Ritvinnslu­for­ritið er ekki til

12.12.2022 ~ 10 mín

Ég er hald­inn áráttu í garð nýrra forrita. Ég er ekki svona á símanum mínum, þetta er bundið við tölv­una og bundið við ákveðið samhengi: mig langar oft í nýtt ritvinnslu­for­rit. Ritvinnslu­for­rit er gamalt orð sem kannski á ekki lengur við. Þetta sem ég hef í huga er yfir­leitt alltaf einhvers staðar á bilinu writ­ing app til text editor, ekki word processor í sama skiln­ingi og Microsoft Word eða Apple Pages.

Ég geri ráð fyrir að þarna úti sé nokkur hópur fólks sem fáist við sömu eða svip­aða áráttu, um leið og ég er nokkuð viss um að enn stærri hópur fólk gerir það alls ekki. En ólíkir textar og ólík meðferð þeirra kallar á ólík tæki. Ekki að ég geti ekki slegið inn sömu orðin í TextEdit, ritil­inn sem fylgir öllum Apple tölvum, til dæmis, og í hrátexta­for­ritið CotEd­itor eða Sublime Text, þess vegna. En um leið og text­inn er lengri en örfá para­gröf, um leið og hann telur þúsundir orða, þá er til dæmis afar gagn­legt að geta einhvern veginn skipu­lagt hann. Fengið yfir­sýn, kort­lagt hann jafn­vel, hreyft sig um og fært hluti til á því korti.

Þetta er að einhverju leyti það allra heila­dauð­asta sem ég geri. Eitt­hvað sem ég fæst við þegar ég hef enga getu lengur til að hugsa, hvað þá hugsa krítískt, um nokk­urt viðfangs­efni, þá er þetta þrauta­lausn á við púslu­spil, en heppi­legri þó jafn­vel að því leyti sem henni lýkur ekki. Ritvinnslu­for­ritið er ekki til. Það verður aldrei til. Ritvinnslu­for­rit drauma minna, stundum sé ég útlínur þess en ég veit þá þegar að það er tálsýn, því ég veit að ég mun þurfa eitt umhverfi til að ganga frá texta A og annað til að ganga frá texta B og til að ganga frá texta C get ég jafn­vel þurft að valsa um milli ólíkra forrita, eftir því á hvaða stigi vinnsl­unnar text­inn er. Ritvinnslu­for­ritið er ekki til.

Leitin að því, hins vegar, er ekki þar fyrir endi­lega leið­in­leg. Pirr­andi, já, en bara eins og hver önnur saga.

Meðal áfanga­staða minna í þess­ari leit hefur verið forritið Ulysses. Ég veit ekki hvort það er fyrsta forritið í sinni kateg­oríu, þau eru nú orðin nokkur, en það var það fyrsta sem rak á fjörur mínar, og hefur eftir­far­andi eigin­leika: í fyrsta lagi að notast við Mark­down eða tilbrigði við Mark­down, sem skjalasnið. Skjalasnið er þó ekki rétt orð, strangt til tekið, forritið vistar einfald­lega texta­skrár, hráan texta án nokk­urs hulins kóða. En Mark­down-stað­all­inn þýðir að það les stjörnur sem fyrir­mæli um skáletrun, tvístirni sem fyrir­mæli um breiðletrun, myllu­merki og bil sem fyrir­mæli um fyrir­sögn – örfáar einfaldar gegn­sæjar merkja­send­ingar sem sníða text­ann. Þetta þykir mér stór kostur á nokkra vegu, sem ég útlista kannski síðar. Forritið býður upp á að allt notendaum­hverfi þess sé núllað út svo ekkert standi eftir á skjánum nema einlitur bakgrunnur og text­inn á honum. Ef maður velur að hafa notendaum­hverfið sýni­legt birt­ist það þó öðru fremur sem einn eða tveir dálkar vinstra megin við ritflöt­inn, listi yfir möppur og skjöl sem gerir auðvelt að færa sig á milli skráa. Dálkur hægra megin við ritfölt­inn getur auk þess inni­haldið önnur gögn eftir þörfum. Þetta er allt og sumt. Grunn­ur­inn. Hrátt umhverfi, einfalt, en um leið létt, þjált, þýtt. Friðsælt.

