Í gær birti ég næstum nokkur orð hér um kvikmynd sem ég var þá nýbúinn að horfa á, en áttaði mig í miðjum klíðum á því að tveimur myndum hafði slegið saman í höfði mér, sem ég hafði séð sama kvöld, og það sem ég ætlaði að halda fram, það var bara vitleysa. Hugarburður. Ég held að það skaði þó ekki að birta molann um fyrri myndina, þó að þar sé þá ekki þetta sem ég hélt að yrði miðdepill hans:
Raoul Coutard hét tökumaður fyrstu kvikmynda hins nýlátna leikstjóra Jean-Luc Godard. Saman gerðu þeir þrettán kvikmyndir á sjöunda áratugnum – afköst Godards voru svo brjálæðisleg að þessar þrettán eru víst ekki allar myndir hans á því tímabili, en bróðurparturinn þó. Allt frá À bout de souffle gegnum Pierrot le Fou til La Chinoise og Weekend – ný fagurfræði á nýja fagurfræði ofan, aftur og aftur og aftur. Risavaxið samstarf.
Áður en samstarf þeirra hófst hafði Coutard skotið þrjár myndir með leikstjóra að nafni Pierre Schoendoerffer. Ég þekki lítið til hans, fletti honum upp hér og nú til að fylla í eyðurnar: rithöfundur, leikstjóri og heimildamyndagerðarmaður, segir Wikipedia. Gott og vel. Þriðja kvikmyndin sem hann leikstýrði og sú þriðja, um leið, sem Coutard skaut, hét Pêcheur d’Islande. Fiskimaðurinn frá Íslandi eða Íslenski sjóarinn. Hún kom út árið 1959. Einhvern tíma rakst ég á þennan titil og þótti forvitnilegur, líklega hef ég þá eitthvað verið að garfa eftir upplýsingum um feril tökumannsins. En það náði ekki lengra, ég fann ekki út úr því hvar ég gæti séð þessa mynd.
Nú í vikunni, mörgum árum síðar, flettandi gegnum titla á Netflix, birtist hún mér. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Pêcheur d’Islande, frá árinu 1959. Í fullri HD upplausn, með enskum texta, jafn aðgengileg og hugsast getur. Kvöldinu borgið. Ég horfði af stað.
Fín kvikmynd. Einföld ástarsaga, sjómaður og dóttir útgerðarmanns verða skotin hvort í öðru. Hann vill sanna sig sem skipstjóri, hún vill að hann lifi það af. Það sem gerir myndina eftirminnilega eru tökur úti á sjó, sumar í óskaparveðri, um borð í litlum síðutogara sem fær virkilega að finna fyrir því. Ýmsum trixum hefur vafalaust verið beitt, en sum skotin hafa mjög áreiðanlega ekki fengist öðruvísi en á opnu hafi. Það haf er Atlantshafið, eins og margoft kemur fram, sama haf og hér, þetta er myndefni sem vantar frá Íslandi sama tíma, og jafnvel freistandi að lauma því að Kvikmyndasafninu að komast yfir kópíu.
Engin íslensk persóna kemur þó fyrir í myndinni, titilinn sækir hún ekki þangað, heldur í síðutogarann í sögunni, sem heitir þetta bara, Íslenskur sjómaður. Þó virðist meira búa að baki: myndin er tileinkuð frönskum sjómönnum, sjómönnum frá Bretagne-skaga, sem létu lífið við Ísland. Nöfn nokkuð margra þeirra birtast letruð á legsteina í upphafi myndarinnar. Í kvikmyndinni sjálfri hættir sér þó enginn lengra við ólöglegar veiðar en inn á írsk hafsvæði.
Það sem ég hélt að yrði miðdepillinn í þessari færslu var setningin „All you really need is love“ sem ég var viss um að ein persóna hefði sagt við aðra. Það hvarflaði að mér hvort Lennon og félagar hefðu hugsanlega fengið setninguna úr samtali myndarinnar, og tekið sér til handargagns tæpum áratug síðar. En þetta var auðvitað vitleysa, í þessari mynd talar enginn ensku og þegar ég ætlaði að slá inn þessa tilgátu, sem hefði þá veitt eylandinu örlitla, langsótta hlutdeild í því ágæta lagi, áttaði ég mig samstundis á því að það væri bull. Setninguna hafði ég heyrt í myndinni sem ég horfði á seinna sama kvöld, The Bridge on the River Kwai, frá 1957. Hermaður í sjúkrafríi segir við hjúkrunarkonu sína: „You give me powders, pills, baths, injections, enemas, when all I need is love.“ Og hún svarar: „It’s true. All you really need is love.“ Eftir stendur að það gæti vel hugsast að þaðan hafi setningin setið í upprennandi bítli, það er ekki ósennilegt að þess stórmynd hafi þeir séð sem unglingar. En ef það er í frásögur færandi hefur sú saga í öllu falli ekkert með íslenska sjómenn að gera.
Brúin yfir ána Kvæ, hana er líka að finna á Netflix. Allt þetta gamla efni er áreiðanlega hræódýrt og heppilegt til að fjölga skráðum titlum svona efnisveitu með litlum tilkostnaði. Fyrir vikið leynir hún svolítið á sér.