Góðu frétt­irnar: slæmu fréttirnar

27.1.2023 ~ 3 mín

Ég gæti haldið áfram að renna yfir tíst dags­ins eins og ég gerði í gær, en seinna um daginn urðu meiri tíðindi en svo, sem varða þessa króníku.

George Monbiot heitir gamal­reyndur blaða­maður við The Guar­dian. Hann hefur árum saman verið fremstur meðal jafn­ingja í umfjöllun blaðs­ins um umhverf­is­mál og lofts­lags­breyt­ingar. Sjálfur gerði ég mér fyrst grein fyrir tilvist hans þegar Ísland setti sig á lista þeirra ríkja sem réðust með Banda­ríkj­unum inn í Írak árið 2003. Meðal fjöl­margra greina sem Monbiot skrif­aði þá gegn innrás­inni birt­ist ein undir titl­inum „It will end in disa­ster“. Grein­inni lauk á þessum orðum: „They have unlocked the spirit of war, and it could be unwill­ing to return to its casket until it has traversed the world.“ Þetta var í apríl 2003, tæpir tveir áratugir eru liðnir síðan, Monbiot reynd­ist skelfi­lega sannspár.

Monbiot er með öðrum orðum traust­verð­ugur blaða­maður, að mínu mati. Um leið er hann engin jaðar­fígura heldur main­stream þunga­vigt­ar­maður. Og nú á fimmtu­dag, 26. janúar 2023, birt­ist ritstjórn­ar­grein eftir hann í sama miðli, undir löngum titli: „We are all play­ing Covid roulette. Without clean air, the next infection could perman­ently disa­ble you“ – á íslensku: Við erum öll að spila Covid-rúll­ettu. Án hreins lofts gæti næsta sýking valdið þér varan­legri örorku. Greinin öll reynd­ist jafn skýr og afdrátt­ar­laus og fyrir­sögnin. (Ef ég á erfitt með að taka undir tóninn í einni eða tveimur setn­ingum, er það sem við er að fást svo miklu alvar­legra en tónfall og kurt­eisis­venjur, að það væri fárán­legt að hafa orð á því.)

Hvílíkur léttir. Áþreif­an­legri jafn­vel en þegar heil­brigð­is­ráð­herra Þýska­lands varaði við því á dögunum að endur­teknar Covid-sýkingar geti valdið óaft­ur­kræfu tjóni á ónæmis­kerfi fólks. Léttir, hvernig þá, gæti einhver spurt. Léttir, jú, að því leyti að allt hefur þetta nú legið ljóst fyrir um nokkra hríð, en viðfangs­efnið orðið jaðar­sett. Hver þau sem hafa haldið áfram að fylgj­ast með þróun farald­urs­ins eftir að stjórn­völd og fjöl­miðlar misstu flest áhug­ann á honum kann­ast bæði við það sem Lauter­bach varaði við og flest það sem kemur fram í grein Monbiots – en lifa undir stöð­ugum þrýst­ingi um að láta eins og þau geri það ekki. Að trúa ekki sínum eigin augum. Það er galið ástand. Að því leyti er þetta léttir, ef allt bendir þegar til að vand­inn sé til staðar, að sjá glitta í mögu­leik­ann á að það verði viður­kennt. Því þá er hægt að takast á við hann.

Og Monbiot er lausnamið­aður. Í grein­inni segir hann meðal annars, hér í snarpri þýðingu: „Það finn­ast sann­fær­andi rök fyrir því að rétt eins og kólera var stöðvuð með aðgangi að hreinu vatni, þá verði Covid stöðvað með aðgangi að hreinu lofti. Veiran dafnar í illa loftræstum, fjöl­mennum rýmum – sérstak­lega í kennslu­stofum, þar sem nemendur sitja saman lengi. Samkvæmt einni rann­sókn geta aflknúin loftræsti­kerfi í kennslu­stofum dregið úr smit­hættu um 74 prósent.“

Bólu­efni ein og sér bundu ekki enda á farald­ur­inn. Verk­fræði­legar lausnir – loftræst­ing og síun – gætu hins vegar dregið veru­lega úr ógninni.

Monbiot bendir einnig á að þetta vita nú þegar þau sem vilja. Úrræð­unum er beitt – í þágu efri stétta: „Þingið býr nú að vönd­uðu loft­hreinsi­kerfi með rafskiljum. Samkvæmt verk­tak­anum sem setti kerfið upp tryggja rafskilj­urnar að loft­bornum veirum og bakt­eríum sé „haldið í algjöru lágmarki innan rýmis­ins“. Sama á við um það húsnæði hins opin­bera þar sem ráðherrar starfa. Á Alþjóð­lega efna­hags­þing­inu í Davos í þessum mánuði voru loft­hreinsi­tæki í hverju herbergi, og vernd­uðu í sumum tilfellum sömu stjórn­mála­menn og hafa neitað almenn­ingi í löndum sínum um slíkar lausnir. Það er næstum eins og þeir telji sín eigin líf mikil­væg­ari en okkar.“

Í stuttu máli er þetta góð grein. Í henni gerir Monbiot grein fyrir vand­anum, tekur skarpa afstöðu gegn því dáðleysi sem almenn­ingur er nú kraf­inn um, og leggur til lausnir. Ég mæli með henni.