Nú sinni ég nefndarstörfum í fyrsta sinn frá því í menntaskóla. Það er í fyrsta sinn í aldarfjórðung. Nefndin hefur enn ekki fundað, hún þarf að gera það á næstunni, í eitt skipti, og jafnharðan verður hún lögð niður. Mér finnst það nokkuð temmilegt, snyrtilegt form á nefnd.
Þegar ég segi nú á ég við þessa dagana. Ekki hér og nú, þetta augnablik. Nema að því leyti sem nefndarmaður hlýtur að vera nefndarmaður eins þegar hann er að gera eitthvað annað og ótengt. Hvað þá einmitt rétt á meðan hann færir það í orð að hann sé nefndarmaður. Hugsanlega hef ég þá aldrei verið jafn fyllilega nefndarmaður og einmitt í þessum orðum skrifuðum.
Eurostat birti tölur um umframdauðsföll í nýliðnum desember, það er desember 2022. Umframdauðsföll í merkingunni dauðsföll umfram meðaltal áranna 2016–2019, síðustu fjögur árin áður en heimsfaraldurinn hófst. Og nú fjölgaði umframdauðsföllum verulega milli mánaða: í nóvember dóu í ríkjum ESB um 8% fleiri en hefði mátt vænta miðað við nóvembermánuði fyrir faraldurinn, en í desember 19% fleiri en áður hefði mátt vænta af desembermánuðum. Samkvæmt fréttatilkynningu sem fylgdi gögnunum voru umfraumdauðsföll jólamánaðarins flest í Þýskalandi eða 37%. En þá eru aðeins talin aðildarríki sambandsins. Á Íslandi stukku umframdauðsföll, samkvæmt sömu heimild, á sama tíma úr 12% upp í 43%. Það er: 43% fleiri dóu hér í desember en gerðu að jafnaði í þeim mánuði á árunum fyrir faraldur. Þessi uppsveifla í dauðsföllum liggur miðja vegu milli bylgjutoppsins í mars, þegar fyrsta Omicron-bylgjan reis hæst (54%), og sumarbylgjunnar í júlí (36%). Nú undir áramót spurðist auðvitað eitthvað um álag á sjúkrahúsin og innlagnir vegna „öndunarfærasjúkdóma“ eins og það er kallað nú, þegar pestirnar eru settar í einn bing til að enginn þurfi að segja Covid. Og enginn sagði heldur bylgja. En margir hóstuðu.
Mér láðist að koma vetrardekkjum undir bíl í tæka tíð fyrir snjóinn, svo hann stendur og bíður varanlegri hláku, hefur nú gert það síðan í desember. Það er í annað skiptið í vetur, önnur tveggja mánaða lotan sem bíllinn fær í stæðinu sínu.
Gæti ég flýtt þessu ferli, hefði ég jafnvel getað komið betri dekkjum undir bílinn þarna á milli snjóa? Já, auðvitað. En það hefur ekki legið neitt á heldur. Þetta er svolítill sumarbíll. Hentar vel til að skreppa í Heiðmörk. Ég geri ekki mikið af því þessa dagana hvort eð er.
Um leið hef ég verið að láta á það reyna að fylgja veðrinu á svipaðan hátt sjálfur, mæla mér helst aðeins mót við fólk utandyra, og bíða þá eftir að veður leyfi, þegar svo ber við. Vera ekki spíttbátur heldur seglskúta. Kanna kosti þess og galla. Rannsóknin stendur enn yfir og því ótímabært að fjölyrða um niðurstöður, þær eru alls, alls ekki klárar.