Að skrúfa niður bílrúðu og spyrj­ast til vegar

05.3.2023 ~ 6 mín

Um daginn sá ég spurt, líklega á twitter, hvernig fólk hefði ratað um fyrir tíma snjallsíma, hvort það hefði gengið um með götu­kort í vasanum. Þá rifj­að­ist upp fyrir mér, alls ekki í fyrsta sinn, svo lítið atvik að það er strax ofsögum sagt. Það er alveg áreið­an­legt að faðir minn man ekki eftir því enda ekki beint hægt að segja að það hafi hent hann, þetta var minna en svo. Hreint ekki neitt. Við sátum saman í bíl, hann undir stýri, kringum alda­mót, ég hef verið rétt um tvítugt. Við vorum á leið um Reykja­vík, á kunn­ug­legum slóðum, en hann átti erindi á stað sem hann hafði ekki heim­sótt áður. Ég man ekki í hvaða hverfi við vorum. Ég man bara að hann tók upp farsíma – þeir voru orðnir útbreiddir en þó tiltölu­lega nýir enn, nýtt að flest fólk ætti farsíma og hefði á sér öllum stundum – hann tók upp símann, hringdi í mömmu og bað hana um að fletta upp heim­il­is­fang­inu og segja sér til vegar.

Þetta var áður en Google Maps varð fremst meðal götu­korta. Mamma hefur þá flett heim­il­is­fang­inu upp í götu­skránni, aftast í síma­skránni. Við höfum beðið á línunni á meðan hún fletti gegnum götu­heitin í staf­rófs­röð, fann þar blað­síðutal og hnit, gatan væri í ramma C6 á síðu 1003, til dæmis. Eftir að fletta á rétta síðu hefur hún strokið einum fingri eftir línu C en öðrum eftir dálki 6, þar til þeir mætt­ust í réttum ramma, og skimað innan ramm­ans þar til gatan kom í ljós. Þá hefur hún kannski spurt pabba nánar um hvar við værum staddir, við hvaða götu, á hvaða horni. Hann hefur svarað, hún spurt hvort næsta þver­gata héti þetta eða hitt og hann hefur svarað því og þannig koll af kolli þar til hún hefur getað sagt honum að beygja fyrst til hægri og svo vinstri og þá ættum við að vera komnir. Eitt­hvað í þá veru.


Ég man þetta vegna þess að í kringum okkur var fólk á ferð, bæði bílar og gang­andi vegfar­endur. Það sem var nýtt í aðstæð­unum var ekki vesenið við að fletta upp götu­heiti í síma­skrá heldur að pabbi skyldi kjósa heldur að hringja heim og bardúsa þetta yfir símann, en að gera það sem alla mína bernsku hafði verið hvers­dags­leg­asta iðja í heimi: að skrúfa niður rúðuna, kalla á hvern sem af hend­ingu stóð eða gekk í grennd við bílinn, og spyrja til vegar.

Ég man þetta vegna þess að mér fannst eins og þar með væri eitt­hvað breytt. Og í minn­ing­unni óaði mig svolítið við breyt­ing­unni. Ef það er rétt munað hafði aldur minn áreið­an­lega eitt­hvað með það að gera. Samskipti við ókunn­ugt fólk gegna veiga­meira hlut­verki í lífi tvítugra en fertugra. Tvítugt fólk skapar sér heim með því að mynda ný tengsl, kynn­ast öðrum, í skóla, í vinnu, á förnum vegi, á netinu. Hjá mörgum fertugum er það heldur á hinn veginn, að þau ná ekki að sinna fylli­lega þeim tengslum sem þegar hafa skap­ast og hafa því síður tíma fyrir ókunn­uga. Að skrúfa niður rúðu og spyrj­ast til vegar var bara eitt af þessu sjálf­sagða sem maður tók líklega ekki eftir að maður gerði, hluti af því hvernig heim­ur­inn virk­aði, stysta leið að marki í ákveðnum aðstæðum. Og um leið eitt af ótal praktískum tilefnum ókunn­ugra til að tala saman gegnum dagana.


Líklega spil­aði aldur­inn inn í segi ég en þarf annars að geta mér til um hvers vegna þetta atvik, þetta eigin­lega alls ekki neitt neitt, varð mér eftir­minni­legt. Og þegar ég get mér til um það þá get ég heldur ekki full­yrt að á þeirri stundu hafi ég hugsað á sama veg og síðar. Hugs­anir lifa ekki í tímaröð, ný hugsun getur ummyndað aðra eldri, afmáð öll ummerki um þá fyrri um leið og hún hverfur. Þannig væri uppspuni að segja hvað ég hugs­aði þarna í bílnum, flest af því hef ég líklega hugsað síðar. Það sem hefur orðið um þetta atvik í huga mér er að það hefur fests í sessi sem einhvers konar lykil­mynd, skref á vegferð, kannski það fyrsta sem ég sá, í átt að útrým­ingu hendingarinnar.

