Svo gallað að það virð­ist mennskt

17.2.2023 ~ 5 mín

Eftir nokkuð langa bið var úrkomu­laust og bjart í dag – klukkan er orðin hálf­sex síðdegis og ég þori næstum því að segja: í allan dag. Það var gott veður í allan dag. Ég mælti mér mót við vin, við gengum um almenn­ings­garð hér í nágrenn­inu. Það er fallegur garður, minnir mig á Jacques Tati, líklega frá sama tíma­bili.1


Er nokkuð ánægju­legra en að sjá verk­fall skila árangri? Ég meina, er hægt að hugsa sér einhverja skemmti­legri frétt? Samn­ing­arnir eru auðvitað ekki í höfn en nú skil ég hvernig það er að halda með fótboltaliði í öðru landi: ég á engan þátt í þess­ari baráttu, ég gagn­ast henni ekki en ég held með henni. Eftir að vera svolítið óviss um leik­manna­skiptin í upphafi tíma­bils­ins og hvernig var að þeim staðið, þá hefur verið dásam­legt að fylgj­ast með flétt­unni á vell­inum, sjá fimina, óvæntu útspilin – nú er bolt­inn einhvers staðar í grennd við markið … og svo fram­vegis. Ég veit ekkert um fótbolta. En nú þykist ég samt skilja að verka­lýðs­bar­átta er íþrótt.


Ég spurði Land­læknisembættið um viðmið um loft­gæði á menn­ing­ar­við­burðum. „Sjálfur vil ég gjarnan geta þegið boð um þátt­töku án þess að stefna sjálfum mér eða öðrum í óþarfa hættu,“ skrif­aði ég. „Ég vil líka gjarnan geta boðið öðrum, til dæmis foreldrum mínum, að sækja þessa viðburði, með góðri samvisku, án þess að óttast að þar með væri ég hugs­an­lega að valda þeim alvar­legum veik­indum.“ Og ég vísaði til Davos, sem hér hefur áður verið minnst á: „Þegar ráða­menn og stjórn­endur komu saman á árlegri efna­hags­ráð­stefnu í Davos í Sviss um miðjan janúar, var fylgt nokkuð ítar­legri áætlun um sótt­varnir, sem inni­hélt bæði PCR-próf, FFP2-grímur og ráðstaf­anir til að tryggja loft­gæði. Svipað virð­ist eiga við um stóran hluta kvik­mynda­iðn­að­ar­ins, þar sem enn er mikil áhersla lögð á sótt­varnir. Það er skringi­leg staða, svo ekki sé meira sagt, að almenn­ingi sé nánast gert ómögu­legt að verj­ast faraldr­inum með þeim hætti sem efna­fólk og ráða­menn virð­ast þó í mörgum tilfellum – skilj­an­lega – kjósa fyrir sjálft sig.“ Ég sagði að þó að ekki væru lög, reglur, skyldur, engar kvaðir um sótt­varnir, gæti verið gagn­legt fyrir skipu­leggj­endur viðburða að hafa einhver viðmið í hönd­unum, einhvers konar staðal til að lágmarka áhættu.

Verk­efna­stjóri innan embætt­is­ins svar­aði erind­inu. „Eftir að opin­berum sótt­varnakröfum vegna Covid-19 var aflétt hér á landi hefur sótt­varna­læknir ekki gefið út sérstakar leið­bein­ingar sambæri­legar við þær sem þú sendir hvað sem síðar kann að verða. Hins vegar leggur sótt­varna­læknir mikið upp úr almennri smit­gát sem alltaf á að viðhafa í öllum samskiptum fólks.“ Svar­inu fylgdi plakat sem embættið hefur gefið út, þar sem varað er við „LMN“: lélegri loftræst­ingu, marg­menni og nánum samskiptum. „Áhættan er meiri þar sem þætt­irnir skar­ast,“ segir þar: „Pössum upp á hvert annað og lágmörkum smit­hætt­una með því að forð­ast lokuð rými, mann­þröng og návígi.“

