Af öllu því sem mannfræðingurinn David Graeber skrifaði sitja nokkrar línur fastar í mér en aðrar. Ein þeirra er: það mikilvægasta er ekki alltaf það áhugaverðasta.
Það er í bókinni The Utopia of Rules sem þessi ábending birtist. Í bókinni setur Graeber fram nokkur einföld samasemmerki: kapítalismi = búrókratía. Búrókratía = barsmíðar. Að kapítalismi sé ekki andstæða skrifræðis heldur feli í sér skrifræði er einföld athugun þó að hún geti verið óvænt í samtímanum, þar sem okkur er tamt að líta á þetta tvennt sem andstæður. Ríkjandi hugmyndir síðustu áratuga herma að kapítalismi hafi eitthvað að gera með frelsi, öfugt við ríkin sem snúist um boð og bönn og séu stirðbusaleg eins og sjáist í öllu skrifræðinu þeirra. En þetta er ekki andstæðupar, segir hann, skrifræði fór samferða kapítalismanum um heiminn og vex ásmegin með hverju hlutabréfi, bæði skrifræði innan stórra fyrirtækja, skrifræði milli fyrirtækjanna, milli þeirra og hins opinbera og skrifræði milli fyrirtækja og neytenda, samanber skilmálana sem þú skrifar undir í hvert sinn sem þú innsetur nýtt forrit í tölvuna þína.
Gott og vel en hvað á hann þá við með því að skrifræði sé eða feli í sér barsmíðar, eða beint, líkamlegt ofbeldi? Er það ekki annað andstæðupar, hið kurteisislega og snyrtilega klædda gangvirki lögfræðilegra smáatriða og undirskrifta, annars vegar, og frumstæðar líkamsmeiðingar hins vegar? Nei, segir Graeber. Ástæða þess að skrifræðið virkar er að á bakvið ferlin, til að viðhalda hlýðni við þau, stendur vopnað lögreglulið tilbúið að bregðast við ef einhver fer út af sporinu. Ef þú stendur ekki í skilum með húsnæðislánið, til dæmis. Fyrst færðu auðvitað kurteislegar viðvaranir. Ef þú hunsar þær heyrirðu frá lögfræðingi. Ef þú hunsar hann boðar sýslumaður komu sína. Sýslumaður mætir loks og býður húsið þitt upp. Ef þú hypjar þig ekki á settum degi eftir það kallar hann til lögreglu sem hótar að beita þig handafli og bera þig beinlínis út, með öllu þínu góssi. Ef hótunin ein nægir ekki er henni fylgt eftir: þú ert borinn, borin, borið. Og ef þú streitist á móti, þá ertu barinn, barin, barið, járnað/ur, kannski stungið í klefa.
Og hvað kemur greinarmunur þess áhugaverða og þess mikilvæga þessu máli við? Jú, í nokkra áratugi hafa hugvísindi og félagsvísindi þróað nokkuð viðamikið net hugtaka yfir alls konar smærri og óefnislegri tegundir valdbeitingar sem hafa víðtæk áhrif á tilveru okkar, míkró-aggressjónir, augnaráð, fjölbreyttar meiðingar með orðum. Þessi flokkur valdbeitingar skiptir ekki aðeins máli, segir Graeber, heldur er hann gríðarlega áhugaverður. Um hann er afar margt að segja. Kylfur eru ekki nálægt því jafn áhugaverðar. En þær eru hugsanlega mikilvægari, í þeim skilningi að vera enn þýðingarmeiri við að halda hlutum í föstum skorðum. Hitt allt hefði jafnvel hugsanlega lítil áhrif ef ekki væri fyrir bareflið sem bíður alltaf, ef til vill ekki beint handan við hornið, en á enda línunnar, ef einhver virkilega lætur ekki segjast.
Þessi greinarmunur þess áhugaverða og þess mikilvæga á kannski víðar við en innan hugvísinda. Kannski eiga raunvísindin það líka til, ásamt verkfræði og öðrum sviðum sem tengjast þeim, að verja töluvert meiri athygli og tíma í það sem er áhugavert en það sem er mikilvægt. Líklega er til dæmis gríðarlega áhugavert að þróa fyrsta mRNA bóluefnið. Og kannski – mögulega – er þó mikilvægara að hengja tusku framan á andlitið á sér. Ef það væri tilfellið, ef tuska yfir vitin skyldi vera mikilvægara úrræði til sóttvarna en bóluefni, værum við sem menning fær um að bera kennsl á það?
