World Economic Forum heitir samkoman sem árlega er haldin í skíðaþorpinu Davos í svissnesku ölpunum. Þetta er tíu þúsund manna bær, hálf Akureyri, en líklega er hvorki bær né þorp góð þýðing á resort. Spa, nema með snjó? Heiti samkomunnar sjálfrar er líka á reiki, hefur ýmist verið þýtt sem efnahagsráðstefna, Alþjóðlega efnahagsþingið, Alþjóðaefnahagsráðið eða heimsviðskiptaráðstefna. Þarna hittast forkólfar stórra fyrirtækja og leiðtogar ríkja til að ráða ráðum sínum, spá í spilin, fara yfir stöðuna, einu sinni á ári.
Þingi þessa árs er nýlokið, það stóð síðustu viku, lauk föstudaginn 20. janúar. Og þaðan er að minnsta kosti tvennt að frétta. Í fyrsta lagi að yfir 200 auðmenn skiluðu bænaskjali til þingsins þar sem þau báðu um að lagðir verði á þau þyngri skattar, ójöfnuðurinn í heiminum sé farinn úr böndunum. Erfingi Disney-veldisins, Abigail Disney, var þar á meðal. Mér finnst þetta bæði merkileg frétt og áhugaverð, ég held að hún hefði fengið smelli hér eins og annars staðar og er ekki viss hvers vegna hún birtist ekki í íslenskum fjölmiðlum. Ef hún gerði það fór það allavega framhjá mér.
Hitt sem er að frétta frá Davos er að nokkurt kapp var lagt á sóttvarnir í þágu gesta ráðstefnunnar. Um það held ég að hafi fyrst verið fjallað á Twitter en síðan tóku nokkrir fjölmiðlar málið upp, meðal annars Slate og Forbes. Fyrst voru allir gestir krafðir um PCR-próf. Prófin mátti taka á 42 mönnuðum stöðvum á svæðinu, meðal annars á flestum hótelum þess. Mátti taka og varð að taka: þátttakendur voru krafðir um að taka prófið innan sólarhrings eftir komu og fengu ekki inngöngu án þess. Hver sem fékk jákvæða niðurstöðu úr prófinu, þ.e. greindist með Covid, var einnig sjálfkrafa útilokaður frá þátttöku. Ef fólk fann til einkenna var það hvatt til að nýta sér ókeypis hraðpróf sem buðust á ráðstefnusvæðinu. Um leið var þó reynt að lágmarka alla hættu á slíku með samsettum úrræðum: öll samkomurými voru loftræst og sótthreinsuð nokkrum sinnum á dag, ný loftræstikerfi sett upp ásamt lofthreinsitækjum með HEPA-filterum og útfjólubláum ljósum í ráðstefnusölum, búnaði til að granda örverum. Þá var starfsfólki í návígi við ráðstefnugesti gert skylt að bera grímur, meðal annars öllum bílstjórum, auk þess sem hágæða FFP2-grímur stóðu öllum ráðstefnugestum frítt til boða, innan seilingar á öllum samkomustöðum.
Og þetta vakti athygli einhverra. Allur þessi viðbúnaður. Og að enginn hafi kvartað yfir honum. Meðal annars vegna þess að í hópi gesta voru nokkuð margir sem bera á einn eða annan veg ábyrgð á þeim skilaboðum til almennings að engin þörf sé á sóttvörnum, Covid sé nú eiginlega bara eins og kvef og/eða engin leið að komast hjá smiti.
Örstutt um það annars. Þetta og/eða. Einu sinni, fyrir langa löngu, þýddi ég nokkrar greinar og svo heila bók eftir Slavoj Žižek á íslensku. Ég hélt mikið upp á hann og geri enn, þó að ég lesi ekki lengur verk hans upp á hvern dag. Žižek er mjög framleiðinn á texta – ég held að hann hafi skrifað tvær bækur um faraldurinn fyrir árslok 2020 – og hann leyfir sér að endurnýta og endurvinna ákveðin stef milli verka. Á meðal þessara stefja eru brandarar og á meðal brandaranna er einn sem hann hefur eftir Freud, um bilaða teketilinn. Maður bankar upp á hjá nágranna sínum til að inna hann eftir tekatli sem nágranninn hafi fengið að láni hjá honum. Nágranninn svarar: ég fékk engan ketil lánaðan hjá þér, hann var bilaður þegar ég fékk hann og ég er búinn að skila þér honum … ósamræmið í vörninni kemur auðvitað upp um, segja Žižek og Freud, þann illa dulda sannleika að nágranninn hefur ekki í hyggju að skila katlinum sem hann fékk að láni. Ég held að það sé alveg óhætt að hafa þessa rökvísi í huga frammi fyrir öllum rökunum sem heyrst hafa gegn sóttvörnum til þessa – þó að sú keðja sé öllu lengri: pestin er ekki svo skaðleg en ef hún er mjög skaðleg er engin leið að forðast hana og ef það er einhver leið að forðast hana væri það þó slæm hugmynd því aðeins með smiti fæst varanlegt ónæmi og ef þannig fæst ekkert varanlegt ónæmi þá eru endursmit þó fátíð en fyrst þau eru ekki fátíð eru þau ekki alvarleg en fyrst þau eru alvarleg er engin leið að komast hjá þeim … runan kemur auðvitað upp um þann undirliggjandi og illa dulda sannleika að við ætlum að valda töluverðu tjóni en ætlum ekki að taka ábyrgð á því.
