Vinkona í skóg­ar­jaðri, vantrú­aður afgreiðslu­maður í búð, fjöldi hluta

17.12.2022 ~ 4 mín

Ég hitti vinkonu mína í dag. Mjög stutt. Við ætluðum að fá okkur te í Öskju­hlíð­inni og tókum bæði með okkur brúsa. En það var of kalt. Fyrir mig. Ég hef enn ekki fengið mér flíkur til að fást við þetta veður. Svo við gengum einn hring í kringum Perluna, í skóg­ar­jaðr­inum, það var alls ekki nóg, en við létum gott heita þar til næst.

Mikil­væg­asta erindið, ætlaði ég að segja, var að afhenda henni bók. En svo er það ekki alveg satt. Það var miðlægt erindi, miðlægt tilefni þess að hitt­ast. En auka­at­riðin og aðal­at­riðin eru ekki svona einföld. Það væri eins og að segja að aðal­at­riði jólanna væru gjaf­irnar. Eða að dansa í kringum jóla­tréð. Eða að aðal­at­riði kvöld­verð­ar­boðs sé matur­inn. Matur­inn er auðvitað miðlægur, án hans væri ekki beint kvöld­verð­ar­boð, en það er nú samt ekki hans vegna sem fólk kemur saman.

Eftir sem áður skipti það mig máli að koma bókinni til skila. Þetta eru höfund­arein­tökin, þau voru eyrna­merkt, hvert og eitt, áður en ég fékk þau í hend­urnar, hvert og eitt mikil­vægum viðtak­anda. Það hefur tekið um átta vikur að koma þeim til skila. Og í dag lauk þeirri afhend­ingu, hvert einasta samn­ings­bundið höfund­arein­tak Tugt­húss­ins er nú farið frá mér til síns rétta viðtakanda.


Að því loknu lögðum við Dísa í svolít­inn leið­angur. Hann hófst í Skip­holti, í verslun sem selur fyrst og fremst raftæki. Þar gengum við inn, hvort með sína FFP2-grímu, og biðum eftir að afgreiðslu­maður yrði laus.
– Góðan daginn, bauð ég þegar þar að kom.
– Góðan daginn, bauð afgreiðslu­mað­ur­inn á móti.
– Við sáum, sagði ég svo, á vefnum ykkar að hér fengj­ust FFP2-grímur.
– Já, það er rétt sagði afgreiðslu­mað­ur­inn, sem stóð við búðar­borðið en hreyfði sig ekki úr stað eða gerði sig líklegan til að bregð­ast við þessu á nokk­urn annan veg. Líklega bjóst ég við að hann segði: Já, þær eru hér, og vísaði mér veginn eða eitt­hvað í þá veru og það tók mig andar­tak að gera mér grein fyrir hvað ég skyldi segja næst fyrst hann gerði það ekki.
– Má ég sjá þær, spurði ég loks.
– Sjá þær, já, sagði hann, og hljóm­aði eins og honum þætti það undar­leg hugmynd, að viðskipta­vin­ur­inn skyldi vilja sjá vöru sem búðin hefur auglýst til sölu. Um leið teygði hann sig í kassa sem stóð á gólf­inu við hlið­ina á honum þarna við búðar­borðið, greip þar pappa­öskju og lagði hana á borð­flöt­inn á milli okkar. Á öskj­unni stóð að í henni mætti finna tíu grímur.
– Pakkn­ingin kostar þá 1400 krónur eða hvað, spurði ég, út frá stykkja­verð­inu sem var gefið upp á vefnum. Afgreiðslu­mað­ur­inn skann­aði strika­merkið á öskj­unni til að slá því upp og svar­aði: Nei, hún kostar 1390 krónur. – Flott, sagði ég, við tökum eina svona. Og hann varð við því, hann má eiga það, hann neit­aði okkur ekki um vöruna, en um leið og verðið birt­ist mér á posanum og ég reiddi fram kortið spurði hann: Eruð þið á leið­inni til Þýska­lands eða?
Það tók mig smá stund að átta mig á því hvernig spurn­ingin var tilkomin, hálft andar­tak eða svo, þar til ég mundi að þar hafa stjórn­völd gengið einna lengst í að krefja fólk um að bera ekki hvaða grímur sem er heldur FFP2-grímur í ýmsum almanna­rýmum, í faraldr­inum. Um leið og ég áttaði mig á því þótti mér spurn­ing afgreiðslu­manns­ins enn undar­legri, á nokkra vegu í einu. Í fyrsta lagi virt­ist afgreiðslu­mað­ur­inn bein­línis tregur til að taka það trúan­lega að nokkur skyldi hafa áhuga á vöru sem versl­unin hafði þó sjálf gert ljóst að þar væri til sölu. Í öðru lagi hafði hann nú spurt okkur, kúnna í verslun þar sem vildi aðeins svo til að hann fékkst við afgreiðslu, um ástæðu kaup­anna, um fyrir­huguð ferða­lög okkar. Mér þótti það svolítið óforskammað, svolítil innrás. Í þriðja lagi bar hann þessa spurn­ingu upp við fólk sem stóð þarna fyrir framan hann, einmitt á þeirri stundu, hvort með sína FFP2-grím­una fyrir vitunum. Mætti ekki segja að þar birt­ist nærtæk­ari skýr­ing, jafn­vel augljós­lega nærtæk­ari skýr­ing, á þess­ari sýni­lega óvæntu eftir­spurn eftir vörunni, en órar hans um ferða­lög ókunn­ugra til Þýska­lands, sem ekkert þar í búðinni benti annars til að við hefðum lagt á ráðin um?

Það eina sem mér datt í hug að svara á meðan posinn grennsl­að­ist fyrir um stöðu mála í bank­anum var bara: Nei, við notum þær hér. Afgreiðslu­mað­ur­inn setti upp þess háttar svip sem fólk setur upp ef það á annað borð setur upp svipi. Loks svar­aði bank­inn posanum, sagði að þar væri allt í góðu lagi, viðskiptin gætu farið fram. Fjár­hæðin færð­ist á milli reikn­inga, og eign­ar­haldið á hlut­unum í gagn­stæða átt, pappaaskjan og grím­urnar tíu urðu okkar. Ég greip pakkn­ing­una og við gengum út, viðskipt­unum lokið, áður en fleiri gagn­kvæmar furður könk­uð­ust á yfir búðarborðið.


Við rákum fleiri erindi, það var nota­legt, þetta var áður en snjór­inn féll, síðustu forvöð fyrir slabb.


Er matur hlutur? Ef ég segi að við höfum keypt fleiri hluti, væri þá óvænt að ég ætti við matvæli, eða væri það viðbúið? Er banani hlutur? Og eru þá fimm bananar fimm hlutir?

Við fórum í Bónus og ef hrís­grjónin eru talin með keyptum við þar mörg hundruð hluti.


Fleira hefði getað gerst í dag en gerð­ist ekki. Tíðindi sem hefðu getað orðið urðu ekki. Og hér verður ekki rætt um ótíð­indi á aðvent­unni. Hér er jólaskap.