Veruleikinn heldur áfram að vera klofinn hér við tölvuskjáinn minn. Eða svona. Annars vegar allt fólkið sem talar um „í Covid“ í þátíð og meinar tímann þegar stjórnvöld brugðust við faraldrinum, árin 2020 og 2021. Þau segja líka „eftir Covid“ og eiga þá við tímann eftir að stjórnvöldu hættu að bregðast við og fólk tók að deyja úr Covid. Þannig dóu fáir úr Covid í Covid, en margir eftir Covid. Og nú löngu eftir Covid er haft eftir fulltrúa Heilsugæslunnar í Vísi: „Það er bara mjög mikið af pestum í gangi og mjög mikið af Covid þannig að við erum að hvetja fólk til að koma ef það eru meira en fjórir mánuðir liðnir frá síðustu sprautu.“ Eftir Covid er fólk yfir sextugu hvatt til að þiggja þrjár bólusetningar á ári, að óbreyttu. Gegn Covid. Til að deyja ekki.
Presturinn í Bretlandi
Hins vegar, á Twitter, blasir við mér heimurinn þar sem þetta ástand er ekki kallað „eftir Covid“, og spurningin hvort faraldur er faraldur er ekki talin pólitísk eða spurning um stemningu, heldur faraldsfræðileg. Samkvæmt faraldsfræðingunum er enn faraldur. Breski presturinn sem kallar sig kríu beinir sjónum sínum að skólum í dag: „There is no other constantly superspreading environment like a school. Nothing.“ – Ekkert stuðlar jafn duglega að ofurdreifingu veirunnar og skólar. Ekkert. Undir þessu tísti láta foreldrar í sér heyra, enskumælandi, sem enn halda því börnum sínum heima. „Mine is home too. I struggle with guilt about the isolation – but she’s old enough to see that something sinister is going on in society,“ segir móðir að nafni Kate, hún haldi dóttur sinni enn heima frekar en senda hana í skólann og huggi sig með því að minna sig á að sú ákvörðun sé langtímafjárfesting í heilbrigðum heila og fullri getu til sjálfstæðis og auðugs lífs í framtíðinni.
Bráðalæknirinn í Ástralíu
Dr. David Berger, bráðalæknir í Ástralíu, deilir færslu manns að nafni Russell. Móðir Russells lést á dögunum og verður jarðsungin í næstu viku. „Went in with infection, died with covid,“ skrifar hann – var lögð inn með sýkingu, dó með Covid. „It’s not OK“, skrifar Berger við færsluna, „to infect 22 year olds, 52 year olds or 92 year olds who are in hospital with COVID and kill them. I can’t believe we have to protest this shit. I can’t believe doctors aren’t standing up en masse and saying this is not acceptable.“ Á twitter kallar Berger sig aBsuRdiSTe cROnickLeR, við gætum þýtt það sem annálaritara fáránleikans.
Heimspekingurinn í Svíþjóð
Maarten Steenhagen, heimspekingur við Uppsala háskóla skrifar: „Why covid keeps bothering me?“ – Hvers vegna Covid heldur áfram að angra mig? „Well, if we accept this level of preventable damage and suffering as a society, then what more will we shrug off in the near future?“ – Ef við, sem samfélag, föllumst á þetta ónauðsynlega tjón og þjáningu, hverju öðru munum við þá yppta öxlum yfir í náinni framtíð? „People’s actions now are a litmus test for how they’ll deal with societal collapse due to climate change“ – Breytni fólks hér og nú eru prófsteinn á hvernig það mun bregðast við hruni samfélaga vegna loftslagsbreytinga.
Salem um vinstrið
Manneskja sem kallar sig salem á twitter, og er fötluð samkvæmt lýsingu í síðuhaus, skrifar: „interesting how leftists understand the power of individuals when they’re calling for solidarity with strikers, but when it comes to covid they’re suddenly like “stop expecting individuals to do anything about systemic problems“ – salem er með öðrum orðum á meðal þeirra sem þykir einkennilegt hversu fálátt vinstrið er um faraldurinn, og hversu greiðlega stór hluti þess samþykkti að skilgreina vandann sem einstaklingsbundið viðfangsefni frekar en samfélagslegt.
Faraldsfræðingurinn í The Nation
Og Gregg Gonsalves, dósent í faraldsfræði við lýðheilsuskóla Yale-háskóla deilir eigin grein, sem birtist í tímaritinu The Nation nú í dag – The Nation er einn rótgrónasti vinstrimiðill Bandaríkjanna, hefur komið út reglubundið frá miðri 19. öld. Yfirskrift greinar Gonsalves er While They “Have the Tools,” We Are Still Suffering and Dying in Our Thousands. Í greininni vísar Gonsalves meðal annars til þeirra sóttvarnaráðstafana sem ráðamenn og auðkýfingar beita til að vernda sjálf sig, og birtust meðal annars á efnahagsráðstefnunni í Davos fyrr í þessum mánuði, á sama tíma og þeim skilaboðum er haldið að almenningi að faraldurinn sé liðinn hjá og/eða ekkert hægt að gera í honum héðan af.
Ég deili þessu ekki í von um að sannfæra nokkra manneskju um eitt né neitt – ég er bara að æfa fingurna og hugann og samræmið á milli þeirra, held þessu til haga fyrir sjálfan mig, við erum öll, eins og bráðalæknirinn í Ástralíu, annálaritarar fáránleikans. „Eftir Covid“ er tilbúningur. „Eftir sannleikann“, hins vegar, post-truth, allir hættu að tala um það ástand þegar Bandaríkin skiptu um forseta, en ég er ekki viss um að sannleikurinn hafi lokið endurhæfingu jafn skjótt. Eða endurlífgun, hvort var það?
Tveir heimar. Í öðrum er heimsfaraldur. Í hinum er bara „mjög mikið af Covid“. Í öðrum er tilefni til að huga að grímum, loftræstingu og öðrum ráðum, til viðbótar við bólusetningar, til að færri veikist og deyi. Í hinum er vandinn, eftir bólusetningu, vandi þeirra veiku, og þó einkum vandi þeirra dauðu, og þar með enginn vandi yfirleitt, því dauðir kvabba ekki yfir neinu.
Fimmtudagur. Af stað.