Að gefa í

12.12.2022 ~ 2 mín

Í sjón­varps­fréttum í gær, á sunnu­dag, heyrði ég orða­lag­inu „að gefa í“ bregða fyrir tvisvar sinnum. Annars vegar í samhengi við lofts­lags­mál, þar þurfa íslensk stjórn­völd að gefa í. Og fleiri. Það þurfa allir að gefa í. Í lofts­lags­málum. Hin fréttin var um Árbæj­arsafn, þar er búið að gefa í. Ég held að það hafi verið vegna þess að nú er frítt inn í jólarölt milli húsanna, þannig hafi safnið gefið í. Eða hvort það gaf í eftir Covid. Eða bæði, safnið gaf í eftir Covid með því að fella niður aðgangs­eyr­inn á aðventunni.

(

„Eftir Covid“ þýðir auðvitað bara eftir að sú ákvörðun var einhvern vegin tekin að allir skyldu hætta að hugsa um Covid, eftir að dregið var úr valdi sótt­varna­læknis, eftir að World Class fékk endan­lega nóg af þess­ari áherslu á heilsu­far fólks, eftir að fjöl­miðlar hættu að segja frá dauðs­föll­unum, eftir að þeim fór veru­lega að fjölga, eftir að lang­tíma­áhrifin tóku að birt­ast, eftir að hefð­bundnar umgangspestir fóru að valda umtals­vert meiri usla en venju­lega, sem talið er senni­legt að stafi af samdrætti ónæmis­kerf­is­ins, þannig virki veiran, eftir að ótal hjúkr­un­ar­fræð­ingar sögðu upp og forstjóri Sjúkra­trygg­inga og eftir að heil­brigðis­kerfið tók að biðja fólk reglu­bundið um að hætta að koma, „heima er pest“ og það allt. Eftir Covid.

)

En ég ætlaði ekki út í þá sálma hér og nú. Heldur þetta orða­lag, að gefa í. Alltaf þegar ég heyri það berg­mála í huga mér orð háskóla­pró­fess­ors sem ég nenni ekki að nafn­greina, aðal­lega vegna þess að við fengum öll óver­dós af honum fyrir löngu, löngu síðan. En það var fyrir hrun, kannski var það 2007, kannski 2006, kannski snemma árs 2008, að hann notaði þessi orð um leið­ina út úr þeim vand­ræðum sem bank­arnir virt­ust hugs­an­lega stefna í og þetta sem var kallað útrás, hvernig það væri nú að draga ekki saman seglin, hægja ekki á ferð­inni, heldur þvert á móti, að ganga lengra, hraðar, græða meira, gefa í. Ég mun aldrei heyra þetta orða­lag án þess að því fylgi glað­hlakka­leg áhersla prófess­ors­ins í þessu tiltekna sjón­varps­við­tali á orðið í. Gefa í. Hvernig væri að gefa í?

Sem hefur auðvitað ekkert með umhverf­is­vernd eða Árbæj­arsafn að gera. Svona getur tilveran verið ósann­gjörn. Og tungu­málin og bergmálin.