Það áhuga­verða og það mikilvæga

20.1.2023 ~ 5 mín

Af öllu því sem mann­fræð­ing­ur­inn David Grae­ber skrif­aði sitja nokkrar línur fastar í mér en aðrar. Ein þeirra er: það mikil­væg­asta er ekki alltaf það áhugaverðasta.

Það er í bókinni The Utopia of Rules sem þessi ábend­ing birt­ist. Í bókinni setur Grae­ber fram nokkur einföld samasem­merki: kapí­tal­ismi = búró­kratía. Búró­kratía = barsmíðar. Að kapí­tal­ismi sé ekki andstæða skri­fræðis heldur feli í sér skri­fræði er einföld athugun þó að hún geti verið óvænt í samtím­anum, þar sem okkur er tamt að líta á þetta tvennt sem andstæður. Ríkj­andi hugmyndir síðustu áratuga herma að kapí­tal­ismi hafi eitt­hvað að gera með frelsi, öfugt við ríkin sem snúist um boð og bönn og séu stirð­busa­leg eins og sjáist í öllu skri­fræð­inu þeirra. En þetta er ekki andstæðupar, segir hann, skri­fræði fór samferða kapí­tal­ism­anum um heim­inn og vex ásmegin með hverju hluta­bréfi, bæði skri­fræði innan stórra fyrir­tækja, skri­fræði milli fyrir­tækj­anna, milli þeirra og hins opin­bera og skri­fræði milli fyrir­tækja og neyt­enda, saman­ber skil­mál­ana sem þú skrifar undir í hvert sinn sem þú innsetur nýtt forrit í tölv­una þína.

Gott og vel en hvað á hann þá við með því að skri­fræði sé eða feli í sér barsmíðar, eða beint, líkam­legt ofbeldi? Er það ekki annað andstæðupar, hið kurt­eis­is­lega og snyrti­lega klædda gang­virki lögfræði­legra smáat­riða og undir­skrifta, annars vegar, og frum­stæðar líkams­meið­ingar hins vegar? Nei, segir Grae­ber. Ástæða þess að skri­fræðið virkar er að á bakvið ferlin, til að viðhalda hlýðni við þau, stendur vopnað lögreglu­lið tilbúið að bregð­ast við ef einhver fer út af spor­inu. Ef þú stendur ekki í skilum með húsnæð­is­lánið, til dæmis. Fyrst færðu auðvitað kurt­eis­legar viðvar­anir. Ef þú hunsar þær heyr­irðu frá lögfræð­ingi. Ef þú hunsar hann boðar sýslu­maður komu sína. Sýslu­maður mætir loks og býður húsið þitt upp. Ef þú hypjar þig ekki á settum degi eftir það kallar hann til lögreglu sem hótar að beita þig handafli og bera þig bein­línis út, með öllu þínu góssi. Ef hótunin ein nægir ekki er henni fylgt eftir: þú ert borinn, borin, borið. Og ef þú streit­ist á móti, þá ertu barinn, barin, barið, járnað/ur, kannski stungið í klefa.

Og hvað kemur grein­ar­munur þess áhuga­verða og þess mikil­væga þessu máli við? Jú, í nokkra áratugi hafa hugvís­indi og félags­vís­indi þróað nokkuð viða­mikið net hugtaka yfir alls konar smærri og óefn­is­legri tegundir vald­beit­ingar sem hafa víðtæk áhrif á tilveru okkar, míkró-aggressjónir, augna­ráð, fjöl­breyttar meið­ingar með orðum. Þessi flokkur vald­beit­ingar skiptir ekki aðeins máli, segir Grae­ber, heldur er hann gríð­ar­lega áhuga­verður. Um hann er afar margt að segja. Kylfur eru ekki nálægt því jafn áhuga­verðar. En þær eru hugs­an­lega mikil­væg­ari, í þeim skiln­ingi að vera enn þýðing­ar­meiri við að halda hlutum í föstum skorðum. Hitt allt hefði jafn­vel hugs­an­lega lítil áhrif ef ekki væri fyrir bareflið sem bíður alltaf, ef til vill ekki beint handan við hornið, en á enda línunnar, ef einhver virki­lega lætur ekki segjast.

Þessi grein­ar­munur þess áhuga­verða og þess mikil­væga á kannski víðar við en innan hugvís­inda. Kannski eiga raun­vís­indin það líka til, ásamt verk­fræði og öðrum sviðum sem tengj­ast þeim, að verja tölu­vert meiri athygli og tíma í það sem er áhuga­vert en það sem er mikil­vægt. Líklega er til dæmis gríð­ar­lega áhuga­vert að þróa fyrsta mRNA bólu­efnið. Og kannski – mögu­lega – er þó mikil­væg­ara að hengja tusku framan á andlitið á sér. Ef það væri tilfellið, ef tuska yfir vitin skyldi vera mikil­væg­ara úrræði til sótt­varna en bólu­efni, værum við sem menn­ing fær um að bera kennsl á það?


