Vorið 2020, þegar fyrst heyrðist af pestinni sem stuttu síðar fékk nafnið Covid-19, þá birtust ógnvænlegar fréttamyndir frá Kína. Myndir frá sjúkrahúsum, myndir af götum úti, myndir af fólki sem dó bara þar sem það stóð, myndir af líkum á gangstéttum – voru þetta áreiðanlegar myndir? Var heimildin traust? Þær flugu í það minnsta einhvern veginn um miðlana, ásamt myndum af viðbragðinu, fólki í hazmat-búningum, úðandi spritti um háskólabyggingar og íþróttaleikvelli, setjandi slagbranda fyrir hlið, logsjóðandi hurðir – skelfilegar myndir.
Tveimur árum síðar, þegar Vesturlönd ákváðu eitt af öðru að láta pestina geisa, meira eða minna fyrirstöðulaust, þá birtust engar myndir frá sjúkrahúsunum, engar myndir af þeim sem hnigu niður og dóu fyrirvaralaust. Hér urðu 200 dauðsföll af völdum pestarinnar á nýliðnu ári en af þeim birtust engar skelfilegar myndir. Stundum hefur hvarflað að mér að það hafi verið helsta keppikefli stjórnvalda í viðureigninni við faraldurinn, ekki hvernig hægt væri að draga úr dauðsföllum og alvarlegum veikindum heldur hvernig forðast mætti skelfilegar myndir.
Enn birtust fréttir það ár, og myndir með, af því hvað ástandið væri skelfilegt í Kína, en þá vegna þess að þar væri faraldrinum enn haldið í skelfum. Úðakútarnir, aftur, hazmat-fötin, aftur.
Nú þegar pestin hefur gengið ljósum logum um Vesturlönd í tæpt ár og er loks hleypt lausri í Kína líka, þá birtast enn skelfilegar myndir – þaðan. Ekki héðan. Hér hætta hjúkrunarfræðingar og læknar við Landspítalann unnvörpum störfum vegna viðvarandi álags, hér biður spítalinn fólk um að leita heldur til Heilsugæslunnar, Heilsugæslan segir fólki að halda sig frekar heima, hér þarf umtalsverða áhættusækni til að leita á náðir heilbrigðiskerfisins enda óljóst hvort fleiri læknast þar eða veikjast. En í kvöldfréttum sjónvarps birtast fréttamyndir af yfirfullum sjúkrahúsum – í Kína. Álagið þar þyki nokkuð alvarlegt.
Á morgun ætla ráðherrar Evrópusambandsins að ræða möguleikann á samhentum aðgerðum til að takmarka ferðalög kínverskra ríkisborgara um lönd Evrópu. Vegna faraldursins.
Ef marka má myndirnar, myndræna framsetningu fréttamiðla og áherslur í fyrirsögnum, þá er ljóst að veiran SARS2 er mannskæð drepsótt í Kína og þegar hún berst frá Kína en að mestu skaðlaust kvef þegar hún smitast milli Vesturlandabúa.
Enn hefur ekki borið á nýju afbrigði frá Kína. Hins vegar er nýtt afbrigði á kreiki, sem sagt er upprunnið í New York borg, og breiðir úr sér óðfluga: XBB.1.5 heitir það en hefur verið gefið gælunafnið Kraken. Þetta afbrigði er svolítið ógnvænlegt, ekki síst vegna þess að það sýkir bólusetta að minnsta kosti jafn greiðlega og óbólusetta.
Þegar svona gleitt er á milli fyrirliggjandi gagna og ríkjandi frásagnar reyna einhverjir að glöggva sig á því hvað veldur, hvaða hagsmunir liggja að baki bjöguninni. Og þar opnast geópólitíska víddin. Einhverjir óttast að vestræn stjórnvöld geri sér nú grein fyrir stöðu og þróun faraldursins, að hann setji heilbrigðiskerfin á hliðina, það horfi ekki til betri vegar, að til lengdar sé ekki nóg að gera ekki neitt. Um leið vilji þau fyrir alla muni ekki taka ábyrgð á því sjálf. Hvað gæti þá verið heppilegra en opnunin í Kína, að geta bent þangað, og sagt almenningi í vestri þá sögu að áform stjórnvalda hafi öll gengið samkvæmt áætlun og framtíðin verið björt, allt þar til kínversk stjórnvöld felldu niður sóttvarnir og settu planið úr skorðum?
Þetta er auðvitað óvísindalegt spálíkan, háð óþekktum stærðum og með verulegum skekkjumörkum, en ef það stenst þá má sjá fram á eftirfarandi atburðarás:
- Að ráðherrar ESB segist hafa reynt að ná samkomulagi um að takmarka ferðir kínverskra ríkisborgara með hnitmiðuðum sóttvörnum en það hafi því miður, á einn veg eða annan, að svo og svo miklu leyti, mistekist.
- Stuttu síðar tilkynni ráðherrar í löndum Evrópu um nýjar sóttvarnaraðgerðir innanlands. Það verði bland í poka af þekktum aðferðum: fjöldatakmarkanir hér, grímuskylda þar, eftir útbreiðslu smita og smekk hvers lands.
- Þau munu gæta að því að segja óþarft að kenna neinum um, allt sé þetta illviðráðanlegt, og alls ekki tilefni til að kynda undir andúð milli heimshluta – en láta um leið í það skína, hver með sínum hætti, að samt sé þetta nú eiginlega Kína að kenna.
Já, það er ábyrgðarlaust að tala svona um óorðna hluti. Vonandi bregst spáin strax á morgun. En völvuleikir leyfast um áramót.
Við vitum aftur á móti þetta: að í dag, þriðjudaginn 3. janúar 2023, birtu Almannavarnir nýuppfærð gögn. Sérfræðingum brá þegar hlutdeild Kraken meðal greindra smita í New York-borg stökk úr 20 í 40 prósent á einni viku, milli jóla og nýárs, enda er sú tvöföldun heldur galinn hraði. Viku síðar, nú um áramótin, virðist hlutdeild Kraken í íslenska veirupollinum hafa aukist enn hraðar milli vikna, úr 23 í 54 prósent.1 Kannski verður allt í stakasta lagi. Kannski, það er nafnið á bláþræðinum sem við höngum í. En Kraken er kominn.