En þegar úlfa­pró­fessor í stöðu úlfa­mála­ráð­herra hrópar „Úlfur“? —Um bilaða tekatla í Davos

22.1.2023 ~ 7 mín

World Economic Forum heitir samkoman sem árlega er haldin í skíða­þorp­inu Davos í sviss­nesku ölpunum. Þetta er tíu þúsund manna bær, hálf Akur­eyri, en líklega er hvorki bær né þorp góð þýðing á resort. Spa, nema með snjó? Heiti samkom­unnar sjálfrar er líka á reiki, hefur ýmist verið þýtt sem efna­hags­ráð­stefna, Alþjóð­lega efna­hags­þingið, Alþjóða­efna­hags­ráðið eða heimsvið­skipta­ráð­stefna. Þarna hitt­ast forkólfar stórra fyrir­tækja og leið­togar ríkja til að ráða ráðum sínum, spá í spilin, fara yfir stöð­una, einu sinni á ári.

Þingi þessa árs er nýlokið, það stóð síðustu viku, lauk föstu­dag­inn 20. janúar. Og þaðan er að minnsta kosti tvennt að frétta. Í fyrsta lagi að yfir 200 auðmenn skil­uðu bæna­skjali til þings­ins þar sem þau báðu um að lagðir verði á þau þyngri skattar, ójöfn­uð­ur­inn í heim­inum sé farinn úr bönd­unum. Erfingi Disney-veld­is­ins, Abigail Disney, var þar á meðal. Mér finnst þetta bæði merki­leg frétt og áhuga­verð, ég held að hún hefði fengið smelli hér eins og annars staðar og er ekki viss hvers vegna hún birt­ist ekki í íslenskum fjöl­miðlum. Ef hún gerði það fór það alla­vega fram­hjá mér.


Hitt sem er að frétta frá Davos er að nokk­urt kapp var lagt á sótt­varnir í þágu gesta ráðstefn­unnar. Um það held ég að hafi fyrst verið fjallað á Twitter en síðan tóku nokkrir fjöl­miðlar málið upp, meðal annars Slate og Forbes. Fyrst voru allir gestir krafðir um PCR-próf. Prófin mátti taka á 42 mönn­uðum stöðvum á svæð­inu, meðal annars á flestum hótelum þess. Mátti taka og varð að taka: þátt­tak­endur voru krafðir um að taka prófið innan sólar­hrings eftir komu og fengu ekki inngöngu án þess. Hver sem fékk jákvæða niður­stöðu úr próf­inu, þ.e. greind­ist með Covid, var einnig sjálf­krafa útilok­aður frá þátt­töku. Ef fólk fann til einkenna var það hvatt til að nýta sér ókeypis hrað­próf sem buðust á ráðstefnusvæð­inu. Um leið var þó reynt að lágmarka alla hættu á slíku með samsettum úrræðum: öll samkomu­rými voru loftræst og sótt­hreinsuð nokkrum sinnum á dag, ný loftræsti­kerfi sett upp ásamt loft­hreinsi­tækjum með HEPA-filterum og útfjólu­bláum ljósum í ráðstefnu­sölum, búnaði til að granda örverum. Þá var starfs­fólki í návígi við ráðstefnu­gesti gert skylt að bera grímur, meðal annars öllum bílstjórum, auk þess sem hágæða FFP2-grímur stóðu öllum ráðstefnu­gestum frítt til boða, innan seil­ingar á öllum samkomustöðum.

Og þetta vakti athygli einhverra. Allur þessi viðbún­aður. Og að enginn hafi kvartað yfir honum. Meðal annars vegna þess að í hópi gesta voru nokkuð margir sem bera á einn eða annan veg ábyrgð á þeim skila­boðum til almenn­ings að engin þörf sé á sótt­vörnum, Covid sé nú eigin­lega bara eins og kvef og/eða engin leið að komast hjá smiti.


Örstutt um það annars. Þetta og/eða. Einu sinni, fyrir langa löngu, þýddi ég nokkrar greinar og svo heila bók eftir Slavoj Žižek á íslensku. Ég hélt mikið upp á hann og geri enn, þó að ég lesi ekki lengur verk hans upp á hvern dag. Žižek er mjög fram­leið­inn á texta – ég held að hann hafi skrifað tvær bækur um farald­ur­inn fyrir árslok 2020 – og hann leyfir sér að endur­nýta og endur­vinna ákveðin stef milli verka. Á meðal þess­ara stefja eru brand­arar og á meðal brand­ar­anna er einn sem hann hefur eftir Freud, um bilaða teketil­inn. Maður bankar upp á hjá nágranna sínum til að inna hann eftir tekatli sem nágrann­inn hafi fengið að láni hjá honum. Nágrann­inn svarar: ég fékk engan ketil lánaðan hjá þér, hann var bilaður þegar ég fékk hann og ég er búinn að skila þér honum … ósam­ræmið í vörn­inni kemur auðvitað upp um, segja Žižek og Freud, þann illa dulda sann­leika að nágrann­inn hefur ekki í hyggju að skila katl­inum sem hann fékk að láni. Ég held að það sé alveg óhætt að hafa þessa rökvísi í huga frammi fyrir öllum rökunum sem heyrst hafa gegn sótt­vörnum til þessa – þó að sú keðja sé öllu lengri: pestin er ekki svo skað­leg en ef hún er mjög skað­leg er engin leið að forð­ast hana og ef það er einhver leið að forð­ast hana væri það þó slæm hugmynd því aðeins með smiti fæst varan­legt ónæmi og ef þannig fæst ekkert varan­legt ónæmi þá eru endursmit þó fátíð en fyrst þau eru ekki fátíð eru þau ekki alvar­leg en fyrst þau eru alvar­leg er engin leið að komast hjá þeim … runan kemur auðvitað upp um þann undir­liggj­andi og illa dulda sann­leika að við ætlum að valda tölu­verðu tjóni en ætlum ekki að taka ábyrgð á því.