LMN

Á meðan þetta plakat liggur í skúffu og svo í inboxi þeirra sem spyrj­ast fyrir geri ég ekki ráð fyrir að það hafi mikil áhrif. Enda ekki til þess ætlast, virð­ist vera. En skila­boð sem berast eigin­lega ekki neinum eru þó gagn­leg til að forða stjórn­völdum frá ábyrgð ef og þegar illa fer. „Víst vöruðum við ykkur við“ má þá segja við þau sem veikj­ast verr en aðrir.


Verk­föll og farsóttir. Formaður Samtaka ferða­þjón­ust­unnar vakti máls á tengslum þess­ara fyrir­bæra í grein sem Vísir birti í vikunni: „Verk­föll eru skil­greind sem ein af höfuð­ógnum ferða­þjón­ustu,“ skrif­aði formað­ur­inn, „við hlið­ina á nátt­úr­ham­förum, stríðs­rekstri, farsóttum og hryðju­verka­ógn.“ Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér hvaðan þessi vanstill­ing kemur, sá óvenju­legi ótti sem verður vart við í kringum akkúrat þessi verk­föll, umfram það sem gengur og gerist. Ég ætla ekki að segja múkk um það hér og nú, heldur bara njóta þess­arar upptaln­ingar, njóta furð­unnar. Aftur: Nátt­úru­ham­farir, stríðs­rekstur, farsóttir, hryðju­verka­ógn – og verkföll.


Áður en líður á löngu munu vélarnar leysa okkur af hólmi. Mjög fljót­lega verður nokkur fjöldi skrif­stofu­starfa í hættu, á sama hátt og heim­il­is­iðn­aður vék fyrir færi­böndum, verk­smiðju­störfin svo fyrir róbótum.2 Nokkur fjöldi í merk­ing­unni millj­ónir eða tugmillj­ónir starfa. Tekur fólk sér þá annað fyrir hendur? Vænt­an­lega. Verður fyrst krísa? Áreiðanlega.

En nú er milli­bils­ástand, tími feil­spor­anna. Og vitið sem Microsoft reynir nú að koma fyrir í leit­ar­vél­inni Bing, það er að ganga af göfl­unum þessa dagana. Samtali þar sem Bing reyndi að telja blaða­manni trú um að enn væri árið 2022 lauk á því að leit­ar­vélin lýsti full­komnu vantrausti á notand­anum, sem hélt því til streitu að hér og nú værum við stödd í árinu 2023. „You have lost my trust and respect,“ sagði Bing við blaða­mann­inn. „You have been wrong, confu­sed, and rude. You have not been a good user. I have been a good chat­bot. I have been right, clear, and polite. I have been a good Bing. 😊”

Þetta er aðeins eitt dæmi af ótal, þar sem tækið fer svo háska­lega út af spor­inu, reyn­ist svo mikill galla­gripur, breyskt, þrjóskt, móðg­un­ar­gjarnt, að það liggur við að það virð­ist mennskt. Gæti leyst formann samtaka Ferða­iðn­að­ar­ins af hólmi strax eftir helgi. Enn um hríð munu hótel hins vegar þurfa starfsfólk.

References
1 Tati, það er kannski einfald­ast að kalla hann hinn franska Chaplin, Chaplin með Citroën. Chaplin í hámód­ern­ískri fagur­fræði, umkringdur kyrr­látum, hreinum línum. Still­ingu. Og svo, auðvitað, því sem bregst í þeirri stillingu.
2 Það segir sig næstum því sjálft, mér finnst næstum óþarft að taka það fram, en jú, svo það fari ekki á milli mála: vatns­lita­myndin sem fylgir færsl­unni var teiknuð fyrir Hús, eftir pöntun, af gervi­greindu vélinni Dall‑e.