Nei. Djók. Ég er bara að velta fyrir mér hvað ég á að gera við þetta blogg. Ég er auðvitað líka að velta því fyrir mér hvað ég á að gera við þetta ár og þar með sjálfan mig. Tímann og mig. Það hvarflaði að mér að heita sjálfum mér því að blogga að minnsta kosti einu sinni á dag og hver einasta bloggfærsla yrði Topp tíu-listi. Ég byrjaði, hófst handa við að skrifa Topp-tíu lista, það var í gær en hann var svo leiðinlegur að strax í dag man ég ekki um hvað hann var. Ég man bara að ég hætti á fjórða eða fimmta atriði.
XBB.1.5. Nýtt afbrigði kórónuveirunnar SARS‑2, þeirrar sem veldur Covid-19. Nánar til tekið afkomandi tveggja undirafbrigða BA.2, sem er aftur undirafbrigði ómíkron-afbrigðis veirunnar. XBB.1.5 er með öðrum orðum undir-undir-afbrigði. Á þessu landi hér birtast ekki nein gögn í þeirri upplausn um þessar mundir, í súluriti Almannavarna heita öll afbrigði í umferð einfaldlega BA.2 eða BA.5. Og vegna þess að stökkbreytingarnar halda áfram og afbrigðin eru svo mörg, vegna þess hvernig bókstafirnir, punktarnir og tölustafirnir hlaðast upp og vegna þess að við getum oftast látið okkkur standa á sama um þau, praktískt séð hafa þau verið hvert öðru lík, þá ákvað einhver að gefa þessu tiltekna afbrigði, þessu undir-undir-afbrigði, nafn. Það heitir nú Kraken.
Kraken er heitið á sæskrímsli sem fyrst var ritað um á 18. öld. Það var talið halda sig hér um slóðir. Það eða þau, ég hef ekki alveg áttað mig á því hvort þetta er eintala eða fleirtala. Og hvort n‑ið er hugsanlega greinir. Það var sagt dvelja hér í Norður-Atlantshafi. Sumir lögðu það að jöfnu við Hafgufu, skrímsli sem er þekkt úr íslenskum miðaldabókmenntum. Ég hef ekki kafað í þetta efni, en Hafgufu virðist oftar hafa verið lýst sem óvenju stórum hval, en Kraken sem óvenju stórum kolkrabba eða smokkfisk. Bæði dvöldust þau í þoku og bæði sökktu þau skipum, skilst mér.
Kraken, Krækla, Krækill eða Hafgufa – nýja undir-undir-afbrigðið er nú að gera usla í Bandaríkjunum, þar sem það greindist fyrst. Hlutdeild þess í nýjum smitum óx úr 20% í 40% á einni viku, rétt í þessu. Sem þykir til marks um að það ryðjist frekar gegnum fengið ónæmi en önnur afbrigði, það er gegnum bólusetningar og fyrri smit. Og þar sem Kraken fer um, þar hefur víst þegar orðið vart við svolitla aukningu á innlögnum.
Hvaða þýðingu hefur það? Því ræður auðvitað skrímslið ekki heldur við. Og ég geri ekki ráð fyrir að nokkur þýðing verði lögð í það nú frekar en á síðasta ári, við erum siðmenntað fólk og ypptum öxlum yfir veikindum og dauða, ekki aðeins annars fólks, heldur okkar eigin, látum ekki farsóttir standa í vegi langana okkar, leggjumst ekki svo lágt að verjast örverum eins og barbarar heldur bjóðum þeim hinn vangann.
Annars held ég að ástæða þess að valinkunnir vísindamenn vekja athygli á þessu afbrigði núna sé ekki síður geópólitísk en faraldsfræðileg. Sem þýðir ekki að það sé rangt eða úr lausu lofti gripið. Meira um það, kannski, síðar.
Nú er nótt. Ég er orðinn þreyttur. Tímabært að horfast í augu við það. Gera eitthvað í því.