Kraken

04.1.2023 ~ 5 mín

Vorið 2020, þegar fyrst heyrð­ist af pest­inni sem stuttu síðar fékk nafnið Covid-19, þá birt­ust ógnvæn­legar frétta­myndir frá Kína. Myndir frá sjúkra­húsum, myndir af götum úti, myndir af fólki sem dó bara þar sem það stóð, myndir af líkum á gang­stéttum – voru þetta áreið­an­legar myndir? Var heim­ildin traust? Þær flugu í það minnsta einhvern veginn um miðl­ana, ásamt myndum af viðbragð­inu, fólki í hazmat-búningum, úðandi spritti um háskóla­bygg­ingar og íþrótta­leik­velli, setj­andi slag­branda fyrir hlið, logsjóð­andi hurðir – skelfi­legar myndir.

Tveimur árum síðar, þegar Vest­ur­lönd ákváðu eitt af öðru að láta pest­ina geisa, meira eða minna fyrir­stöðu­laust, þá birt­ust engar myndir frá sjúkra­hús­unum, engar myndir af þeim sem hnigu niður og dóu fyrir­vara­laust. Hér urðu 200 dauðs­föll af völdum pest­ar­innar á nýliðnu ári en af þeim birt­ust engar skelfi­legar myndir. Stundum hefur hvarflað að mér að það hafi verið helsta keppikefli stjórn­valda í viður­eign­inni við farald­ur­inn, ekki hvernig hægt væri að draga úr dauðs­föllum og alvar­legum veik­indum heldur hvernig forð­ast mætti skelfi­legar myndir.

Enn birt­ust fréttir það ár, og myndir með, af því hvað ástandið væri skelfi­legt í Kína, en þá vegna þess að þar væri faraldr­inum enn haldið í skelfum. Úðakút­arnir, aftur, hazmat-fötin, aftur.

Nú þegar pestin hefur gengið ljósum logum um Vest­ur­lönd í tæpt ár og er loks hleypt lausri í Kína líka, þá birt­ast enn skelfi­legar myndir – þaðan. Ekki héðan. Hér hætta hjúkr­un­ar­fræð­ingar og læknar við Land­spít­al­ann unnvörpum störfum vegna viðvar­andi álags, hér biður spít­al­inn fólk um að leita heldur til Heilsu­gæsl­unnar, Heilsu­gæslan segir fólki að halda sig frekar heima, hér þarf umtals­verða áhættu­sækni til að leita á náðir heil­brigðis­kerf­is­ins enda óljóst hvort fleiri lækn­ast þar eða veikj­ast. En í kvöld­fréttum sjón­varps birt­ast frétta­myndir af yfir­fullum sjúkra­húsum – í Kína. Álagið þar þyki nokkuð alvarlegt.

Á morgun ætla ráðherrar Evrópu­sam­bands­ins að ræða mögu­leik­ann á samhentum aðgerðum til að takmarka ferða­lög kínverskra ríkis­borg­ara um lönd Evrópu. Vegna faraldursins.

Ef marka má mynd­irnar, mynd­ræna fram­setn­ingu fréttamiðla og áherslur í fyrir­sögnum, þá er ljóst að veiran SARS2 er mann­skæð drep­sótt í Kína og þegar hún berst frá Kína en að mestu skað­laust kvef þegar hún smit­ast milli Vesturlandabúa.

Enn hefur ekki borið á nýju afbrigði frá Kína. Hins vegar er nýtt afbrigði á kreiki, sem sagt er upprunnið í New York borg, og breiðir úr sér óðfluga: XBB.1.5 heitir það en hefur verið gefið gælu­nafnið Kraken. Þetta afbrigði er svolítið ógnvæn­legt, ekki síst vegna þess að það sýkir bólu­setta að minnsta kosti jafn greið­lega og óbólusetta.

Þegar svona gleitt er á milli fyrir­liggj­andi gagna og ríkj­andi frásagnar reyna einhverjir að glöggva sig á því hvað veldur, hvaða hags­munir liggja að baki bjög­un­inni. Og þar opnast geópóli­tíska víddin. Einhverjir óttast að vest­ræn stjórn­völd geri sér nú grein fyrir stöðu og þróun farald­urs­ins, að hann setji heil­brigðis­kerfin á hlið­ina, það horfi ekki til betri vegar, að til lengdar sé ekki nóg að gera ekki neitt. Um leið vilji þau fyrir alla muni ekki taka ábyrgð á því sjálf. Hvað gæti þá verið heppi­legra en opnunin í Kína, að geta bent þangað, og sagt almenn­ingi í vestri þá sögu að áform stjórn­valda hafi öll gengið samkvæmt áætlun og fram­tíðin verið björt, allt þar til kínversk stjórn­völd felldu niður sótt­varnir og settu planið úr skorðum?

Þetta er auðvitað óvís­inda­legt spálíkan, háð óþekktum stærðum og með veru­legum skekkju­mörkum, en ef það stenst þá má sjá fram á eftir­far­andi atburðarás:

  1. Að ráðherrar ESB segist hafa reynt að ná samkomu­lagi um að takmarka ferðir kínverskra ríkis­borg­ara með hnit­mið­uðum sótt­vörnum en það hafi því miður, á einn veg eða annan, að svo og svo miklu leyti, mistekist.
  2. Stuttu síðar tilkynni ráðherrar í löndum Evrópu um nýjar sótt­varn­ar­að­gerðir innan­lands. Það verði  bland í poka af þekktum aðferðum: fjölda­tak­mark­anir hér, grímu­skylda þar, eftir útbreiðslu smita og smekk hvers lands.
  3. Þau munu gæta að því að segja óþarft að kenna neinum um, allt sé þetta illvið­ráð­an­legt, og alls ekki tilefni til að kynda undir andúð milli heims­hluta – en láta um leið í það skína, hver með sínum hætti, að samt sé þetta nú eigin­lega Kína að kenna.

Já, það er ábyrgð­ar­laust að tala svona um óorðna hluti. Vonandi bregst spáin strax á morgun. En völvu­leikir leyf­ast um áramót.

Við vitum aftur á móti þetta: að í dag, þriðju­dag­inn 3. janúar 2023, birtu Almanna­varnir nýupp­færð gögn. Sérfræð­ingum brá þegar hlut­deild Kraken meðal greindra smita í New York-borg stökk úr 20 í 40 prósent á einni viku, milli jóla og nýárs, enda er sú tvöföldun heldur galinn hraði. Viku síðar, nú um áramótin, virð­ist hlut­deild Kraken í íslenska veirupoll­inum hafa aukist enn hraðar milli vikna, úr 23 í 54 prósent.1 Kannski verður allt í stak­asta lagi. Kannski, það er nafnið á bláþræð­inum sem við höngum í. En Kraken er kominn.

References
1 Sjá neðsta súlu­ritið, súluna lengst til hægri, appel­sínu­gula hlut­ann. Þar eru öll undiraf­brigði BA.2 talin í einum bing, að meðtöldu þessu nýja sem er að slá svona ræki­lega í gegn. Takk fyrir ábend­ing­una, @birkirh.