Nú á mánudag birti CNBC frétt undir fyrirsögninni Long Covid has an ‘underappreciated’ role in labor shortage, study finds eða: Samkvæmt rannsókn á Long Covid vanmetinn þátt í skorti á vinnuafli. Hversu veigamikinn þátt? Um 23 milljónir Bandaríkjamanna eru þar sögð kljást við sjúkdóminn. (Enn vantar gott orð yfir langvinnt Covid á íslensku, til aðgreiningar frá bráðaveikindunum. Héðan af nota ég bara skammstöfunina LC.)
Milljónir út
23 milljónir Bandaríkjamanna kljást við LC. Af þeim hafa 18% ekki snúið aftur á vinnumarkað í ár eða meira, vegna veikindanna, eða um fjórar milljónir. Önnur 40%, eða um níu milljón manns, sneru til vinnu innan tveggja mánaða frá sýkingu en voru þó enn háð læknismeðferð, unnu skemmri vinnudag, afköstuðu minna, o.s.frv. Bandarískt vinnuafl telur alls um 160 milljónir. Þær fjórar milljónir manna sem hurfu af vinnumarkaði eru þá um 2,5% alls vinnandi fólks í landinu. Önnur 5,5% starfa með skertri getu, alls um 8% vinnuafls horfið eða laskað, vegna LC.
Það er veigamikil hagstærð. Gerum ráð fyrir að þessi hlutföll séu svipuð alls staðar þar sem faraldurinn hefur geisað – að breyttu breytanda. 5–10% vinnuafls ýmist úr leik eða skert vegna LC. Það er klípa fyrir hagkerfin. Og ekki auðvelt að kalla til nýjar hendur ef sama staða er uppi um allan heim, eins og sýnilegast hefur orðið vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki.
Vont fyrir hvern sem fyrir verður. Fjöldinn undirstrikar alvarlegar spurningar um ákvarðanatöku stjórnvalda, réttlæti og ranglæti, hverjir beri kostnaðinn af afnámi sóttvarna, með lífi sínu, heilsu, lífsgæðum og afkomu, hvort og hvernig það skuli bætt og svo framvegis. En hér og nú læt ég það liggja á milli hluta, fylgi tíðarandanum og horfi aðeins á hagstærðina.
Milljónir inn
Skortur á vinnuafli hefur, að öðru óbreyttu, í för með sér kjarabætur hinna spræku, samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar. Því færra hæft og hraust starfsfólk, því meira er keppt um það, því betri kjara geta þau krafist. Meðal þekktra dæma þess í sögu Íslands eru móðuharðindin á seinni hluta 18. aldar. Að þeim loknum, þegar um fjórðungur landsmanna hafði látið lífið á þremur árum, tók við góðæri með auknum jöfnuði meðal eftirlifenda. Almennt er litið svo á að þar hafi skortur á vinnufólki ráðið mestu, það vinnufólk sem lifði gat þá gert meiri kröfur en áður til húsbændanna sem sóttust eftir kröftum þess. Atvinnurekendur þurftu að keppa um starfsfólk, en ekki öfugt.
Atvinnurekendur vilja auðvitað ódýrt vinnuafl og nóg af því. Þess vegna er sú stétt í Bandaríkjunum nú svolítið á nálum. En hvers vegna eru kollegar þeirra á Íslandi og í Evrópuríkjum það ekki? Eða stjórnvöld? Hvers vegna virðist enginn hér á nálum yfir skorti á vinnuafli af völdum faraldursins?
Á sunnudag flutti RÚV þá frétt að enn megi búast við fleiri flóttamönnum frá Úkraínu til landa Evrópu á þessu ári. Þar var rætt við Martin Hoffmann, sérfræðing á vegum stofnunarinnar International Center for Migration Policy Development (ICMPD). Greint var frá þeim milljónum sem þegar hafa flúið Úkraínu og þeim milljónum sem vænta má að flýi til viðbótar. Aðlögun þeirra hefur að mestu gengið framar vonum, sagði fréttamaður, „ekki síst vegna þess að störf hafa verið í boði“. Hoffmann bætti við: „Staðan á vinnumörkuðunum er allt önnur en fyrir fáum árum. Nú skortir vinnuafl í grunninn.“ Structured undersupply of labour force var enska orðalagið.1
Jafnvægislist dauðans
Evrópa er fjölmennari en Bandaríkin, innan ESB teljast 200 milljónir á vinnumarkaði. Ef hlutfall þeirra sem heltast úr lestinni sökum LC er svipað í báðum álfum, má vænta þess að um fimm milljónir hafi nú horfið af vinnumarkaði ESB og dregið úr afköstum annarra tíu miljóna. Um átta milljón manns hafa nú flúið Úkraínu, flest til annarra Evrópuríkja. Stærðirnar eru með öðrum orðum, enn sem komið er, sambærilegar, fjöldi þeirra sem hverfa frá og fjöldi þeirra sem koma í staðinn. Plágan myndaði tómarúm á vinnumarkaði. Stríðið, að því leyti sem stríð er fólksflóttaverksmiðja, fyllir það jafnóðum. Stríðið gerir þá löndum Evrópu kleift að láta faraldurinn gossa án þess að dauðsföll og veikindi starfsfólks bitni verulega á atvinnurekendum. Og manntjónið af völdum faraldursins gerir ríkjunum um leið auðveldara að una við stríðsátökin og fólksflóttann sem þau framleiða, án mikillar félagslegrar ólgu.
Ef þetta er tilfellið – og það er rétt að hafa alla fyrirvara við það, þetta hér er ekki ritrýnd heimild, þetta er bara eldhús – en ef stærðirnar kallast í reynd svona á, þá hlýtur það að vera ömurlegasta jafnvægisástand sem álfan hefur glópast gegnum í seinni tíð. Ef hagkerfi álfunnar hafa nú gerð sig háð þessu jafnvægi á milli stríðsins og plágunnar, þá virðist að því leyti ólíklegt að kapítalið í þeim sömu löndum leggi sig fram um að sporna gegn öðru eða hinu. Þar með er ekkert sagt um innræti fyrirtækjaeigenda, sem geta allir grátið yfir kvöldfréttunum, hver fyrir sig, dag eftir dag. En kapítalið þeirra þekkir sinn hag. Frá sjónarhorni þeirrar skepnu virðast þessar tvenns konar hörmungar vega hvor aðra upp, enn sem komið er. Tárið á vinstri kinn þerrir tárið á þeirri hægri og öfugt.
Stríð og plága eru hjón, kyssast upp á títuprjón, eins og Marx sagði. Svo langt sem það nær. Vinnuafl Úkraínu telst í heild aðeins um 20 milljónir. Ef faraldurinn heldur áfram að tæta í sig heilsu fólks, ef annar eins fjöldi hverfur af vinnumarkaði Vesturlanda héðan í frá eins og hingað til, þá kemur auðvitað að því að flóttaframleiðslan í Úkraínu dugir ekki til að fylla í eyðurnar.
↑1 | Hoffmann bætti því við að flóttafólki frá Úkraínu væri vel tekið víðast hvar í Evrópu enda skæri það sig ekki úr í mannlífinu, ólíkt sumum öðrum hópum flóttamanna. „Logically,“ bætti hann svo við, eins og þessi greinarmunur velkominna og óvelkominna flóttamanna segði sig sjálfur. Um þann greinarmun og undirliggjandi rasisma þarf vitaskuld að ræða, en það er ekki viðfangsefni þessarar greinar. |
---|