Allir mávar eru jafn stórir

21.2.2023 ~ 2 mín

Fasta­gestir á þessu bloggi eru ekki margir og hugs­an­lega er ég að ávarpa alfarið ímynd­aðan lesanda þegar ég segi: þið sjáið að ég er að prófa mig áfram með taktík hérna, ég er að láta eins og ég hafi frá einhverju áhuga­verðu að segja úr hvers­dags­lífi mínu, og hjúpa þannig fréttir af þessu-sem-við-tölum-ekki-um með einhverju sem rennur kannski ljúf­legar niður. Kannski er það ekki einu sinn fyrir ímynd­aða lesendur, kannski er það bara fyrir sjálfan mig – þó að bilið milli heimanna tveggja sé ekki beint brúan­legt, milli raun­veru­leik­ans, það er, þar sem mér sýnist þessi ógn enn skipta tölu­verðu máli og svið­setn­ing­ar­innar þar sem hún er ekki til, þá er hugs­an­lega hægt að færa þá þétt upp hvorn að öðrum. Að gjáin sé djúp þýðir ekki að hún þurfi að vera breið.


Á sunnu­dag fórum við Dísa í bíltúr niður að sjó. Við ætluðum í göngu­túr en þótti ekki vært utan bíls­ins vegna þessa blauta roks, slydd­unnar sem fauk framan í mann umsvifa­laust, það er eins og að vera sleiktur í framan af dómgreind­ar­lausum hundi, 120 sinnum á mínútu. Og hvað það var samt nota­legt að horfa út um framrúð­una yfir sjóinn og rokið, fylgj­ast með mávunum, á meðan rúðu­þurrk­urnar önnuð­ust slefið. Fyrst horfir maður, því framrúðan gerir alla hluti að kvik­mynd, og síðan leitar maður skýr­inga: hvers vegna láta mávarnir hafa sig út í að fljúga í roki sem feykir þeim fram og aftur og virð­ist gera dýfingar, ef ekki ómögu­legar þá ónákvæmar, jafn­vel hættu­legar? Hvers vegna leita þeir ekki frekar skjóls á meðan veðrið gengur yfir? Tvær mögu­legar skýr­ingar stungu upp koll­inum. Sú fyrri: að í rokinu bjóð­ist fugl­unum eitt­hvert æti sem finnst ekki þess utan, einhverjir smáfiskar leiti að yfir­borð­inu, ástæðan fyrir áhættuí­þrótt­inni sé með öðrum orðum hagræn. Hin: að þeim finn­ist þetta gaman, áhættuí­þróttin sé í reynd íþrótt, dýrið þekki einhvers konar gleði í því að spreyta sig, dansa við vind­inn, slást við hann, svífa. Að vera mávur í roki sé þá ekki óskylt því að sörfa. Kannski vita allir þetta nema við, ég hef enn ekki gúglað þetta. Það hvarfl­aði að öðru hvoru okkar að full­yrða: Allir mávar eru jafn stórir. Og þá hvarfl­aði að hinu að það væri góður titill.


Ég ofnota stundum orðin auðvitað og kannski. Og klippi þau stundum út þegar ég les yfir. Stundum ekki. Kannski auðvitað.