Við er vand­með­farið orð þessi miss­erin. Fjöldi fólks bendir nú á loft­hreinsi­tækin á ljós­myndum frá Davos eins og maður­inn hefði bent á ketil­inn sinn ef glitti í hann inn um gætt­ina hjá nágrann­anum – víst! Hann er þarna! Hann er þarna!


Hvað þá? Hvað er þarna? Segjum að allur þessi viðbún­aður sé til marks um eitt­hvað, hvað þá?

Um það fjallar loks frétt sem birt­ist beint eftir að Karl Lauter­bach, heil­brigð­is­ráð­herra Þýska­lands, sneri aftur frá þing­inu í Davos. Ég held að ég hafi áður minnst á Lauter­bach hér á blogg­inu. Um störf hans sem ráðherra eru skiptar skoð­anir, eins og gengur. Innlegg hans í umræður á Twitter eru þó fyrsta flokks og minna má varla vera: auk ráðherra­embætt­is­ins er Lauter­bach prófessor í faralds­fræðum. Í viðtali sem Rhein­ische Post birti nú á laug­ar­dag segir ráðherrann:

„Það er umhugs­un­ar­vert hvað við greinum hjá fólki sem hefur smit­ast oftar en einu sinni af kórónu­veirunni. Rann­sóknir gefa mjög sterk­lega til kynna að í kjöl­farið sitji þau oft uppi með ólækn­andi ónæm­is­brest. Hann getur verið áhættu­þáttur fyrir aðra lang­vinna sjúk­dóma, allt frá hjarta- og æðakvillum yfir í heila­bilun. Rétt er að nefna að þetta er enn ekki áreið­an­legt, ákafar rann­sóknir standa yfir. Ég fylg­ist með þeim og ræði við sérfræð­inga. En þetta þýðir: ef maður er með mjög breytt ónæmis­kerfi eftir tvær sýkingar, þá er ráðlegt að forð­ast ítrek­aðar sýkingar af Covid.“

Þessi hluti viðtals­ins hefur síðan ratað í fyrir­sagnir á öðrum miðlum: Lauter­bach varar við ólækn­andi ónæm­is­bresti, og svo fram­vegis.1

Efnis­lega er þetta ekki nýtt. Að sjúk­dóm­ur­inn geti valdið veru­legu tjóni á ónæmis­kerfi fólks, sem geti því orðið berskjald­aðra fyrir alvar­legum afleið­ingum með hverju endursmiti, um það hafa verið vísbend­ingar frá upphafi, og þær hafa styrkst eftir því sem rann­sóknum fjölgar. Meðal annars þess vegna hefur mörgum verið um og ó yfir þeirri stefnu, til dæmis á Íslandi, að snið­ganga ráðgjöf sérfræð­inga og fella niður allar sótt­varnir. Að ráðherra í einu af stærstu iðnríkjum heims hafi nú orð á þess­ari hættu, svo skýrt og afdrátt­ar­laust, það er hins vegar nýtt.

Í ljósi þeirrar áhættu sem Lauter­bach vekur máls á er allur viðbún­að­ur­inn í Davos skilj­an­legur. Hver vill hætta á alvar­legan, langvar­andi heilsu­brest til að komast á fund? Hver myndi ekki gera ráðstaf­anir til að lágmarka þá hættu? Það sem er skrítn­ara er að almenn­ingur skuli enn fall­ast á að verð­leggja sína áhættu, sitt líf og heilsu, svona lágt í saman­burði. Að finn­ast maður sjálfur ekki þess virði að fólk sé að vesen­ast neitt. Það er einhver „ef mig skyldi kalla“-fórnfýsi sem ég vissi ekki, hefði aldrei hvarflað að mér, að væri svona útbreidd.

References
1 Rétt er að bæta við að eftir birt­ingu viðtals­ins var ráðherr­ann gagn­rýndur fyrir að nota orðið „ólækn­andi“ enda væri of snemmt að taka svo djúpt í árinni. Viðtal­inu hefur í kjöl­farið verið breytt, og er nú haft eftir ráðherr­anum að um sé að ræða ónæm­is­brest sem enn finn­ist engin lækn­ing við. – HMH 23. jan 2023.