Þannig má dramatisera eitt­hvað sem var í reynd hérumbil ekki neitt, gera það að skugga­mynd af næstum öllu. En þegar það hefur einu sinni verið gert er ekki auðvelt að vinda ofan af því, að breyta úlfald­anum aftur í mýflugu, þessi mynd er komin til að vera.


Að skrúfa niður rúðuna og spyrja ókunn­uga til vegar var nokkuð skil­virk aðferð, á meðan hún tíðk­að­ist. Svarið var oftast innan seil­ingar. En því fylgdi alltaf eitt­hvað örlítið meira. Stundum vissi fyrsti viðmæl­andi ekki neitt, var sjálfur gest­kom­andi á sömu slóðum. Stundum var hann að flýta sér og lét í það skína að hann mætti ekki vera að þessu, þó að honum rynni blóðið til skyld­unnar og hann léti sig hafa það. Einum lá einkenni­lega hátt rómur, annar talaði ekki íslensku, þriðji var drukk­inn og andfúll, fjórði frægur, nýbú­inn að vera í sjón­varp­inu, ætti maður að nefna það eða ekki? Og svo fram­vegis. Engin mann­eskja er bara mann­eskja, allar mann­eskjur eru tilteknar mann­eskjur, með sérkenni, í aðstæðum, á tíma­punkti, og öllum samskiptum við mann­eskjur fylgir einhver ögn af vísbend­ingum um þetta umfram­magn sem fylgir fólki. Hið tiltekna. Einn hefur ekki hugmynd en lætur eins og hann gæti þó kannski áttað sig, stendur, hummar og veltir vöngum, á allan tíma heims­ins til að pæla í því hvar áfanga­stað­ur­inn gæti verið, mætir vand­anum teor­e­tískt á meðan tíminn líður bara, annar veit það næstum fyrir víst en vill ekkert full­yrða án full­vissu og kallar því þann þriðja til sögunnar. Sá veit aldeilis hvaða stað er um að ræða, ég nú er hræddur um það félagi, og kann heldur betur sögur af fyrr­ver­andi íbúum eða rekstri í húsinu. Og svo fram­vegis. Manneskjur.

Þetta umfram­magn, mann­eskjan sem fylgdi upplýs­ing­unum, var sjaldn­ast mjög tíma­frekt. En alltaf svolítið ófyr­ir­sjá­an­legt. Að hringja heldur í sitt heim­il­is­fólk var skil­virkt að því leyti, þó að það gæti tekið tímann sinn, að þannig mátti halda ófyr­ir­sjá­an­leik­anum í skefjum. Skræla þó þetta smáræði af ófyr­ir­sjá­an­leika af deginum. Ef við höfum nóg á okkar könnu og ef það er hægt þá meikar sens að gera það.

En heim­il­is­fólkið manns er auðvitað mann­eskjur líka, með sérkenni, lund­arfar, aðstæður og tíma­punkta. Kannski er það fyrir­sjá­an­legra en annað fólk, þegar kemur að leið­sögn um götur, en það er auðvitað ekki þar fyrir bein­línis alfarið fyrir­sjá­an­legt. Þess vegna meikar líka sens að þetta ferli hafi haldið áfram. Þessi vegferð. Fyrst það var hægt. Aukin skil­virkni. Meiri fyrir­sjá­an­leiki. Færri hendingar.

Ímyndum okkur vísi­tölu yfir tíðni þess að fólk skrúfi niður bílrúðu og spyrj­ist til vegar. Um tíu árum eftir atvikið með pabba tóku snjallsímar að birt­ast í hönd­unum á okkur, með GPS-flögu og Google Maps. Bílrúðu­vísi­talan hrundi. Vísi­talan niður þýðir rúðurnar upp. Þær hafa hald­ist uppi síðan.


Í liðinni viku gaf fyrir­tækið OpenAI út API fyrir Chat­GPT: það þýðir að þeir gerðu öðrum fyrir­tækjum og forrit­urum kleift að beita nýju vitvél­inni, talvél­inni, í sinn búnað, innlima hann á ótal vegu. Fyrir­sjá­an­legt er að innan skamms verði varla til sá hugbún­aður sem ekki er hægt að tala við. Notenda­við­mót allra véla verður samtal. Praktískt séð þurfum við, áður en langt um líður, aldrei að tala við ókunn­uga. Og ekki heldur hringja heim. Tíu, fimmtán árum síðar mun einhver spyrja: hvernig var það, áður en vélar fengu málið, þagði fólk þá bara eða var það alltaf að tala við sjálft sig? Og vélin, einhver vél, ísskápur þess vegna, mun svara: það var nú allur gangur á því, ég fann eina sögu hérna, í gamalli blogg­færslu, af manni sem sat í bíl með föður sínum, á ferð um Reykjavík …