Bók, garður, egg og viðtal við vampíru

16.12.2022 ~ 2 mín

Ég ætla alls enga bókarýni að skrifa hér, ekkert í þá veru. Ég var hins vegar að lesa svo undur­góða bók að mér finnst óhjá­kvæmi­legt að minn­ast á það. Seinna segi ég kannski hvaða bók það var. Hún er ekki á meðal þeirra sem komu út í haust, tilheyrir ekki þessu jóla­bóka­flóði, heldur kom út fyrir örfáum árum síðan en rak ekki á fjörur mínar fyrr en í dag. Og át daginn upp til agna, kyngdi honum í einum munn­bita eins og ekkert væri.


Ég hitti líka vin í dag. Það var gott.  Það var hann sem færði mér bókina og aðra til, sem ég á ólesna enn. Þetta var allt heldur snemma dags, ég er seinn af stað og var ekki gang­settur nema til hálfs þegar við mætt­umst á Klambra­túni, tveir bjart­sýn­is­menn í frost­inu – hann talaði um að það væri hreint alls ekki jafn kalt og menn vildu meina í útvarp­inu. Ég hafði með mér varn­ing í svolítið pikknikk, morg­un­verð í garði: nýsoðin egg, ristað brauð, banana og, sem betur fer, kamillute á brúsa. Þegar við komum að pikknikk­borð­unum í garð­inum reynd­ust þau þakin senti­meters þykku lagi af hrími, það var fagurt eins og í ævin­týri en hent­aði ekki vel til að setj­ast á, þetta varð því stand­andi pikknikk. Bráðapikknikk. Ekki slæmt þar fyrir, við rifum í nokkur nestið, helltum í okkur teinu og hlupum svo inn í bíl.

Nei, við hlupum ekki, það er ekki satt. Við rifum ekki heldur í okkur nestið, ekki bein­línis, við fórum okkur eigin­lega að engu óðslega. Ekki þannig. Það var varla að við létum á því bera að okkur hefði yfir­leitt orðið kalt fyrr en við sett­umst í bílinn, stilltum kynd­ing­una og blástur­inn í topp, og nerum saman höndum okkur til hita.


Auðvitað bárum við grímur þegar við sett­umst inn í bílinn. FFP2-grímur, báðir tveir, því í bílnum er grímu­skylda. Bjart­sýni okkar eru þau takmörk sett og þannig æfðum við okkur í að vera mann­eskjur, eins og það heitir í áður­nefndri bók. Þar segir að maður þurfi að æfa sig í því hvern einasta dag, ævina á enda. Ég sé ekki betur en að það sé satt.


Þetta leigu­fyr­ir­tæki, Alma, og stjórn­and­inn sem var rætt við á Bylgj­unni. Vinur minn benti mér á viðtalið og sendi mér link, ég hlustaði á það eftir að ég kom heim. Stjórn­and­inn varði óskap­lega mörgum mínútum í að endur­taka að fyrir­tækið fylgi mark­aðnum, og átti í hvert sinn við að það kreisti hvern þann blóð­dropa úr viðskipta­vinum sínum sem það kemst upp með. Þess vegna hafi leigan sem komst í fréttir hækkað um 75.000 krónur á einu bretti, stjórn­and­inn hefði gert sér grein fyrir að einhver yrði tilbú­inn að láta kreista sig sem því nemur. Þannig séu aðstæður, nýja leigan verði skásti kostur sem einhverjum býðst. Fyrir­tækið er hagn­að­ar­drifið, sagði hann líka. Hvað annað ætti það að gera? Vampírur eru vampírur. Að þær gangi lausar skrif­ast á löggjafann.