Franskur bátur sem hét Íslenskur sjómaður

22.12.2022 ~ 3 mín

Í gær birti ég næstum nokkur orð hér um kvik­mynd sem ég var þá nýbú­inn að horfa á, en áttaði mig í miðjum klíðum á því að tveimur myndum hafði slegið saman í höfði mér, sem ég hafði séð sama kvöld, og það sem ég ætlaði að halda fram, það var bara vitleysa. Hugar­burður. Ég held að það skaði þó ekki að birta molann um fyrri mynd­ina, þó að þar sé þá ekki þetta sem ég hélt að yrði miðdep­ill hans:


Raoul Cout­ard hét töku­maður fyrstu kvik­mynda hins nýlátna leik­stjóra Jean-Luc Godard. Saman gerðu þeir þrettán kvik­myndir á sjöunda áratugnum – afköst Godards voru svo brjál­æð­is­leg að þessar þrettán eru víst ekki allar myndir hans á því tíma­bili, en bróð­urpart­ur­inn þó. Allt frá À bout de souffle gegnum Pierrot le Fou til La Chinoise og Week­end – ný fagur­fræði á nýja fagur­fræði ofan, aftur og aftur og aftur. Risa­vaxið samstarf.

Áður en samstarf þeirra hófst hafði Cout­ard skotið þrjár myndir með leik­stjóra að nafni Pierre Schoendoerf­fer. Ég þekki lítið til hans, fletti honum upp hér og nú til að fylla í eyðurnar: rithöf­undur, leik­stjóri og heim­ilda­mynda­gerð­ar­maður, segir Wikipedia. Gott og vel. Þriðja kvik­myndin sem hann leik­stýrði og sú þriðja, um leið, sem Cout­ard skaut, hét Pêcheur d’Islande. Fiski­mað­ur­inn frá Íslandi eða Íslenski sjóar­inn. Hún kom út árið 1959. Einhvern tíma rakst ég á þennan titil og þótti forvitni­legur, líklega hef ég þá eitt­hvað verið að garfa eftir upplýs­ingum um feril töku­manns­ins. En það náði ekki lengra, ég fann ekki út úr því hvar ég gæti séð þessa mynd.

Nú í vikunni, mörgum árum síðar, flett­andi gegnum titla á Netflix, birt­ist hún mér. Eins og ekkert væri sjálf­sagð­ara. Pêcheur d’Islande, frá árinu 1959. Í fullri HD upplausn, með enskum texta, jafn aðgengi­leg og hugs­ast getur. Kvöld­inu borgið. Ég horfði af stað.

Fín kvik­mynd. Einföld ástar­saga, sjómaður og dóttir útgerð­ar­manns verða skotin hvort í öðru. Hann vill sanna sig sem skip­stjóri, hún vill að hann lifi það af. Það sem gerir mynd­ina eftir­minni­lega eru tökur úti á sjó, sumar í óskap­ar­veðri, um borð í litlum síðu­tog­ara sem fær virki­lega að finna fyrir því. Ýmsum trixum hefur vafa­laust verið beitt, en sum skotin hafa mjög áreið­an­lega ekki feng­ist öðru­vísi en á opnu hafi. Það haf er Atlants­hafið, eins og margoft kemur fram, sama haf og hér, þetta er mynd­efni sem vantar frá Íslandi sama tíma, og jafn­vel freist­andi að lauma því að Kvik­mynda­safn­inu að komast yfir kópíu.

Engin íslensk persóna kemur þó fyrir í mynd­inni, titil­inn sækir hún ekki þangað, heldur í síðu­tog­ar­ann í sögunni, sem heitir þetta bara, Íslenskur sjómaður. Þó virð­ist meira búa að baki: myndin er tileinkuð frönskum sjómönnum, sjómönnum frá Bretagne-skaga, sem létu lífið við Ísland. Nöfn nokkuð margra þeirra birt­ast letruð á legsteina í upphafi mynd­ar­innar. Í kvik­mynd­inni sjálfri hættir sér þó enginn lengra við ólög­legar veiðar en inn á írsk hafsvæði.


Það sem ég hélt að yrði miðdep­ill­inn í þess­ari færslu var setn­ingin „All you really need is love“ sem ég var viss um að ein persóna hefði sagt við aðra. Það hvarfl­aði að mér hvort Lennon og félagar hefðu hugs­an­lega fengið setn­ing­una úr samtali mynd­ar­innar, og tekið sér til hand­ar­gagns tæpum áratug síðar. En þetta var auðvitað vitleysa, í þess­ari mynd talar enginn ensku og þegar ég ætlaði að slá inn þessa tilgátu, sem hefði þá veitt eyland­inu örlitla, lang­sótta hlut­deild í því ágæta lagi, áttaði ég mig samstundis á því að það væri bull. Setn­ing­una hafði ég heyrt í mynd­inni sem ég horfði á seinna sama kvöld, The Bridge on the River Kwai, frá 1957. Hermaður í sjúkra­fríi segir við hjúkr­un­ar­konu sína: „You give me powders, pills, baths, injecti­ons, enemas, when all I need is love.“ Og hún svarar: „It’s true. All you really need is love.“ Eftir stendur að það gæti vel hugs­ast að þaðan hafi setn­ingin setið í upprenn­andi bítli, það er ekki ósenni­legt að þess stór­mynd hafi þeir séð sem unglingar. En ef það er í frásögur færandi hefur sú saga í öllu falli ekkert með íslenska sjómenn að gera.

Brúin yfir ána Kvæ, hana er líka að finna á Netflix. Allt þetta gamla efni er áreið­an­lega hræó­dýrt og heppi­legt til að fjölga skráðum titlum svona efnisveitu með litlum tilkostn­aði. Fyrir vikið leynir hún svolítið á sér.