Ég gæti haldið áfram að renna yfir tíst dagsins eins og ég gerði í gær, en seinna um daginn urðu meiri tíðindi en svo, sem varða þessa króníku.
George Monbiot heitir gamalreyndur blaðamaður við The Guardian. Hann hefur árum saman verið fremstur meðal jafningja í umfjöllun blaðsins um umhverfismál og loftslagsbreytingar. Sjálfur gerði ég mér fyrst grein fyrir tilvist hans þegar Ísland setti sig á lista þeirra ríkja sem réðust með Bandaríkjunum inn í Írak árið 2003. Meðal fjölmargra greina sem Monbiot skrifaði þá gegn innrásinni birtist ein undir titlinum „It will end in disaster“. Greininni lauk á þessum orðum: „They have unlocked the spirit of war, and it could be unwilling to return to its casket until it has traversed the world.“ Þetta var í apríl 2003, tæpir tveir áratugir eru liðnir síðan, Monbiot reyndist skelfilega sannspár.
Monbiot er með öðrum orðum traustverðugur blaðamaður, að mínu mati. Um leið er hann engin jaðarfígura heldur mainstream þungavigtarmaður. Og nú á fimmtudag, 26. janúar 2023, birtist ritstjórnargrein eftir hann í sama miðli, undir löngum titli: „We are all playing Covid roulette. Without clean air, the next infection could permanently disable you“ – á íslensku: Við erum öll að spila Covid-rúllettu. Án hreins lofts gæti næsta sýking valdið þér varanlegri örorku. Greinin öll reyndist jafn skýr og afdráttarlaus og fyrirsögnin. (Ef ég á erfitt með að taka undir tóninn í einni eða tveimur setningum, er það sem við er að fást svo miklu alvarlegra en tónfall og kurteisisvenjur, að það væri fáránlegt að hafa orð á því.)
Hvílíkur léttir. Áþreifanlegri jafnvel en þegar heilbrigðisráðherra Þýskalands varaði við því á dögunum að endurteknar Covid-sýkingar geti valdið óafturkræfu tjóni á ónæmiskerfi fólks. Léttir, hvernig þá, gæti einhver spurt. Léttir, jú, að því leyti að allt hefur þetta nú legið ljóst fyrir um nokkra hríð, en viðfangsefnið orðið jaðarsett. Hver þau sem hafa haldið áfram að fylgjast með þróun faraldursins eftir að stjórnvöld og fjölmiðlar misstu flest áhugann á honum kannast bæði við það sem Lauterbach varaði við og flest það sem kemur fram í grein Monbiots – en lifa undir stöðugum þrýstingi um að láta eins og þau geri það ekki. Að trúa ekki sínum eigin augum. Það er galið ástand. Að því leyti er þetta léttir, ef allt bendir þegar til að vandinn sé til staðar, að sjá glitta í möguleikann á að það verði viðurkennt. Því þá er hægt að takast á við hann.
Og Monbiot er lausnamiðaður. Í greininni segir hann meðal annars, hér í snarpri þýðingu: „Það finnast sannfærandi rök fyrir því að rétt eins og kólera var stöðvuð með aðgangi að hreinu vatni, þá verði Covid stöðvað með aðgangi að hreinu lofti. Veiran dafnar í illa loftræstum, fjölmennum rýmum – sérstaklega í kennslustofum, þar sem nemendur sitja saman lengi. Samkvæmt einni rannsókn geta aflknúin loftræstikerfi í kennslustofum dregið úr smithættu um 74 prósent.“
Bóluefni ein og sér bundu ekki enda á faraldurinn. Verkfræðilegar lausnir – loftræsting og síun – gætu hins vegar dregið verulega úr ógninni.
Monbiot bendir einnig á að þetta vita nú þegar þau sem vilja. Úrræðunum er beitt – í þágu efri stétta: „Þingið býr nú að vönduðu lofthreinsikerfi með rafskiljum. Samkvæmt verktakanum sem setti kerfið upp tryggja rafskiljurnar að loftbornum veirum og bakteríum sé „haldið í algjöru lágmarki innan rýmisins“. Sama á við um það húsnæði hins opinbera þar sem ráðherrar starfa. Á Alþjóðlega efnahagsþinginu í Davos í þessum mánuði voru lofthreinsitæki í hverju herbergi, og vernduðu í sumum tilfellum sömu stjórnmálamenn og hafa neitað almenningi í löndum sínum um slíkar lausnir. Það er næstum eins og þeir telji sín eigin líf mikilvægari en okkar.“
Í stuttu máli er þetta góð grein. Í henni gerir Monbiot grein fyrir vandanum, tekur skarpa afstöðu gegn því dáðleysi sem almenningur er nú krafinn um, og leggur til lausnir. Ég mæli með henni.