Að viðkvæðið Þetta reddast sé kjarni íslenskrar lífspeki og afstöðu til tilverunnar, sú hugmynd hefur nú verið endurtekin svo oft að hún er komin langt á veg að verða sönn.
Auðvitað man ég eftir þessu viðkvæði úr bernsku. Stundum þegar ég stóð frammi fyrir óyfirstíganlegu vandamáli, á við að missa vasadiskó í gangstétt eða finna ekki ermina á úlpu, þá reyndist geðprúð fullorðin manneskja vera þar í grennd við mig, tilbúin að segja „Þetta reddast“. En það voru ekki tóm orð. Þetta reddast þýddi ekki: nú látum við örlögin ráða fram úr því hvort þetta vasadiskó verður nokkurn tíma tekið aftur upp af gangstéttinni eða hvort úlpunni vex aftur ermi. Orðunum fylgdu athafnir. Með þessum orðum tók fullorðna manneskjan það að sér að leysa vandann. Þetta reddast þýddi í reynd: ég tek ábyrgð á að redda þessu, án þess að sóa nokkurri athygli í að ég sé þar að verki. Þannig voru orðin ekki aðeins huggandi heldur til merkis um gjafmildi sem er svo hversdagsleg að lánsömum börnum þykir hún vera náttúrulögmál: að þegar eitthvað bjátar á sé einhver hæfari nálægur til að redda því án þess að ætlast til viðurkenningar eða umbunar fyrir reddinguna.
Þú getur andað rólega. Það verður séð um þetta.
Í þessum ónotalegu glímum hefði það hljómað undarlega að segja „Ég redda þessu“. Ég virðist rúmast illa í hvaða rökvísi sem þar býr að baki og þriðja persóna falla betur að forminu: „Pabbi reddar þessu“ eða „Mamma reddar þessu“. „Við reddum þessu“ heyrðist, sem lét í veðri vaka að barnið ætti einhverja hlutdeild í lausninni, eins þegar það var áreiðanlega ekki tilfellið. Og svo einfaldlega „Þetta reddast“.
Þetta reddast var þannig eins konar dulmál sem fullorðið fólk notaði við börn um fullt af þess háttar vinnu og erfiði, stóru og smáu, sem þau sinna með glöðu geði án þess að leggja nokkurn tíma fram sem vinnu og erfiði. Jólasveinninn setur í skóinn. Þetta reddast. Kamúflas. Til að sá meðvindur sem barninu býðst í tilverunni birtist því eins og náttúra. Svona sé heimurinn heppilega samansettur.
Nú sitjum við uppi með þann nýja skilning að Þetta reddast sé ekki til marks um umhyggju heldur kæruleysi. Og að þetta one-size-fits-all kæruleysi sé mottó landsins frammi fyrir nær öllum vandamálum. Að gera ekkert í þeim heldur treysta á gæfuna, örlögin, lán og lukku, hvað sem við heitum á þegar við heitum á ekki neitt. Að hér segi fólk sí og æ Þetta reddast í sömu merkingu og aðrir myndu yppta öxlum. Eins og við höfum ekki komist fram úr skilningi barns á orðunum, sem heyrði þau en lærði ekki að beita þeim. Þetta reddast, hættu að væla, komdu að leika.
Hvað sem réði því að þessi barnslega túlkun orðanna Þetta reddast skyldi verða svona plássfrek, þá hentar hún ágætlega hvenær sem einhver vill beina athygli frá vandamáli. Og þá fer allt á hvolf. Ef lögmál heimsins er það lögmál lánsamra barna að þetta reddast, þá er allt tal um vandamál til marks um vanstillingu. Og ef það að yppta öxlum yfir hverjum vanda er ekki bara þjóðareinkenni heldur þjóðarstolt þá er það að sjá vanda, benda á vanda, greina vanda og leysa vanda eitthvað í ætt við landráð.
Hin nýja merking viðkvæðisins Þetta reddast er ekki einkenni staðar heldur tímabils, þegar nokkur fjöldi fólks telur hag sínum best borgið með lífsafstöðu barns sem finnur ekki ermina á úlpunni sinni.
Nú ber á þessari meginafstöðu síðustu tíma í átökum um túlkun heimsfaraldurs og sóttvarna. Eða átökum, það er ofsögum sagt, þær raddir eru nokkuð kokhraustar sem segja ekki bara að þetta muni allt reddast héðan í frá heldur að þetta hefði líka reddast hingað til, eins þó að enginn hefði gert neitt. Að öll greining vandans og viðleitnin til að kljást við hann, það yfirleitt að líta á banvæna farsótt sem vandamál og reyna að leysa það, hafi ekki falið í sér ábyrgð eða umhyggju heldur vanstillingu.
Þetta var fínn dagur. En svolítið fyndið þetta með snjóinn. Að það hafi ekki verið gert ráð fyrir honum.