Tíu verstu Topp tíu-listar allra tíma

02.1.2023 ~ 3 mín

Nei. Djók. Ég er bara að velta fyrir mér hvað ég á að gera við þetta blogg. Ég er auðvitað líka að velta því fyrir mér hvað ég á að gera við þetta ár og þar með sjálfan mig. Tímann og mig. Það hvarfl­aði að mér að heita sjálfum mér því að blogga að minnsta kosti einu sinni á dag og hver einasta blogg­færsla yrði Topp tíu-listi. Ég byrj­aði, hófst handa við að skrifa Topp-tíu lista, það var í gær en hann var svo leið­in­legur að strax í dag man ég ekki um hvað hann var. Ég man bara að ég hætti á fjórða eða fimmta atriði.


XBB.1.5. Nýtt afbrigði kórónu­veirunnar SARS‑2, þeirrar sem veldur Covid-19. Nánar til tekið afkom­andi tveggja undiraf­brigða BA.2, sem er aftur undiraf­brigði ómíkron-afbrigðis veirunnar. XBB.1.5 er með öðrum orðum undir-undir-afbrigði. Á þessu landi hér birt­ast ekki nein gögn í þeirri upplausn um þessar mundir, í súlu­riti Almanna­varna heita öll afbrigði í umferð einfald­lega BA.2 eða BA.5. Og vegna þess að stökk­breyt­ing­arnar halda áfram og afbrigðin eru svo mörg, vegna þess hvernig bókstaf­irnir, punkt­arnir og tölustaf­irnir hlað­ast upp og vegna þess að við getum oftast látið okkkur standa á sama um þau, praktískt séð hafa þau verið hvert öðru lík, þá ákvað einhver að gefa þessu tiltekna afbrigði, þessu undir-undir-afbrigði, nafn. Það heitir nú Kraken.

Kraken er heitið á sæskrímsli sem fyrst var ritað um á 18. öld. Það var talið halda sig hér um slóðir. Það eða þau, ég hef ekki alveg áttað mig á því hvort þetta er eintala eða fleir­tala. Og hvort n‑ið er hugs­an­lega greinir. Það var sagt dvelja hér í Norður-Atlants­hafi. Sumir lögðu það að jöfnu við Hafgufu, skrímsli sem er þekkt úr íslenskum miðalda­bók­menntum. Ég hef ekki kafað í þetta efni, en Hafgufu virð­ist oftar hafa verið lýst sem óvenju stórum hval, en Kraken sem óvenju stórum kolkrabba eða smokk­fisk. Bæði dvöld­ust þau í þoku og bæði sökktu þau skipum, skilst mér.

Kraken, Krækla, Kræk­ill eða Hafgufa – nýja undir-undir-afbrigðið er nú að gera usla í Banda­ríkj­unum, þar sem það greind­ist fyrst. Hlut­deild þess í nýjum smitum óx úr 20% í 40% á einni viku, rétt í þessu. Sem þykir til marks um að það ryðj­ist frekar gegnum fengið ónæmi en önnur afbrigði, það er gegnum bólu­setn­ingar og fyrri smit. Og þar sem Kraken fer um, þar hefur víst þegar orðið vart við svolitla aukn­ingu á innlögnum.

Hvaða þýðingu hefur það? Því ræður auðvitað skrímslið ekki heldur við. Og ég geri ekki ráð fyrir að nokkur þýðing verði lögð í það nú frekar en á síðasta ári, við erum siðmenntað fólk og ypptum öxlum yfir veik­indum og dauða, ekki aðeins annars fólks, heldur okkar eigin, látum ekki farsóttir standa í vegi lang­ana okkar, leggj­umst ekki svo lágt að verj­ast örverum eins og barbarar heldur bjóðum þeim hinn vangann.


Annars held ég að ástæða þess að valin­kunnir vísinda­menn vekja athygli á þessu afbrigði núna sé ekki síður geópóli­tísk en faralds­fræði­leg. Sem þýðir ekki að það sé rangt eða úr lausu lofti gripið. Meira um það, kannski, síðar.


Nú er nótt. Ég er orðinn þreyttur. Tíma­bært að horf­ast í augu við það. Gera eitt­hvað í því.