Ég er að reyna að hætta að skrifa um Covid. Helst langar mig að hætta að hugsa um Covid. Ég veit að utan frá birtist þetta flestum einfaldlega sem þráhyggja. Og ég veit að mér er áreiðanlega fyrir bestu að taka það líka til skoðunar, þann möguleika. Ég reyni að máta þá spurningu við mig, og þess háttar spurningar. Þráhyggja? Kvíði? Félagsfælni? Leið mér einfaldlega betur í samkomutakmörkunum? Og svo framvegis.
En það er sama hvaða sálfræðiathuganir ég geri um sjálfan mig, ég næ því ekki heim og saman að við, sem samfélag, kjósum að yppta öxlum yfir dauðsföllum og alvarlegum veikindum, annars vegar, og þeim mögulegu, enn óþekktu afleiðingum sem pestin getur haft til lengri tíma, hins vegar. Annars vegar er beina tjónið sjálft, líkamlegu afleiðingarnar. Hins vegar andlega tjónið sem ég held að samfélag valdi sjálfu sér með svo staðráðnu skeytingarleysi. Grundvallaratriðið, það stenst ekki. Farsóttir eru náttúruhörmungar. Ef við lítum svo á að náttúruhörmungar séu einkavandi hvers og eins en ekki sameiginlegt úrlausnarefni, þá blasa ekki aðeins við þær grimmu afleiðingar sem þegar eru orðnar, heldur er um leið ljóst hvernig við munum tækla hnatthlýnun. Í fyrsta lagi verður ekkert við í því. Í öðru lagi verður ekkert tæklað. Í þriðja lagi er líklegt að orð á við hnatthlýnun finnist þá fljótt ekki heldur, rétt eins og enginn minnist lengur á Covid eða heimsfaraldur – orðin sjálf hafa verið látin leysast upp á milli öndunarfærasýkinga, almennt, smita sem eru ekki greind, tölfræði sem birtist ekki og „það er einhver pest í mér þessa dagana“. Í fjórða lagi virðist nú allt benda til þess að sá hópur sem hefur efni á að leiða vandann hjá sér, þau lönd og þær stéttir sem geta litið á hann sem annarra manna vandamál, verði orðin svo þjálfuð í þess háttar afhólfun að ekkert af því beinlínis trufli þau. Hversu mörg dóu úr Covid í liðinni viku? Í Bandaríkjunum 4.000 manns, í ESB 3.500. Á Íslandi? Við vitum það ekki, hér birtast slíkar tölur nú á nokkurra vikna eða mánaða fresti. Á undanliðnu ári? Um 250 þúsund í Bandaríkjunum, um 250 þúsund í ESB. Um 200 á Íslandi. Ef það er hunsanlegt, ef það er samkvæmt skilgreiningu allra „ekki minn vandi“, hvers vegna ætti ekki sama að gilda um aðrar hamfarir framundan?
Það áhugaverða og það mikilvæga. Fréttamiðlar verða auðvitað að leita eftir áhugaverðum fréttum. Þeir misstu af ótal áhugaverðum hliðum faraldursins til þessa, völdu úr, völdu yfirleitt góðu fréttirnar umfram þær slæmu – en látum það liggja á milli hluta, hér og nú er staðan sú að sagan af Covid er ekki bara óáhugaverð, hún er nær óendanlega óáhugaverð. Hún hófst fyrir þremur árum síðan og svo heldur hún bara áfram svona: fleiri dóu, fleiri dóu, fleiri dóu, fleiri dóu. Og fleiri dóu og fleiri dóu og fleiri dóu. Það er ekki skemmtilestur, og þar með, eftir því sem tíminn líður, samkvæmt markaðslögmálum lestrar, ekki frétt. Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Þetta óendanlega óáhugaverða viðfangsefni, þessi helvítis pest, er eftir sem áður, í allri sinni ömurð, hugsanlega mikilvægt.