Hvernig byrjar?

14.1.2023 ~ 1 mín

Nú er að segja frá Búa. Þeim byrj­aði seint og tóku Orkn­eyjar um haustið síðarla.

Svona hefst tólfti kafli Kjalnes­inga sögu. Þeim byrj­aði seint. Ég er ekki það vel lesinn í Íslend­inga­sög­unum að ég hafi rekist á þessa notkun orðs­ins áður, ekki svo ég muni. Þegar ég gúgla „þeim byrj­aði“ sé ég að hún finnst víðar: „Nú er að segja frá þeim Eiríki ok Jóni, að þeim byrj­aði vel; komu þeir skipum sínum við Valland“ segir í Þjalar-Jóns sögu. Í Egils sögu byrj­aði einhverjum vel og í Göngu-Hrólfs sögu byrj­aði einhverjum hæglega, en sýnd­ist svo sem annað myndi veður í lofti.

En ég var ekki að lesa þær heldur Kjalnes­inga sögu og þar byrj­aði þeim seint. Þeir eru bræð­urnir Helgi og Vaki og þeir eru í sigl­ingu, en þeim byrjar seint.

Og ég uppgötva þetta svona seint, að sögnin að byrja er dregin af byr, að byrja er að fá byr í seglin. Eitt­hvað sem manni gefst eða gefst ekki, maður þarf að vera til reiðu búinn, seglið heilt og bátur­inn með, en eitt og sér er það ekki nóg, manni þarf líka að byrja.

Mér finnst þessi forsaga orðs­ins að byrja svolítið góð. Það er auðmýkt í henni, skiln­ingur á því að sjálfur ræður maður aðeins sínu, hitt þarf líka að veit­ast manni, sem maður ræður engu um. Maður hefst auðvitað handa löngu fyrr. En maður siglir ekki fyrr en manni byrjar.