Eins og glaðvær æfing fyrir dómsdag, einhvern veginn þannig upplifi ég aðdraganda jóla. Frelsarinn fæddur, já já, en það er náttúrlega ekki svo einfalt. Barnið í jötunni er sama persóna og sagt er að snúi aftur einn daginn með lúðraþyt, plágum, eldi og brennisteini, dæmi fólk þvers og kruss, steypi því ýmist til glötunar eða bjóði til veislunnar sem aldrei þverr. Ég held að þannig líti kristnir ekki beinlínis á málið í dag, ég geri ráð fyrir að þetta sé aðeins teiknimyndaútgáfan og þess utan bar ekki mikið á trúarlegu tali kringum jólin þegar ég var barn hvort eð er. En sá andi aðventunnar sem ég sjálfur ber með mér til fullorðinsáranna, hann finnst mér auðveldara að skilja með dómsdag í huga en senuna í fjárhúsinu (sem eru svo kannski ein og sama senan hvort eð er: er ekki einhvers konar heimsendir fólginn í því að fæðast?)
Úr einhverri bíómynd eða öðrum skáldskap rámar mig í persónu sem sagðist alltaf ganga í hreinum nærfötum ef ske kynni að hún lenti í slysi og yrði færð í sjúkrabíl, þá vildi hún ekki verða sér til skammar. Þetta með sparifötin og jólaköttinn, kappið um að vera búin að öllu, að heimilið sé hreint og fólkið með og veislumaturinn sá veglegasti það árið, helst veglegri nú en árið áður – að allt skuli vera tipptopp, þannig myndi maður líklega vilja hafa hlutina andspænis skaparanum á efsta degi. Maður myndi vilja vera í sínu fínasta pússi.
Eða, það er að segja … einhver myndi vilja vera í sínu fínasta pússi. Kannski gengur fólk lengra í þessu hér en annars staðar. Í stuttum formála að þýðingu Játninganna eftir Rousseau, sem komu út nú fyrir jólin, minnist Pétur Gunnarsson á þau drög að æviminningum sem Magnús Stephensen tók saman, þar sem hann andmælti nálgun Rousseaus af festu: í þess háttar riti skyldi maður auðvitað ekki afhjúpa sig, ljóstra upp um skömmustuleg leyndarmál eða koma til dyranna eins og maður er klæddur, heldur þvert á móti birta sig aðeins í spariklæðunum, sýna aðeins á sér betri hliðina. Það væru ekki miklar ýkjur, held ég, að kalla hann Magnús fyrsta borgara eylandsins. Tveimur öldum síðar er stressið í honum þá kannski orðið stressið okkar allra. Erfðastressið, sem gerir jólin að dómsdegi. Hvar sem það er upprunnið er það að minnsta kosti umtalsvert eldra en Instagram.1
Þetta er líklega meira Þorláksmessukveðja en jólakveðja … eða bara fauskur að pústa. Heldur ungæðislegur fauskur, kannski. Og biðjast afsökunar, hálfpartinn, á því um leið. Skella skuldinni á allt aðra menn. Í einni og sömu hreyfingunni. Eitthvað í þá veru. Bugumst ekki undan komplexunum, heldur svífum á vængjum þeirra inn í nýja árið. Takk fyrir liðið ár, kæru vinir og aðrir gestir. Takk fyrir haustið. Þetta var gott. Gleðilega hátíð! Gæfan gefi okkur að draga áfram andann, sjást og heyrast hinu megin jóla.
↑1 | Hin hliðin á þessari hefð er síðan að erfðastressið skilur maður eftir við útidyrnar á aðfangadag. Klukkan sex er allt fyrirgefið. Hvernig sem maður er klæddur, hversu vel valdar eða misráðnar sem gjafirnar reynast, allar kveðjurnar sem maður sendi ekki, jafnvel að maturinn verði ekki tilbúinn fyrr en um átta. Spennan og óttinn í aðdragandanum er áreiðanlega ekki eina leiðin til að kunna að meta fyrirgefningu syndanna, en hún er þó ein leið. |
---|