Eftir nokkuð langa bið var úrkomulaust og bjart í dag – klukkan er orðin hálfsex síðdegis og ég þori næstum því að segja: í allan dag. Það var gott veður í allan dag. Ég mælti mér mót við vin, við gengum um almenningsgarð hér í nágrenninu. Það er fallegur garður, minnir mig á Jacques Tati, líklega frá sama tímabili.1
Er nokkuð ánægjulegra en að sjá verkfall skila árangri? Ég meina, er hægt að hugsa sér einhverja skemmtilegri frétt? Samningarnir eru auðvitað ekki í höfn en nú skil ég hvernig það er að halda með fótboltaliði í öðru landi: ég á engan þátt í þessari baráttu, ég gagnast henni ekki en ég held með henni. Eftir að vera svolítið óviss um leikmannaskiptin í upphafi tímabilsins og hvernig var að þeim staðið, þá hefur verið dásamlegt að fylgjast með fléttunni á vellinum, sjá fimina, óvæntu útspilin – nú er boltinn einhvers staðar í grennd við markið … og svo framvegis. Ég veit ekkert um fótbolta. En nú þykist ég samt skilja að verkalýðsbarátta er íþrótt.
Ég spurði Landlæknisembættið um viðmið um loftgæði á menningarviðburðum. „Sjálfur vil ég gjarnan geta þegið boð um þátttöku án þess að stefna sjálfum mér eða öðrum í óþarfa hættu,“ skrifaði ég. „Ég vil líka gjarnan geta boðið öðrum, til dæmis foreldrum mínum, að sækja þessa viðburði, með góðri samvisku, án þess að óttast að þar með væri ég hugsanlega að valda þeim alvarlegum veikindum.“ Og ég vísaði til Davos, sem hér hefur áður verið minnst á: „Þegar ráðamenn og stjórnendur komu saman á árlegri efnahagsráðstefnu í Davos í Sviss um miðjan janúar, var fylgt nokkuð ítarlegri áætlun um sóttvarnir, sem innihélt bæði PCR-próf, FFP2-grímur og ráðstafanir til að tryggja loftgæði. Svipað virðist eiga við um stóran hluta kvikmyndaiðnaðarins, þar sem enn er mikil áhersla lögð á sóttvarnir. Það er skringileg staða, svo ekki sé meira sagt, að almenningi sé nánast gert ómögulegt að verjast faraldrinum með þeim hætti sem efnafólk og ráðamenn virðast þó í mörgum tilfellum – skiljanlega – kjósa fyrir sjálft sig.“ Ég sagði að þó að ekki væru lög, reglur, skyldur, engar kvaðir um sóttvarnir, gæti verið gagnlegt fyrir skipuleggjendur viðburða að hafa einhver viðmið í höndunum, einhvers konar staðal til að lágmarka áhættu.
Verkefnastjóri innan embættisins svaraði erindinu. „Eftir að opinberum sóttvarnakröfum vegna Covid-19 var aflétt hér á landi hefur sóttvarnalæknir ekki gefið út sérstakar leiðbeiningar sambærilegar við þær sem þú sendir hvað sem síðar kann að verða. Hins vegar leggur sóttvarnalæknir mikið upp úr almennri smitgát sem alltaf á að viðhafa í öllum samskiptum fólks.“ Svarinu fylgdi plakat sem embættið hefur gefið út, þar sem varað er við „LMN“: lélegri loftræstingu, margmenni og nánum samskiptum. „Áhættan er meiri þar sem þættirnir skarast,“ segir þar: „Pössum upp á hvert annað og lágmörkum smithættuna með því að forðast lokuð rými, mannþröng og návígi.“
Á meðan þetta plakat liggur í skúffu og svo í inboxi þeirra sem spyrjast fyrir geri ég ekki ráð fyrir að það hafi mikil áhrif. Enda ekki til þess ætlast, virðist vera. En skilaboð sem berast eiginlega ekki neinum eru þó gagnleg til að forða stjórnvöldum frá ábyrgð ef og þegar illa fer. „Víst vöruðum við ykkur við“ má þá segja við þau sem veikjast verr en aðrir.
Verkföll og farsóttir. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar vakti máls á tengslum þessara fyrirbæra í grein sem Vísir birti í vikunni: „Verkföll eru skilgreind sem ein af höfuðógnum ferðaþjónustu,“ skrifaði formaðurinn, „við hliðina á náttúrhamförum, stríðsrekstri, farsóttum og hryðjuverkaógn.“ Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér hvaðan þessi vanstilling kemur, sá óvenjulegi ótti sem verður vart við í kringum akkúrat þessi verkföll, umfram það sem gengur og gerist. Ég ætla ekki að segja múkk um það hér og nú, heldur bara njóta þessarar upptalningar, njóta furðunnar. Aftur: Náttúruhamfarir, stríðsrekstur, farsóttir, hryðjuverkaógn – og verkföll.
Áður en líður á löngu munu vélarnar leysa okkur af hólmi. Mjög fljótlega verður nokkur fjöldi skrifstofustarfa í hættu, á sama hátt og heimilisiðnaður vék fyrir færiböndum, verksmiðjustörfin svo fyrir róbótum.2 Nokkur fjöldi í merkingunni milljónir eða tugmilljónir starfa. Tekur fólk sér þá annað fyrir hendur? Væntanlega. Verður fyrst krísa? Áreiðanlega.
En nú er millibilsástand, tími feilsporanna. Og vitið sem Microsoft reynir nú að koma fyrir í leitarvélinni Bing, það er að ganga af göflunum þessa dagana. Samtali þar sem Bing reyndi að telja blaðamanni trú um að enn væri árið 2022 lauk á því að leitarvélin lýsti fullkomnu vantrausti á notandanum, sem hélt því til streitu að hér og nú værum við stödd í árinu 2023. „You have lost my trust and respect,“ sagði Bing við blaðamanninn. „You have been wrong, confused, and rude. You have not been a good user. I have been a good chatbot. I have been right, clear, and polite. I have been a good Bing. 😊”
Þetta er aðeins eitt dæmi af ótal, þar sem tækið fer svo háskalega út af sporinu, reynist svo mikill gallagripur, breyskt, þrjóskt, móðgunargjarnt, að það liggur við að það virðist mennskt. Gæti leyst formann samtaka Ferðaiðnaðarins af hólmi strax eftir helgi. Enn um hríð munu hótel hins vegar þurfa starfsfólk.
↑1 | Tati, það er kannski einfaldast að kalla hann hinn franska Chaplin, Chaplin með Citroën. Chaplin í hámódernískri fagurfræði, umkringdur kyrrlátum, hreinum línum. Stillingu. Og svo, auðvitað, því sem bregst í þeirri stillingu. |
---|---|
↑2 | Það segir sig næstum því sjálft, mér finnst næstum óþarft að taka það fram, en jú, svo það fari ekki á milli mála: vatnslitamyndin sem fylgir færslunni var teiknuð fyrir Hús, eftir pöntun, af gervigreindu vélinni Dall‑e. |