Ég er að reyna að hætta að skrifa um Covid. Helst langar mig að hætta að hugsa um Covid. Ég veit að utan frá birt­ist þetta flestum einfald­lega sem þráhyggja. Og ég veit að mér er áreið­an­lega fyrir bestu að taka það líka til skoð­unar, þann mögu­leika. Ég reyni að máta þá spurn­ingu við mig, og þess háttar spurn­ingar. Þráhyggja? Kvíði? Félags­fælni? Leið mér einfald­lega betur í samkomutak­mörk­unum? Og svo framvegis.

En það er sama hvaða sálfræði­at­hug­anir ég geri um sjálfan mig, ég næ því ekki heim og saman að við, sem samfé­lag, kjósum að yppta öxlum yfir dauðs­föllum og alvar­legum veik­indum, annars vegar, og þeim mögu­legu, enn óþekktu afleið­ingum sem pestin getur haft til lengri tíma, hins vegar. Annars vegar er beina tjónið sjálft, líkam­legu afleið­ing­arnar. Hins vegar andlega tjónið sem ég held að samfé­lag valdi sjálfu sér með svo stað­ráðnu skeyt­ing­ar­leysi. Grund­vall­ar­at­riðið, það stenst ekki. Farsóttir eru nátt­úru­hörm­ungar. Ef við lítum svo á að nátt­úru­hörm­ungar séu einka­vandi hvers og eins en ekki sameig­in­legt úrlausn­ar­efni, þá blasa ekki aðeins við þær grimmu afleið­ingar sem þegar eru orðnar, heldur er um leið ljóst hvernig við munum tækla hnatt­hlýnun. Í fyrsta lagi verður ekkert við í því. Í öðru lagi verður ekkert tæklað. Í þriðja lagi er líklegt að orð á við hnatt­hlýnun finn­ist þá fljótt ekki heldur, rétt eins og enginn minn­ist lengur á Covid eða heims­far­aldur – orðin sjálf hafa verið látin leys­ast upp á milli öndun­ar­færa­sýk­inga, almennt, smita sem eru ekki greind, tölfræði sem birt­ist ekki og „það er einhver pest í mér þessa dagana“. Í fjórða lagi virð­ist nú allt benda til þess að sá hópur sem hefur efni á að leiða vand­ann hjá sér, þau lönd og þær stéttir sem geta litið á hann sem annarra manna vanda­mál, verði orðin svo þjálfuð í þess háttar afhólfun að ekkert af því bein­línis trufli þau. Hversu mörg dóu úr Covid í liðinni viku? Í Banda­ríkj­unum 4.000 manns, í ESB 3.500. Á Íslandi? Við vitum það ekki, hér birt­ast slíkar tölur nú á nokk­urra vikna eða mánaða fresti. Á undan­liðnu ári? Um 250 þúsund í Banda­ríkj­unum, um 250 þúsund í ESB. Um 200 á Íslandi. Ef það er hunsan­legt, ef það er samkvæmt skil­grein­ingu allra „ekki minn vandi“, hvers vegna ætti ekki sama að gilda um aðrar hamfarir framundan?


Það áhuga­verða og það mikil­væga. Fréttamiðlar verða auðvitað að leita eftir áhuga­verðum fréttum. Þeir misstu af ótal áhuga­verðum hliðum farald­urs­ins til þessa, völdu úr, völdu yfir­leitt góðu frétt­irnar umfram þær slæmu – en látum það liggja á milli hluta, hér og nú er staðan sú að sagan af Covid er ekki bara óáhuga­verð, hún er nær óend­an­lega óáhuga­verð. Hún hófst fyrir þremur árum síðan og svo heldur hún bara áfram svona: fleiri dóu, fleiri dóu, fleiri dóu, fleiri dóu. Og fleiri dóu og fleiri dóu og fleiri dóu. Það er ekki skemmti­lestur, og þar með, eftir því sem tíminn líður, samkvæmt mark­aðs­lög­málum lestrar, ekki frétt. Tíðinda­laust á vest­ur­víg­stöðv­unum. Þetta óend­an­lega óáhuga­verða viðfangs­efni, þessi helvítis pest, er eftir sem áður, í allri sinni ömurð, hugs­an­lega mikilvægt.