Þegar Ulysses kom fyrst á markað var forritið selt, eins og allur hugbún­aður á þeim tíma, fyrir eina greiðslu. Leyfið sem maður keypti með þeirri einu greiðslu gilti til eilífð­arnóns. Því fylgdu þó ekki eilífar uppfærslur eins og kom á daginn þegar fyrir­tækið ákvað að stökkva á sama vagn og fjöldi annarra á undan­liðnum áratug og selja aðgang að forrit­inu í áskrift: mánað­ar­leyfi eða ársleyfi, um leið og það rennur út verður forritið ónot­hæft. Ég skil nytsemi þessa fyrir rekstr­ar­grund­völl fyrir­tækja og þykir það um leið óþol­andi sem notanda. Eftir stendur að ég sá ástæðu til að leita að öðrum forritum sem gerðu sama gagn.

Efst á blaði, ef maður leitar, birt­ist alltaf forritið IA Writer. Ekki AI eins og Artificial Intelli­gence, heldur IA eins og ég veit ekki alveg hvað. Ég gæti lýst því með nákvæm­lega sama hætti og ég lýsti Ulysses hér að ofan, grunn­skipu­lagið er það sama. Tilbrigði við sama stef. Það sem áður fór í taug­arnar á mér í fari þess, til dæmis að geta ekki valið hvaða letur sem er, birt­ist mér sem kostur um leið og ég tamdi mér að nota það: sko, hugs­aði ég þá með mér, þau hafa valið þetta svona vel fyrir mig, ég þarf ekki einu sinni að hugsa út í það. IA Writer er enn selt með stöku leyfi, ekki í áskrift, ég má nota það svo lengi sem ég vil. Ég nota það mikið og nýt þess.

En.

Þegar ég blogga, þegar ég birti texta hér, þá fer hann í gegnum vefum­hverfi WordPress, sem liggur að baki þessum vef eins og millj­ónum annarra vefsvæða þarna úti. Ég get ekki amast við WordPress með góðri samvisku, tilvist þess eða einhvers búnaðar af þeim toga er ein af forsendum tölu­verðra fram­fara í vefhönnun og miðlun okkar sem ekki erum fyrir­tæki. Fínt kerfi. En notendaum­hverfi WordPress, ef maður vill bara skrifa nokkur orð og láta þau frá sér, er óskap­lega ljótt og leið­in­legt, svo það sé sagt. Og hávaða­samt. Allir takk­arnir og allar upplýs­ing­arnar sem birt­ast mér á leið­inni inn í ramm­ann þar sem ég á ekkert erindi annað en að slá inn texta, mér leið­ist það allt, ég vil helst ekki sjá það ef ég kemst hjá því. Mig dreymir um að geta slegið orðin inn á auðan skjá, ýtt á slaufu-enter og þar með séu þau birt.

Það er næstum hægt í IA Writer. Og það er næstum hægt í Ulysses. Publish to WordPress-skip­unin í báðum er svo nálægt því að gera þetta mögu­legt að mig verkjar í það örstutta bil sem eftir stendur. En hvor­ugt kemst alla leið. Í báðum tilfellum þarf ég að opna bakenda vefs­ins, WordPress sjálft, til að samþykkja færslu fyrir birt­ingu. Og hefði þá allt eins getað kópí-peistað text­ann inn.

Stundum hef ég viljað láta mig hafa það. En nú þegar ég vinn að mestu leyti í IA-writer, þá langar mig að hafa þetta óreiðu­kennda blogg á einhverjum öðrum stað, í einhverju öðru umhverfi, langar að hafa það aðskilið. Þá hef ég seilst í Ulysses aftur, keypt mánað­ar­áskrift kannski, til að gá, er þetta það sem ég vil, er þetta það sem mig vantar? Ég geri það með svolítið óbragð í munn­inum, ónot í maganum, ég er ekki viss hvað er rétt orð yfir tilfinn­ing­una eða hvort það er yfir­leitt tilfinn­ing – en það er ekki bara að mér finn­ist fyrir­tækið að baki heldur vera að misnota aðstöðu sína og velvild notenda til að ofrukka fyrir það sem er þrátt fyrir allt frekar einfaldur hugbún­aður, heldur truflar hitt mig jafn­vel meira að vita af því yfir­vof­andi, hvort sem er eftir mánuð eða ár, að leyfi mitt renni út. Að ég sé leigj­andi. Mér leið­ist að vera leigj­andi. Ég vil heldur eiga rétt en njóta leyfis. Leyfi er eitt­hvað sem er hægt að aftur­kalla, réttur er, samkvæmt skyldu, varan­legur. Því er réttur ekki veittur, á laga­máli, hann er viður­kenndur. Að um leið og til hans hefur verið stofnað er hugmyndin sú að þarna hafi hann í reynd alla tíð verið, en aðeins huns­aður til þessa. Á því er hægt að standa. Það er ekki hægt að standa á leyfum, á þessu sem má kippa undan þér á hverri stundu.

Ég varði gærkvöld­inu í leit að nýju forriti, er það sem ég vildi segja. Og aftur kvöld­inu í kvöld. Í gærkvöldi próf­aði ég eitt sem heitir Drafts og annað sem heitir Paper. Ég próf­aði Spaces og leit aftur á Bear, gúgl­aði til að sjá hvort þessi birt­ing­ar­fítus væri kannski til staðar í Scri­vener, þó að það hljóm­aði óhent­ugt í þessu samhengi. Svo reynd­ist heldur ekki vera. Ég gúgl­aði hvort til væri einhvers konar viðbót við stýri­kerfið sjálft, til að deila textum til WordPress úr hvaða forriti sem er. Hvort ég gæti til dæmis gert það úr Notes-appinu innbyggða. Mér sýnist svo ekki vera. Hvað með Simp­lenote, sem ég notaði mikið einu sinni? Nei, ekki þar. Ég skoð­aði kóða­ritl­ana sem ég er með, fyrr­nefnda CotEd­itor og Sublime Text, þó að ég vissi betur, og ég veit líka betur en að sækja fleiri, þessa sem ég hef kannað gegnum tíðina, Atom og Visual Studio Code, enginn þeirra hentar í þetta, enginn þeirra er fyrst og fremst gerður til að hjálpa mér að slaka á þegar ég blogga.

Loks fletti ég upp í App Store. Ég var búinn að gefa upp alla von. Ég man ekki lengur hvort ég sló inn Mark­down eða WordPress, annað hvort var það. Og mér birt­ist forrit sem ég hef ekki áður séð: MWeb, annars vegar, ókeypis, og MWeb Pro, hins vegar. Keypis. Undir­t­it­ill: Mark­down & Note taking.

Ókei. Ókei ókei.

Nú sit ég semsagt og prufu­keyri þetta forrit. Fyrst ber að nefna að viðmótið er í grófum dráttum í sama flokki og áður­nefnd Ulysses og IA Writer. Bear fer nokkuð nærri sama flokki, þó að ég muni ekki í svip­inn hvort það styðst við Mark­down og þyki letur­valið í því svo leið­in­legt, svo óboð­lega fínlegt, að mér hrýs hugur við minn­ing­unni. Ég veit ekki til þess að þessi flokkur forrita heiti neitt á ensku, og það væri auðvitað óforskammað, svo ekki sé sagt gagns­laust, að gefa honum eitt­hvert sérstakt heiti á íslensku – nema þá til að liðka til fyrir þess­ari blogg­færslu, þess­ari frásögn. Þriggja dálka Mark­down ritlar? Þrídilk­ingar? Ég veit ekki, nei, þetta ætti að heita eitt­hvað á ensku, það er nákvæm­lega engin nytsemi í að þykj­ast reyna að gefa fyrir­bær­inu nafn á íslensku, það næði aldrei fótfestu, áhuga­sviðið er of þröngt, fyrir­bærið of skamm­líft, sjálfsagt mun umhverfi þeirra allra hafa vikið fyrir einhverju allt öðru eftir örfá ár.

Hvað um það – viðmótið er af þessum fyrr­nefnda, nafn­lausa toga. Ég verð ekki var við neina töf á milli lykla­borðs og skjás. Það er nú reyndar úr sögunni í flestum forritum, en þó ekki öllum. Ég geri ráð fyrir að það velti á því hversu vel eða illa forrit er skrifað, í einhverjum skiln­ingi, hvaða libr­aries er stuðst við, hversu nálægt kóðinn liggur grunn­ein­ingum stýri­kerf­is­ins sjálfs og svo fram­vegis, en mér finnst það raun­veru­leg furða, að á tæpum fjöru­tíu árum, frá 8 megar­iða Macintosh Plus tölvum með 1 mega­bæt í vinnslum­inni, það er, á meðan tækj­unum hefur vaxið ásmegin 250-falt eða 8.000-falt og þaðan af meira, þá hafi sumum forritum einhvern veginn samt tekist að viðhalda tilfinn­an­legum töfum eða skrykkj­óttum takti á leið­inni sem það tekur rafboð frá lykla­borði að verða að letri á skjá. Ég lendi enn í því ef ég álpast til að opna Word. Því er ekki að heilsa hér. Sambandið milli lykla­borðs og skjás er þjált og lipurt, jafn­vel þjálla og lipurra en í þeim þjálu og lipru forritum sem ég hef kosið að nota undan­farið og nefnt hér að framan.

Ég sé ekki að mér bjóð­ist að fela notenda­við­mótið allt – ef ég segi dálk­unum að hypja sig svo ekkert standi eftir nema grunn­ur­inn sem ég skrifa á, þá er þó stika efst á skjánum, tvískipt. Efri hlut­inn er með nokkrum hnöppum, sem eru nýti­legir. Neðri hlut­inn er hins vegar tab-stika, flip­astika, hvað eigum við að kalla hana? Sem er til þess ætluð að fletta milli skjala ef ég hef nokkur opin í einu, eins og milli glugga í vafra. Það var ein ágæt uppfinn­ing í notenda­við­móti á sínum tíma, en mér finnst sérdeilis óþarft að sóa skjáplássi í þá stiku þegar aðeins eitt skjal er opið.

Hvor­ugt truflar mig þó að ráði enn sem komið er. Jú, flip­astikan er fagur­fræði­lega óboð­leg, hún er það, en kannski ekki nema að því marki sem gerir suman hugbúnað aðeins vina­legra en hann annars væri. Er ekki eina ástæða þess að Microsoft Word er enn í notkun nokkuð víða í heim­inum að fólki þykir vænt um þann galla­grip eins og hvern þann fjöl­skyldu­með­lim sem skal alltaf segja eitt­hvað óvið­eig­andi þegar fólk kemur saman, hversu ræki­lega sem hann reyrir á sig bindið eða pússar skóna?

Nei, ég læt ekki flip­astik­una trufla mig. Ekki á meðan forritið er að öðru leyti svona þjált. Ég er svo fram­leið­inn á orð hérna, mér líður eins og gervi­greind. Ég prófa að birta þetta. Sé hvort þetta virkar.


P.S. Text­inn birt­ist eins og ekkert væri. Og flip­astikan, ég gat falið hana. Kom á daginn. Til að bæta því við hér, að þessu skrif­uðu og birtu, þurfti ég að opna WordPress. Ég get unað mér við það. Kannski uni ég mér við þetta.