Redd­ingar og ráðaleysi

20.12.2022 ~ 3 mín

Að viðkvæðið Þetta redd­ast sé kjarni íslenskrar lífspeki og afstöðu til tilver­unnar, sú hugmynd hefur nú verið endur­tekin svo oft að hún er komin langt á veg að verða sönn.

Auðvitað man ég eftir þessu viðkvæði úr bernsku. Stundum þegar ég stóð frammi fyrir óyfir­stíg­an­legu vanda­máli, á við að missa vasa­diskó í gang­stétt eða finna ekki ermina á úlpu, þá reynd­ist geðprúð full­orðin mann­eskja vera þar í grennd við mig, tilbúin að segja „Þetta redd­ast“. En það voru ekki tóm orð. Þetta redd­ast þýddi ekki: nú látum við örlögin ráða fram úr því hvort þetta vasa­diskó verður nokk­urn tíma tekið aftur upp af gang­stétt­inni eða hvort úlpunni vex aftur ermi. Orðunum fylgdu athafnir. Með þessum orðum tók full­orðna mann­eskjan það að sér að leysa vand­ann. Þetta redd­ast þýddi í reynd: ég tek ábyrgð á að redda þessu, án þess að sóa nokk­urri athygli í að ég sé þar að verki. Þannig voru orðin ekki aðeins hugg­andi heldur til merkis um gjaf­mildi sem er svo hvers­dags­leg að lánsömum börnum þykir hún vera nátt­úru­lög­mál: að þegar eitt­hvað bjátar á sé einhver hæfari nálægur til að redda því án þess að ætlast til viður­kenn­ingar eða umbunar fyrir reddinguna.

Þú getur andað rólega. Það verður séð um þetta.

Í þessum ónota­legu glímum hefði það hljómað undar­lega að segja „Ég redda þessu“. Ég virð­ist rúmast illa í hvaða rökvísi sem þar býr að baki og þriðja persóna falla betur að form­inu: „Pabbi reddar þessu“ eða „Mamma reddar þessu“. „Við reddum þessu“ heyrð­ist, sem lét í veðri vaka að barnið ætti einhverja hlut­deild í lausn­inni, eins þegar það var áreið­an­lega ekki tilfellið. Og svo einfald­lega „Þetta reddast“.

Þetta redd­ast var þannig eins konar dulmál sem full­orðið fólk notaði við börn um fullt af þess háttar vinnu og erfiði, stóru og smáu, sem þau sinna með glöðu geði án þess að leggja nokk­urn tíma fram sem vinnu og erfiði. Jóla­sveinn­inn setur í skóinn. Þetta redd­ast. Kamúflas. Til að sá meðvindur sem barn­inu býðst í tilver­unni birt­ist því eins og nátt­úra. Svona sé heim­ur­inn heppi­lega samansettur.

Nú sitjum við uppi með þann nýja skiln­ing að Þetta redd­ast sé ekki til marks um umhyggju heldur kæru­leysi. Og að þetta one-size-fits-all kæru­leysi sé mottó lands­ins frammi fyrir nær öllum vanda­málum. Að gera ekkert í þeim heldur treysta á gæfuna, örlögin, lán og lukku, hvað sem við heitum á þegar við heitum á ekki neitt. Að hér segi fólk sí og æ Þetta redd­ast í sömu merk­ingu og aðrir myndu yppta öxlum. Eins og við höfum ekki komist fram úr skiln­ingi barns á orðunum, sem heyrði þau en lærði ekki að beita þeim. Þetta redd­ast, hættu að væla, komdu að leika.

Hvað sem réði því að þessi barns­lega túlkun orðanna Þetta redd­ast skyldi verða svona pláss­frek, þá hentar hún ágæt­lega hvenær sem einhver vill beina athygli frá vanda­máli. Og þá fer allt á hvolf. Ef lögmál heims­ins er það lögmál lánsamra barna að þetta redd­ast, þá er allt tal um vanda­mál til marks um vanstill­ingu. Og ef það að yppta öxlum yfir hverjum vanda er ekki bara þjóð­ar­ein­kenni heldur þjóð­ar­stolt þá er það að sjá vanda, benda á vanda, greina vanda og leysa vanda eitt­hvað í ætt við landráð.

Hin nýja merk­ing viðkvæð­is­ins Þetta redd­ast er ekki einkenni staðar heldur tíma­bils, þegar nokkur fjöldi fólks telur hag sínum best borgið með lífsaf­stöðu barns sem finnur ekki ermina á úlpunni sinni.


Nú ber á þess­ari megin­afstöðu síðustu tíma í átökum um túlkun heims­far­ald­urs og sótt­varna. Eða átökum, það er ofsögum sagt, þær raddir eru nokkuð kokhraustar sem segja ekki bara að þetta muni allt redd­ast héðan í frá heldur að þetta hefði líka redd­ast hingað til, eins þó að enginn hefði gert neitt. Að öll grein­ing vand­ans og viðleitnin til að kljást við hann, það yfir­leitt að líta á banvæna farsótt sem vanda­mál og reyna að leysa það, hafi ekki falið í sér ábyrgð eða umhyggju heldur vanstillingu.


Þetta var fínn dagur. En svolítið fyndið þetta með snjó­inn. Að það hafi ekki verið gert ráð fyrir honum.