hefð er síðan að erfð­a­stressið skilur maður eftir við útidyrnar á aðfanga­dag. Klukkan sex er allt fyrir­gefið. Hvernig sem maður er klæddur, hversu vel valdar eða misráðnar sem gjaf­irnar reyn­ast, allar kveðj­urnar sem maður sendi ekki, jafn­vel að matur­inn verði ekki tilbú­inn fyrr en um átta. Spennan og óttinn í aðdrag­and­anum er áreið­an­lega ekki eina leiðin til að kunna að meta fyrir­gefn­ingu synd­anna, en hún er þó ein leið.