Nú er að segja frá Búa. Þeim byrjaði seint og tóku Orkneyjar um haustið síðarla.
Svona hefst tólfti kafli Kjalnesinga sögu. Þeim byrjaði seint. Ég er ekki það vel lesinn í Íslendingasögunum að ég hafi rekist á þessa notkun orðsins áður, ekki svo ég muni. Þegar ég gúgla „þeim byrjaði“ sé ég að hún finnst víðar: „Nú er að segja frá þeim Eiríki ok Jóni, að þeim byrjaði vel; komu þeir skipum sínum við Valland“ segir í Þjalar-Jóns sögu. Í Egils sögu byrjaði einhverjum vel og í Göngu-Hrólfs sögu byrjaði einhverjum hæglega, en sýndist svo sem annað myndi veður í lofti.
En ég var ekki að lesa þær heldur Kjalnesinga sögu og þar byrjaði þeim seint. Þeir eru bræðurnir Helgi og Vaki og þeir eru í siglingu, en þeim byrjar seint.
Og ég uppgötva þetta svona seint, að sögnin að byrja er dregin af byr, að byrja er að fá byr í seglin. Eitthvað sem manni gefst eða gefst ekki, maður þarf að vera til reiðu búinn, seglið heilt og báturinn með, en eitt og sér er það ekki nóg, manni þarf líka að byrja.
Mér finnst þessi forsaga orðsins að byrja svolítið góð. Það er auðmýkt í henni, skilningur á því að sjálfur ræður maður aðeins sínu, hitt þarf líka að veitast manni, sem maður ræður engu um. Maður hefst auðvitað handa löngu fyrr. En maður siglir ekki fyrr en manni byrjar.