Við er vandmeðfarið orð þessi misserin. Fjöldi fólks bendir nú á lofthreinsitækin á ljósmyndum frá Davos eins og maðurinn hefði bent á ketilinn sinn ef glitti í hann inn um gættina hjá nágrannanum – víst! Hann er þarna! Hann er þarna!
Hvað þá? Hvað er þarna? Segjum að allur þessi viðbúnaður sé til marks um eitthvað, hvað þá?
Um það fjallar loks frétt sem birtist beint eftir að Karl Lauterbach, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sneri aftur frá þinginu í Davos. Ég held að ég hafi áður minnst á Lauterbach hér á blogginu. Um störf hans sem ráðherra eru skiptar skoðanir, eins og gengur. Innlegg hans í umræður á Twitter eru þó fyrsta flokks og minna má varla vera: auk ráðherraembættisins er Lauterbach prófessor í faraldsfræðum. Í viðtali sem Rheinische Post birti nú á laugardag segir ráðherrann:
„Það er umhugsunarvert hvað við greinum hjá fólki sem hefur smitast oftar en einu sinni af kórónuveirunni. Rannsóknir gefa mjög sterklega til kynna að í kjölfarið sitji þau oft uppi með ólæknandi ónæmisbrest. Hann getur verið áhættuþáttur fyrir aðra langvinna sjúkdóma, allt frá hjarta- og æðakvillum yfir í heilabilun. Rétt er að nefna að þetta er enn ekki áreiðanlegt, ákafar rannsóknir standa yfir. Ég fylgist með þeim og ræði við sérfræðinga. En þetta þýðir: ef maður er með mjög breytt ónæmiskerfi eftir tvær sýkingar, þá er ráðlegt að forðast ítrekaðar sýkingar af Covid.“
Þessi hluti viðtalsins hefur síðan ratað í fyrirsagnir á öðrum miðlum: Lauterbach varar við ólæknandi ónæmisbresti, og svo framvegis.1
Efnislega er þetta ekki nýtt. Að sjúkdómurinn geti valdið verulegu tjóni á ónæmiskerfi fólks, sem geti því orðið berskjaldaðra fyrir alvarlegum afleiðingum með hverju endursmiti, um það hafa verið vísbendingar frá upphafi, og þær hafa styrkst eftir því sem rannsóknum fjölgar. Meðal annars þess vegna hefur mörgum verið um og ó yfir þeirri stefnu, til dæmis á Íslandi, að sniðganga ráðgjöf sérfræðinga og fella niður allar sóttvarnir. Að ráðherra í einu af stærstu iðnríkjum heims hafi nú orð á þessari hættu, svo skýrt og afdráttarlaust, það er hins vegar nýtt.
Í ljósi þeirrar áhættu sem Lauterbach vekur máls á er allur viðbúnaðurinn í Davos skiljanlegur. Hver vill hætta á alvarlegan, langvarandi heilsubrest til að komast á fund? Hver myndi ekki gera ráðstafanir til að lágmarka þá hættu? Það sem er skrítnara er að almenningur skuli enn fallast á að verðleggja sína áhættu, sitt líf og heilsu, svona lágt í samanburði. Að finnast maður sjálfur ekki þess virði að fólk sé að vesenast neitt. Það er einhver „ef mig skyldi kalla“-fórnfýsi sem ég vissi ekki, hefði aldrei hvarflað að mér, að væri svona útbreidd.
↑1 | Rétt er að bæta við að eftir birtingu viðtalsins var ráðherrann gagnrýndur fyrir að nota orðið „ólæknandi“ enda væri of snemmt að taka svo djúpt í árinni. Viðtalinu hefur í kjölfarið verið breytt, og er nú haft eftir ráðherranum að um sé að ræða ónæmisbrest sem enn finnist engin lækning við. – HMH 23. jan 2023. |
---|