Sorg, fingur, stigar, axlir

15.12.2022 ~ 2 mín

Ég held að einhvers konar slit eigi sér stað ef við horf­umst ekki í augu við sorg sem við göngum í gegnum. Eða stöndum frammi fyrir. Eða sem dynur á okkur. Þetta er ekki bein­línis nýstár­leg kenn­ing. Og ég er alveg áreið­an­lega ekki bestur í að færa hana í orð. En ég held að því að horf­ast ekki í augu við alvar­lega krísu í heil­brigð­is­málum fylgi alvar­leg andleg krísa. Ég held að það sé ekki bara kvefpest í öllum þessa dagana heldur sorg. Svolítið þykk og marglaga. Kannski hef ég rangt fyrir mér.


Mér finnst svo indælt að slá inn texta til birt­ingar hér, slá inn og færa inn, eftir að ég fann þessa hjáleið fram­hjá bakenda vefs­ins sjálfs, get smellt á takka beint úr einföldu skrif­a­ppi, að líklega er nú hætt­ara við því en áður að ég láti það eftir mér að birta inni­halds­lausar færslur og setn­ingar, eða inni­halds­litlar. Bara til að leyfa fingr­unum að fara um lykla­borðið, orðunum að hlaupa aðeins um, bara til að láta eigin­lega eins og barn sem slær í óróa eða hringlu yfir vöggu.


Ég las leið­bein­ingar í bók í gær, um einfalda tilraun: að ganga afturá­bak upp eða niður stiga sem maður er vanur að stíga í hina áttina, beint áfram. Þannig, sagði í leið­bein­ing­unum, blasir við manni, skref fyrir skref, hliðrun á útsýni, eitt­hvað sem afhjúp­ast eða dregst saman, eitt­hvað frammi fyrir augunum á manni, sem áður blasti bara við hnakk­anum og stig­inn faldi fyrir manni, að því leyti. Í dag hef ég þrisvar sinnum gengið upp í þvotta­húsið á háaloft­inu og gleymt þessu í hvert sinn. En ég hlakka til að prófa, útsýnið um glugg­ana á stiga­gang­inum er ekki amalegt.

Leið­bein­ingar veit ég ekki hvort er rétta orðið. Ráð, kannski. Ábend­ing um möguleika.


En þetta með sorg­ina situr í mér. Spurn­ingin um sorg­ina. Eða spurn­ingin um hvað það þýði fyrir samfé­lag að yppta öxlum yfir dauðanum.