Ég hef horft á fótboltaleiki. En þegar það hefur gerst þá hefur það verið af áhuga á félagsskap annarra sem horfðu á leikina frekar en af áhuga á fótboltanum sjálfum. Ekki svo að skilja að mér hafi leiðst, alls ekki, en þau skipti sem þetta hefur gerst þá hefði ég þó líklega haft meiri áhuga á samveru við sama fólk án fótboltans. Ég er með öðrum orðum áhugalaus um fótbolta.
Mér þykir það svolítið leitt. Margt prýðisfólk sem ég hef kynnst hefur áhuga á fótbolta. Ég sé hvernig íþróttin nýtist til að fjölga víddum í nærveru og samskiptum. Flestir þeir höfundar sem ég hef einhvern tíma litið upp til hafa haft áhuga á, jafnvel ástríðu fyrir, ef ekki fótbolta, þá einhverri annarri íþrótt, jafnvel iðkað íþróttir af kappi á yngri árum, haft svo keppnisskapið, líkamleikann, sarp af getu sem ég þekki aðeins af afspurn, meðferðis á nýjan vettvang. Stundum vildi ég með öðrum orðum að ég hefði áhuga á fótbolta eða einhverri annarri íþrótt. En ég hef hann ekki.
Ég hef stundum haft áhuga á mannréttindamálum og því hvernig samfélög fara með mannslíf. Að því leyti gæti ég haft áhuga á fótbóltamótinu í Katar, ég gæti látið mig það varða hversu margir létu þar lífið við byggingastörf í aðdraganda mótsins, fyrst og fremst farandverkamenn, virðist vera, fátækt fólk og þar með ódýr líf í bókhaldi ríkja og fyrirtækja. Hæsta talan sem hefur verið nefnd í þessu samhengi eru sex þúsund, að sex þúsund verkamenn hafi látist við framkvæmdir á leikvöllum og annarri umgjörð mótsins. Fyrir heimsfaraldurinn hefðu það verið sláandi tíðindi – tvöfalt fleiri féllu til að þetta mót gæti farið fram en í árásinni á Tvíburaturnana í New York. En nú nýverið hafa milljónir látið lífið til að eftirlifendur geti á ný notið óskoraðs réttar síns til að sleikja hurðarhúna og handrið, hósta og hnerra upp í hver annan í ræktinni. Andspænis því gegndarlausa manntjóni sem þannig hefur verið fallist á í þágu „eðlilegs lífs“ virðast þessi sex þúsund í Katar aðeins dropi í blóðbaðið. Samkvæmt hinu nýja viðmiði, hinum nýja sáttmála um fórnarkostnað eðlilegs lífs, og í ljósi þess hvað fótbolti virðist stór hluti af eðlilegu lífi margs fólks, þá mætti það varla minna vera en að sex þúsund deyi fyrir hvert stórmót.
Já, það er kaldranalegt og nei, ég meina það ekki bókstaflega, en það er kalt hérna. Og sá kuldi er ekki minnsta tjónið sem ég held að faraldurinn hafi valdið, þessi tilfærsla á sameiginlegum viðmiðum okkar um ásættanlegt mannfall eða virði mannslífa. Gengið hefur lækkað.
Eftir stendur að ég hef ekki einu sinni ærlegan áhuga á mannréttindahliðum fótboltans í Katar. Mér finnst kannski að ég ætti að hafa hann en til að komast þangað þyrfti að útkljá svo margt annað fyrst, ég rata ekki þangað. Þarmeð heldur enginn flötur á þessu móti athygli minni.
Að mótið væri enn í gangi rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá einhverja umfjöllun um Messi á vef Guardian rétt í þessu. Ég veit hver Messi er. Hann er góður í fótbolta.
Jæja, þetta var dagur, einhvern veginn. Að mestu leyti innandyra. Ég fylgdist með því út um stofugluggann hvernig fólk festi bílana sína í snjónum, hvernig það spólaði, mokaði, spólaði, mokaði meira, lagði mottur undir dekkin, mjakaðist aftur á bak, svo fram á við, aftur á bak, fram á við, hvernig gangandi vegfarendur buðu sig fram við að ýta svo bíllinn mjakaðist betur fram, aftur, fram, aftur, fet fyrir fet, svo metra fyrir metra, ég fylgdist með hvítum smábíl komast gegnum alla skaflana hér í götunni á rúmum hálftíma, með hjálp þeirra fimm sem lögðust til skiptis á húddið og skottið áður en yfir lauk.
Við Dísa ákváðum að halda okkur inni.
Mestanpartinn. Dísa fór einn leiðangur úr húsi, og við saman annan, þegar kvöldaði.
Einhver manneskja var svo vinsamleg að taka upp heilan göngutúr um miðborgina, líklega á föstudagskvöld, og birta óstytta upptökuna á YouTube. Fimmtán mínútur og 49 sekúndur, mér þykir þetta gott efni, betra en bíómyndin sem ég horfði á til hálfs áður en ég skipti. En þetta er fyrir stóran skjá og jafnvel góða hátalara, ég efast um að myndefnið sé jafn dáleiðandi án hljóðrásarinnar. Valkostur við að ganga um bæinn og blotna í fæturna sjálfur: