Frábærir hlutir, fimm

14.12.2022 ~ 3 mín

Enn hef ég víst aðeins lesið tvær bækur þessa yfir­stand­andi jóla­bóka­flóðs: Útsýni Guðrúnar Evu og Milli­bils­mann Hermanns Stef­áns­sonar. Þær eru báðar frábærar. Hér verður engin ítar­leg rýni, ég ætla ekki að segja neitt umfram þetta, en það er dagsatt.


Jú, ég ætla að segja eitt: það er svo tiltekið bragð af því sem þau skrifa, hvort um sig. Eitt­hvað sem leynir sér ekki, hvaða formi og stíl sem þau bregða fyrir sig. Hermann, áferðin á þeim heimum sem hann skapar er alltaf hrjú­fótt. Eða yrjótt, kannski. Ég held jafn­vel að einhvers staðar komi alltaf við sögu eitt­hvað vott, í merk­ing­unni svolítið blautt eða rakt, en orðið vott á þó betur við, eins og jakkafatajakki sem hefur vöknað í rign­ingu án þess að verða gegndrepa. Og ef allir textar Hermanns hafa eitt­hvað að gera með einhverja slíka snert­ingu eða efnis­leika, þá hafa allir textar Guðrúnar Evu eitt­hvað að gera með ákveðna birtu. Ég segi ekki að hún sé gul, birtan. Ég þori ekki einu sinni að full­yrða að það sé tiltekin birta, en allt sem ég hef lesið frá henni hefur einhver tengsl við birtu, það glóir svolítið.

Og kannski eru það bara þessar tvær tilteknu bækur sem ég hef í huga, og kannski eru það kápurnar sem lita lest­ur­inn að þessu leyti: yrjótta áferðin á kápu Milli­bils­manns­ins, guli litur­inn sem ríkir á kápu Útsýnis.

Eða þá að Milli­bils­mað­ur­inn fjallar um rann­sóknir hér í súld­inni á lífi eftir dauð­ann, og þar með um dauð­ann, dauð­inn er miðlægt viðfangs­efni í henni, á meðan Útsýni fjallar um það að verða til í þeim skiln­ingi að verða einhver tiltek­inn. Þær spegla hvor aðra reyndar svolítið forvitni­lega, umfram það sem þessi hend­ing laðar fram, held ég, að ég skuli hafa lesið þær í beinni röð. Transmiðl­arnir sem er fjallað um í Milli­bils­mann­inum taka að sér að hleypa öðrum sálum að sér, tala þeirra orðum, miðla þeirra þekk­ingu. Í alvöru eða plati. Aðal­per­sóna Útsýnis, hins vegar, hún stígur inn í upplif­anir annars fólks, sér þeirra augum og lifir þeirra lífum um stund­ar­sakir. Í alvöru eða plati. Ferða­lang­arnir í Milli­bils­mann­inum eru fram­liðnir, en gest­gjaf­arnir í Útsýni virð­ast sprelllif­andi, af holdi og blóði.

Að vera annar. Þannig fjalla auðvitað báðar bækurnar líka um ritstörf, án þess að segja eitt einasta orð um ritstörf beint.

En dauð­inn, vildi ég segja, hann er svo óskap­lega efnis­legur, lífið eitt­hvað skyld­ara ljósi. Og kannski sprettur þaðan þessi tilfinn­ing fyrir einhverju votu og yrjóttu, annars vegar, ljós­gjafa hins vegar.

En lengra verður þetta ekki. Ég myndi mæla með því við flest fólk að panta báðar bækurnar í jóla­gjöf en lengra verður þetta ekki, ég er þegar kominn á ystu nöf einhvers konar bókarýni, sem var aldrei ætlunin.


Að því sögðu myndi ég líka mæla með því við flest börn að panta Fran­kens­leiki í jóla­gjöf. Ég geri ráð fyrir að fólk taki jafn lítið mark á því og hverju sem höfund­ur­inn, Eiríkur Örn, hefur eða gæti sagt um mín skrif, en ég meina það samt jafn fullum fetum. Ekki bara vegna þess að ég þykist vita að þetta sé fárán­lega skemmti­leg barna­bók, heldur virð­ist þetta líka þjóð­þrifa­verk, að murka lífið loks úr jólasveinunum.

Allt sem Eiríkur skrifar hefur eitt­hvað að gera með stökk, í því er eitt­hvað sem hoppar, stekkur, hrekkur. Þess háttar hreyfing.


Talandi um: Við Dísa horfðum á fyrsta þátt nýja jóla­da­ga­tals­ins í kvöld, Randalín og Mundi: Dagar í desem­ber. Það virt­ist ekki seinna vænna, þetta er hugs­an­lega í fyrsta sinn á þess­ari öld sem íslenskt kvik­mynda- eða sjón­varps­verk reyn­ist veru­lega umdeilt. Þátt­ur­inn var frábær, ég hlakka til að sjá meira. Og hlakka til að sjá hvernig rætist úr kynslóð sem nýtur svona gæða­efnis í sjónvarpi.

Nú hljómar þetta kannski eins og mér þyki allt frábært. Því fer fjarri. Ég hef séð ýmis­legt afleitt nýverið. Og því má öllu gefa sinn tíma líka. Bara ekki þennan hér. Þetta er blogg­færsla um frábæra hluti.


Eitt frábært enn: Góðar manda­rínur. Ekki vondar manda­rínur, þær eru óþol­andi. En góðar manda­rínur eru frábærar.