Ég ætla alls enga bókarýni að skrifa hér, ekkert í þá veru. Ég var hins vegar að lesa svo undurgóða bók að mér finnst óhjákvæmilegt að minnast á það. Seinna segi ég kannski hvaða bók það var. Hún er ekki á meðal þeirra sem komu út í haust, tilheyrir ekki þessu jólabókaflóði, heldur kom út fyrir örfáum árum síðan en rak ekki á fjörur mínar fyrr en í dag. Og át daginn upp til agna, kyngdi honum í einum munnbita eins og ekkert væri.
Ég hitti líka vin í dag. Það var gott. Það var hann sem færði mér bókina og aðra til, sem ég á ólesna enn. Þetta var allt heldur snemma dags, ég er seinn af stað og var ekki gangsettur nema til hálfs þegar við mættumst á Klambratúni, tveir bjartsýnismenn í frostinu – hann talaði um að það væri hreint alls ekki jafn kalt og menn vildu meina í útvarpinu. Ég hafði með mér varning í svolítið pikknikk, morgunverð í garði: nýsoðin egg, ristað brauð, banana og, sem betur fer, kamillute á brúsa. Þegar við komum að pikknikkborðunum í garðinum reyndust þau þakin sentimeters þykku lagi af hrími, það var fagurt eins og í ævintýri en hentaði ekki vel til að setjast á, þetta varð því standandi pikknikk. Bráðapikknikk. Ekki slæmt þar fyrir, við rifum í nokkur nestið, helltum í okkur teinu og hlupum svo inn í bíl.
Nei, við hlupum ekki, það er ekki satt. Við rifum ekki heldur í okkur nestið, ekki beinlínis, við fórum okkur eiginlega að engu óðslega. Ekki þannig. Það var varla að við létum á því bera að okkur hefði yfirleitt orðið kalt fyrr en við settumst í bílinn, stilltum kyndinguna og blásturinn í topp, og nerum saman höndum okkur til hita.
Auðvitað bárum við grímur þegar við settumst inn í bílinn. FFP2-grímur, báðir tveir, því í bílnum er grímuskylda. Bjartsýni okkar eru þau takmörk sett og þannig æfðum við okkur í að vera manneskjur, eins og það heitir í áðurnefndri bók. Þar segir að maður þurfi að æfa sig í því hvern einasta dag, ævina á enda. Ég sé ekki betur en að það sé satt.
Þetta leigufyrirtæki, Alma, og stjórnandinn sem var rætt við á Bylgjunni. Vinur minn benti mér á viðtalið og sendi mér link, ég hlustaði á það eftir að ég kom heim. Stjórnandinn varði óskaplega mörgum mínútum í að endurtaka að fyrirtækið fylgi markaðnum, og átti í hvert sinn við að það kreisti hvern þann blóðdropa úr viðskiptavinum sínum sem það kemst upp með. Þess vegna hafi leigan sem komst í fréttir hækkað um 75.000 krónur á einu bretti, stjórnandinn hefði gert sér grein fyrir að einhver yrði tilbúinn að láta kreista sig sem því nemur. Þannig séu aðstæður, nýja leigan verði skásti kostur sem einhverjum býðst. Fyrirtækið er hagnaðardrifið, sagði hann líka. Hvað annað ætti það að gera? Vampírur eru vampírur. Að þær gangi lausar skrifast á löggjafann.