Að vera bátur

19.2.2023 ~ 2 mín

Nú sinni ég nefnd­ar­störfum í fyrsta sinn frá því í mennta­skóla. Það er í fyrsta sinn í aldar­fjórð­ung. Nefndin hefur enn ekki fundað, hún þarf að gera það á næst­unni, í eitt skipti, og jafn­harðan verður hún lögð niður. Mér finnst það nokkuð temmi­legt, snyrti­legt form á nefnd.

Þegar ég segi á ég við þessa dagana. Ekki hér og nú, þetta augna­blik. Nema að því leyti sem nefnd­ar­maður hlýtur að vera nefnd­ar­maður eins þegar hann er að gera eitt­hvað annað og ótengt. Hvað þá einmitt rétt á meðan hann færir það í orð að hann sé nefnd­ar­maður. Hugs­an­lega hef ég þá aldrei verið jafn fylli­lega nefnd­ar­maður og einmitt í þessum orðum skrifuðum.


Eurostat birti tölur um umframdauðs­föll í nýliðnum desem­ber, það er desem­ber 2022. Umframdauðs­föll í merk­ing­unni dauðs­föll umfram meðal­tal áranna 2016–2019, síðustu fjögur árin áður en heims­far­ald­ur­inn hófst. Og nú fjölg­aði umframdauðs­föllum veru­lega milli mánaða: í nóvem­ber dóu í ríkjum ESB um 8% fleiri en hefði mátt vænta miðað við nóvem­ber­mán­uði fyrir farald­ur­inn, en í desem­ber 19% fleiri en áður hefði mátt vænta af desem­ber­mán­uðum. Samkvæmt frétta­til­kynn­ingu sem fylgdi gögn­unum voru umfraumdauðs­föll jóla­mán­að­ar­ins flest í Þýskalandi eða 37%. En þá eru aðeins talin aðild­ar­ríki sambands­ins. Á Íslandi stukku umframdauðs­föll, samkvæmt sömu heim­ild, á sama tíma úr 12% upp í 43%. Það er: 43% fleiri dóu hér í desem­ber en gerðu að jafn­aði í þeim mánuði á árunum fyrir faraldur. Þessi uppsveifla í dauðs­föllum liggur miðja vegu milli bylgjutopps­ins í mars, þegar fyrsta Omicron-bylgjan reis hæst (54%), og sumar­bylgj­unnar í júlí (36%). Nú undir áramót spurð­ist auðvitað eitt­hvað um álag á sjúkra­húsin og innlagnir vegna „öndun­ar­færa­sjúk­dóma“ eins og það er kallað nú, þegar pest­irnar eru settar í einn bing til að enginn þurfi að segja Covid. Og enginn sagði heldur bylgja. En margir hóstuðu.


Mér láðist að koma vetr­ar­dekkjum undir bíl í tæka tíð fyrir snjó­inn, svo hann stendur og bíður varan­legri hláku, hefur nú gert það síðan í desem­ber. Það er í annað skiptið í vetur, önnur tveggja mánaða lotan sem bíll­inn fær í stæð­inu sínu.

Gæti ég flýtt þessu ferli, hefði ég jafn­vel getað komið betri dekkjum undir bílinn þarna á milli snjóa? Já, auðvitað. En það hefur ekki legið neitt á heldur. Þetta er svolít­ill sumar­bíll. Hentar vel til að skreppa í Heið­mörk. Ég geri ekki mikið af því þessa dagana hvort eð er.

Um leið hef ég verið að láta á það reyna að fylgja veðr­inu á svip­aðan hátt sjálfur, mæla mér helst aðeins mót við fólk utan­dyra, og bíða þá eftir að veður leyfi, þegar svo ber við. Vera ekki spít­t­bátur heldur seglskúta. Kanna kosti þess og galla. Rann­sóknin stendur enn yfir og því ótíma­bært að fjöl­yrða um niður­stöður, þær eru alls, alls ekki klárar.