Öndin milli flóða

01.1.2023 ~ 2 mín

Rosa sterk „erindi mínu hér er lokið, fleira var það ekki“-tilfinning sem fylgir því að ljúka svona fínu jólabókaflóði.

Fínu, ég á við móttök­urnar. Takk. Innilega.


Þetta hefur verið ljúft frí, jólin, milli­bilið og áramótin. Maginn fullur, haus­inn tómur.


Og gott skaup. Frábært, jafn­vel. Mér sýnd­ist óvenju lítið af flug­eldum á lofti í Reykja­vík. Nóg, ég kvarta ekki, þetta var stór­fínt. Bara minna en stundum, held ég. Líklega eru fréttir frá bráða­mót­töku um að enginn hafi leitað þangað vegna flug­elda­slyss til marks um það sama. Á twitter sé ég New York-búa tala um að áramótagleðin á Times torgi hafi verið með hófstillt­ara móti. Low energy, segir fólk. Í Berlín hefur áramóta­árásum á lögreglu­menn víst fækkað jafnt og þétt frá því að heims­far­ald­ur­inn hófst. Aðrar fréttir sé ég ekki þaðan. Ég veit ekki hvað þetta þýðir. Pest­irnar sem sliga nú Vest­ur­lönd, víðast hvar, hver ofan í aðra? Erum við öll svona þreytt? Eða eru bara kynslóð­irnar sem vöndu sig á áfeng­isneyslu svona lúnar á meðan þær yngri, sem drekka minna, drekka minna?


Ég fékk víst ekki ritlaun. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að býsn­ast yfir því, en það hefur fátt upp á sig. Í bráð, að minnsta kosti. Eins og kemur skýrt fram í annars knöppu skeyti stjórn­ar­innar: „Bent er á að samkvæmt 21. gr. stjórn­sýslu­laga, nr. 37/1993, ber stjórn­valdi ekki að veita rökstuðn­ing þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menn­ingar eða vísinda.“


Þannig að. Ég segi ekki að mig vanti vinnu. En mig mun vanta pening. Held ég. Árið er autt blað. Og eitt leiðir þar af öðru, samkvæmt hefð og mark­aðs­lög­málum. Mest langar mig að sitja bara hér þar til ég verð beðinn um eitt­hvert viðvik. Nei, það er ekki ýkja próaktíf nálgun. En ég er líka enn að melta. Áðan át ég önd. Önd! Gef melt­ing­ar­far­veg­inum nokkra daga enn.

Gleði­legt ár!