Boltar, bílar og blautir fætur annars fólks

18.12.2022 ~ 4 mín

Ég hef horft á fótbolta­leiki. En þegar það hefur gerst þá hefur það verið af áhuga á félags­skap annarra sem horfðu á leik­ina frekar en af áhuga á fótbolt­anum sjálfum. Ekki svo að skilja að mér hafi leiðst, alls ekki, en þau skipti sem þetta hefur gerst þá hefði ég þó líklega haft meiri áhuga á samveru við sama fólk án fótbolt­ans. Ég er með öðrum orðum áhuga­laus um fótbolta.

Mér þykir það svolítið leitt. Margt prýð­is­fólk sem ég hef kynnst hefur áhuga á fótbolta. Ég sé hvernig íþróttin nýtist til að fjölga víddum í nærveru og samskiptum. Flestir þeir höfundar sem ég hef einhvern tíma litið upp til hafa haft áhuga á, jafn­vel ástríðu fyrir, ef ekki fótbolta, þá einhverri annarri íþrótt, jafn­vel iðkað íþróttir af kappi á yngri árum, haft svo keppn­is­skapið, líkam­leik­ann, sarp af getu sem ég þekki aðeins af afspurn, meðferðis á nýjan vett­vang. Stundum vildi ég með öðrum orðum að ég hefði áhuga á fótbolta eða einhverri annarri íþrótt. En ég hef hann ekki.

Ég hef stundum haft áhuga á mann­rétt­inda­málum og því hvernig samfé­lög fara með manns­líf. Að því leyti gæti ég haft áhuga á fótbólta­mót­inu í Katar, ég gæti látið mig það varða hversu margir létu þar lífið við bygg­inga­störf í aðdrag­anda móts­ins, fyrst og fremst farand­verka­menn, virð­ist vera, fátækt fólk og þar með ódýr líf í bókhaldi ríkja og fyrir­tækja. Hæsta talan sem hefur verið nefnd í þessu samhengi eru sex þúsund, að sex þúsund verka­menn hafi látist við fram­kvæmdir á leik­völlum og annarri umgjörð móts­ins. Fyrir heims­far­ald­ur­inn hefðu það verið sláandi tíðindi – tvöfalt fleiri féllu til að þetta mót gæti farið fram en í árás­inni á Tvíbura­t­urn­ana í New York. En nú nýverið hafa millj­ónir látið lífið til að eftir­lif­endur geti á ný notið óskor­aðs réttar síns til að sleikja hurð­ar­húna og hand­rið, hósta og hnerra upp í hver annan í rækt­inni. Andspænis því gegnd­ar­lausa mann­tjóni sem þannig hefur verið fall­ist á í þágu „eðli­legs lífs“ virð­ast þessi sex þúsund í Katar aðeins dropi í blóð­baðið. Samkvæmt hinu nýja viðmiði, hinum nýja sátt­mála um fórn­ar­kostnað eðli­legs lífs, og í ljósi þess hvað fótbolti virð­ist stór hluti af eðli­legu lífi margs fólks, þá mætti það varla minna vera en að sex þúsund deyi fyrir hvert stórmót.

Já, það er kald­rana­legt og nei, ég meina það ekki bókstaf­lega, en það er kalt hérna. Og sá kuldi er ekki minnsta tjónið sem ég held að farald­ur­inn hafi valdið, þessi tilfærsla á sameig­in­legum viðmiðum okkar um ásætt­an­legt mann­fall eða virði manns­lífa. Gengið hefur lækkað.

Eftir stendur að ég hef ekki einu sinni ærlegan áhuga á mann­rétt­inda­hliðum fótbolt­ans í Katar. Mér finnst kannski að ég ætti að hafa hann en til að komast þangað þyrfti að útkljá svo margt annað fyrst, ég rata ekki þangað. Þarmeð heldur enginn flötur á þessu móti athygli minni.

Að mótið væri enn í gangi rifj­að­ist upp fyrir mér þegar ég sá einhverja umfjöllun um Messi á vef Guar­dian rétt í þessu. Ég veit hver Messi er. Hann er góður í fótbolta.


Jæja, þetta var dagur, einhvern veginn. Að mestu leyti innan­dyra. Ég fylgd­ist með því út um stofu­glugg­ann hvernig fólk festi bílana sína í snjónum, hvernig það spól­aði, mokaði, spól­aði, mokaði meira, lagði mottur undir dekkin, mjak­að­ist aftur á bak, svo fram á við, aftur á bak, fram á við, hvernig gang­andi vegfar­endur buðu sig fram við að ýta svo bíll­inn mjak­að­ist betur fram, aftur, fram, aftur, fet fyrir fet, svo metra fyrir metra, ég fylgd­ist með hvítum smábíl komast gegnum alla skafl­ana hér í götunni á rúmum hálf­tíma, með hjálp þeirra fimm sem lögð­ust til skiptis á húddið og skottið áður en yfir lauk.

Við Dísa ákváðum að halda okkur inni.


Mest­an­part­inn. Dísa fór einn leið­angur úr húsi, og við saman annan, þegar kvöldaði.

Einhver mann­eskja var svo vinsam­leg að taka upp heilan göngu­túr um miðborg­ina, líklega á föstu­dags­kvöld, og birta óstytta upptök­una á YouTube. Fimmtán mínútur og 49 sekúndur, mér þykir þetta gott efni, betra en bíómyndin sem ég horfði á til hálfs áður en ég skipti. En þetta er fyrir stóran skjá og jafn­vel góða hátal­ara, ég efast um að mynd­efnið sé jafn dáleið­andi án hljóðrás­ar­innar. Valkostur við að ganga um bæinn og blotna í fæturna sjálfur: