Ég held að einhvers konar slit eigi sér stað ef við horfumst ekki í augu við sorg sem við göngum í gegnum. Eða stöndum frammi fyrir. Eða sem dynur á okkur. Þetta er ekki beinlínis nýstárleg kenning. Og ég er alveg áreiðanlega ekki bestur í að færa hana í orð. En ég held að því að horfast ekki í augu við alvarlega krísu í heilbrigðismálum fylgi alvarleg andleg krísa. Ég held að það sé ekki bara kvefpest í öllum þessa dagana heldur sorg. Svolítið þykk og marglaga. Kannski hef ég rangt fyrir mér.
Mér finnst svo indælt að slá inn texta til birtingar hér, slá inn og færa inn, eftir að ég fann þessa hjáleið framhjá bakenda vefsins sjálfs, get smellt á takka beint úr einföldu skrifappi, að líklega er nú hættara við því en áður að ég láti það eftir mér að birta innihaldslausar færslur og setningar, eða innihaldslitlar. Bara til að leyfa fingrunum að fara um lyklaborðið, orðunum að hlaupa aðeins um, bara til að láta eiginlega eins og barn sem slær í óróa eða hringlu yfir vöggu.
Ég las leiðbeiningar í bók í gær, um einfalda tilraun: að ganga afturábak upp eða niður stiga sem maður er vanur að stíga í hina áttina, beint áfram. Þannig, sagði í leiðbeiningunum, blasir við manni, skref fyrir skref, hliðrun á útsýni, eitthvað sem afhjúpast eða dregst saman, eitthvað frammi fyrir augunum á manni, sem áður blasti bara við hnakkanum og stiginn faldi fyrir manni, að því leyti. Í dag hef ég þrisvar sinnum gengið upp í þvottahúsið á háaloftinu og gleymt þessu í hvert sinn. En ég hlakka til að prófa, útsýnið um gluggana á stigaganginum er ekki amalegt.
Leiðbeiningar veit ég ekki hvort er rétta orðið. Ráð, kannski. Ábending um möguleika.
En þetta með sorgina situr í mér. Spurningin um sorgina. Eða spurningin um hvað það þýði fyrir samfélag að yppta öxlum yfir dauðanum.