Í sjónvarpsfréttum í gær, á sunnudag, heyrði ég orðalaginu „að gefa í“ bregða fyrir tvisvar sinnum. Annars vegar í samhengi við loftslagsmál, þar þurfa íslensk stjórnvöld að gefa í. Og fleiri. Það þurfa allir að gefa í. Í loftslagsmálum. Hin fréttin var um Árbæjarsafn, þar er búið að gefa í. Ég held að það hafi verið vegna þess að nú er frítt inn í jólarölt milli húsanna, þannig hafi safnið gefið í. Eða hvort það gaf í eftir Covid. Eða bæði, safnið gaf í eftir Covid með því að fella niður aðgangseyrinn á aðventunni.
(
„Eftir Covid“ þýðir auðvitað bara eftir að sú ákvörðun var einhvern vegin tekin að allir skyldu hætta að hugsa um Covid, eftir að dregið var úr valdi sóttvarnalæknis, eftir að World Class fékk endanlega nóg af þessari áherslu á heilsufar fólks, eftir að fjölmiðlar hættu að segja frá dauðsföllunum, eftir að þeim fór verulega að fjölga, eftir að langtímaáhrifin tóku að birtast, eftir að hefðbundnar umgangspestir fóru að valda umtalsvert meiri usla en venjulega, sem talið er sennilegt að stafi af samdrætti ónæmiskerfisins, þannig virki veiran, eftir að ótal hjúkrunarfræðingar sögðu upp og forstjóri Sjúkratrygginga og eftir að heilbrigðiskerfið tók að biðja fólk reglubundið um að hætta að koma, „heima er pest“ og það allt. Eftir Covid.
)
En ég ætlaði ekki út í þá sálma hér og nú. Heldur þetta orðalag, að gefa í. Alltaf þegar ég heyri það bergmála í huga mér orð háskólaprófessors sem ég nenni ekki að nafngreina, aðallega vegna þess að við fengum öll óverdós af honum fyrir löngu, löngu síðan. En það var fyrir hrun, kannski var það 2007, kannski 2006, kannski snemma árs 2008, að hann notaði þessi orð um leiðina út úr þeim vandræðum sem bankarnir virtust hugsanlega stefna í og þetta sem var kallað útrás, hvernig það væri nú að draga ekki saman seglin, hægja ekki á ferðinni, heldur þvert á móti, að ganga lengra, hraðar, græða meira, gefa í. Ég mun aldrei heyra þetta orðalag án þess að því fylgi glaðhlakkaleg áhersla prófessorsins í þessu tiltekna sjónvarpsviðtali á orðið í. Gefa í. Hvernig væri að gefa í?
Sem hefur auðvitað ekkert með umhverfisvernd eða Árbæjarsafn að gera. Svona getur tilveran verið ósanngjörn. Og tungumálin og bergmálin.