Gestir Húss geta nú valið um dark mode, sem er grunnstilling, þá er þetta blogg án faraldurs, púff, það er hreint eins og hann hafi aldreið orðið, eða light mode, sem birtir allar færslur, að umfjöllun um faraldurinn meðtalinni.
Hnappurinn sem stýrir þessu, dýrasti hnappur Húss til þessa, er þannig sérsaminn til að koma til móts við þarfir ólíkra lesenda í brotnum heimi. Þjónustulund er orðið sem ég var að leita að … lesandinn hefur alltaf rétt fyrir sér?
Á forsíðuyfirlitinu birtist þessi færsla hér þannig aðeins þeim lesendum sem kjósa heldur að draga frá en fyrir.
Síðasta þriðjudag, það var á Valentínusardag, birtust uppfærðar tölur um dauðsföll ársins 2022 á vefnum covid.is. Staðfestum andlátum vegna Covid-19 fjölgaði þar með úr 199 í 211. Tólf hafa samkvæmt því látist í desember, árið á nú að heita fulltalið.
The Economist gerði könnun í samstarfi við YouGov í Bandaríkjunum, til að kanna afstöðu þarlendra til faraldursins. Það var um síðustu helgi, fram á Valentínusardag. Um helmingur Bandaríkjamanna lítur enn, samkvæmt könnuninni, á faraldurinn sem neyðarástand eða „national emergency“. Reyndar rúmur helmingur þeirra sem tóku afstöðu, alls 46%. 43% sögðust ekki gera það og 11% sögðust óviss. Yngri hópar líta þar frekar á faraldurinn sem neyðarástand en eldra fólk: 55% fólks á aldrinum 18–29 ára og 30–44, en aðeins 36% eldri borgara. Þá kemur ekki á óvart að frjálslyndir eða vinstrisinnaðir kjósendur Bidens líta miklu frekar á faraldurinn sem neyðarástand (63–66%) en íhaldssamir kjósendur Trumps (20–23%).
Ég geri ráð fyrir að sambærileg könnun hér á landi myndi leiða í ljós að í faraldsfræðilegu tilliti séu íbúar Íslands upp til hópa trömpmegin í lífinu. Jafnvel vinstrið. Enn veit ég ekki alveg af hverju.
Á Vísi sé ég stutt viðtal við frábæran íslenskan hönnuð sem starfar í New York og segir hvað öll viðmið um vinnu hafi breyst þar í faraldrinum, fólk vinni nú heiman frá sér, jafn mikið og kostur er. Hvers vegna? Þau hafi bara uppgötvað hvað það er næs, í faraldrinum. Hann segir Íslendinga enn ekki hafa kveikt jafn vel á þessu.
Yfirleitt berast svona lífsstílsbylgjur frá uppsprettunum hingað fyrr eða síðar, það er ekki ólíklegt að fólk í þessum hluta millistéttarinnar fari að leggja sig eftir sama vinnulagi hér á næstu árum. En vegna þess að hér er almennt litið svo á að faraldrinum sé lokið er ekki víst að sögunni fylgi, þegar þar að kemur, rökvísin að baki, hvers vegna þetta varð svona eftirsóknarvert.
Og kannski nær þessi bylgja ekki fótfestu hér fyrir vikið. Mótstaðan yrði í öllu falli sterk, frá þeim hluta atvinnulífsins sem er meira umhugað um vald yfir öðrum en jafnvel um efnahagslegan ávinning.