Fastagestir á þessu bloggi eru ekki margir og hugsanlega er ég að ávarpa alfarið ímyndaðan lesanda þegar ég segi: þið sjáið að ég er að prófa mig áfram með taktík hérna, ég er að láta eins og ég hafi frá einhverju áhugaverðu að segja úr hversdagslífi mínu, og hjúpa þannig fréttir af þessu-sem-við-tölum-ekki-um með einhverju sem rennur kannski ljúflegar niður. Kannski er það ekki einu sinn fyrir ímyndaða lesendur, kannski er það bara fyrir sjálfan mig – þó að bilið milli heimanna tveggja sé ekki beint brúanlegt, milli raunveruleikans, það er, þar sem mér sýnist þessi ógn enn skipta töluverðu máli og sviðsetningarinnar þar sem hún er ekki til, þá er hugsanlega hægt að færa þá þétt upp hvorn að öðrum. Að gjáin sé djúp þýðir ekki að hún þurfi að vera breið.
Á sunnudag fórum við Dísa í bíltúr niður að sjó. Við ætluðum í göngutúr en þótti ekki vært utan bílsins vegna þessa blauta roks, slyddunnar sem fauk framan í mann umsvifalaust, það er eins og að vera sleiktur í framan af dómgreindarlausum hundi, 120 sinnum á mínútu. Og hvað það var samt notalegt að horfa út um framrúðuna yfir sjóinn og rokið, fylgjast með mávunum, á meðan rúðuþurrkurnar önnuðust slefið. Fyrst horfir maður, því framrúðan gerir alla hluti að kvikmynd, og síðan leitar maður skýringa: hvers vegna láta mávarnir hafa sig út í að fljúga í roki sem feykir þeim fram og aftur og virðist gera dýfingar, ef ekki ómögulegar þá ónákvæmar, jafnvel hættulegar? Hvers vegna leita þeir ekki frekar skjóls á meðan veðrið gengur yfir? Tvær mögulegar skýringar stungu upp kollinum. Sú fyrri: að í rokinu bjóðist fuglunum eitthvert æti sem finnst ekki þess utan, einhverjir smáfiskar leiti að yfirborðinu, ástæðan fyrir áhættuíþróttinni sé með öðrum orðum hagræn. Hin: að þeim finnist þetta gaman, áhættuíþróttin sé í reynd íþrótt, dýrið þekki einhvers konar gleði í því að spreyta sig, dansa við vindinn, slást við hann, svífa. Að vera mávur í roki sé þá ekki óskylt því að sörfa. Kannski vita allir þetta nema við, ég hef enn ekki gúglað þetta. Það hvarflaði að öðru hvoru okkar að fullyrða: Allir mávar eru jafn stórir. Og þá hvarflaði að hinu að það væri góður titill.
Ég ofnota stundum orðin auðvitað og kannski. Og klippi þau stundum út þegar ég les yfir. Stundum ekki. Kannski auðvitað.