„Eigum við eitt­hvað að vera að púkka upp á þetta gamla fólk? Eða fólk með alvar­lega sjúkdóma?“

08.3.2023 ~ 12 mín

Fyrsta dag þessa mars­mán­aðar birti Land­læknir ný gögn um dauðs­föll af völdum Covid-19 á árinu 2022. Í ljósi umframdauðs­falla sem urðu á sama tíma og þrjár stærstu Covid-bylgjur ársins risu hæst telja sérfræð­ingar að um 400 manns hafi látist hér af völdum farald­urs­ins á því ári, en ekki 200 eins og fyrsta grein­ing dánar­vott­orða gaf til kynna. Um leið kom fram að veiran hefur alls ekki linnt látum: í janúar á þessu ári, 2023, létust að minnsta kosti þrettán af völdum Covid-19 á Íslandi, fleiri en allt árið 2021.

Mörgum þóttu þetta sláandi tíðindi. Af því tilefni tók Gunnar Smári Egils­son viðtal við Þórólf Guðna­son, fyrr­ver­andi sótt­varna­lækni, við Rauða borðið á Samstöð­inni nú á mánu­dag. Gunnar bar þessar tölur undir Þórólf, ásamt öðrum upplýs­ingum sem komið hafa fram, meðal annars alþjóð­leg gögn um lækk­andi lífs­líkur frá því að farald­ur­inn hófst. Þórólfur gerði grein fyrir aðferða­fræð­inni að baki gögn­unum, að grein­ingin virð­ist gild.

Í seinni helm­ingi viðtals­ins komu fram nokkur atriði sem mér sýnist vert að halda til haga.1

„Ekki tækni­lega mögu­legt“ að sleppa faraldri lausum en vernda viðkvæma

Þórólfur segist enn vera feginn því að Ísland hafi ekki farið sænsku leið­ina í faraldr­inum, sem svo hefur verið nefnd. Hann tók fram að það væri reyndar ekki alfarið rétt­nefni, sænsk yfir­völd hafi gripið til vissra aðgerða til að sporna við faraldr­inum, en að með hugtak­inu ætti hann við það sem nokkrir ákafa­menn hvöttu til með því: að beita engum sótt­vörnum heldur sleppa faraldr­inum lausum áður en bólu­efni höfðu verið þróuð. Þórólfur sagð­ist hafa spurt Anders Tegnell, sótt­varna­lækni í Svíþjóð: „Af hverju eruð þið að gera þetta svona? Hvers vegna ekki að bíða eftir góðu bólu­efni?“ enda væri ansi hart, þegar það kæmi á sjón­ar­sviðið, „að vera þá búinn að missa mjög marga.“

Hann bætti því við að það væri ekki hægt að sleppa faraldr­inum lausum en ætla um leið að vernda afmark­aða viðkvæma hópa:

„Fólk sagði: af hverjum reynum við ekki bara að vernda þetta fólk, koma í veg fyrir smit hjá því, en við hin fáum bara að vera í friði, sætum ekki neinum takmörk­unum? Ég held að það sé ekki tækni­lega mögu­legt, það sýndi sig bara. Menn eru á þessum stofn­unum að gera sitt besta, koma í veg fyrir að smit berist inn. En þegar það er útbreitt í samfé­lag­inu, þá er ekki bara að smit berist inn heldur dettur starfs­fólk út vegna smits, sem kemur niður á umönnun annarra sjúk­dóma. Og þá fáum við kannski aukn­ingu í dánar­tíðni og alvar­legum afleið­ingum af öðrum sjúkdómum.“

Neyð­ar­ástandið í mars 2022 var fyrirséð

Þá vék Þórólfur að tíma­punkt­inum þegar heil­brigð­is­ráð­herra ákvað eftir sem áður að afnema allar sameig­in­legar sótt­varnir, snemma árs 2022. Hann sagði að sú ákvörðun ráðherra að láta fyrstu Omicron-bylgj­una ríða yfir landið óhefta hafi verið ein af þeim þremur sviðs­myndum sem hann hafði þá sjálfur dregið upp í tveimur minn­is­blöðum til ráðherra í febrúar 2022. Sviðs­mynd­irnar þrjár hefðu verið að herða þær sótt­varnir sem þegar voru uppi, halda þeim óbreyttum eða aflétta þeim alfarið:

„Það var nátt­úru­lega augljóst í fyrra, þegar öllu var aflétt þarna í lok febrúar, þá fengum við þessa gríð­ar­legu útbreiðslu. Jafn­vel þó að almennt séð væru líkur á alvar­legum afleið­ingum af Covid minni þá, bæði út af bólu­setn­ingum og svo voru komin svona vægari afbrigði af veirunni, þá nægði það til þess að það voru margir sem veikt­ust alvar­lega, sérstak­lega eldra fólk. Fjöld­inn var bara svo rosa­lega mikill. Og þetta var það sem ég benti á, til dæmis í þessum frægu minn­is­blöðum sem ég sendi þarna, tvö minn­is­blöð í febrúar. Þá voru menn farnir að tala um að aflétta öllu og ég var með þrjár sviðs­myndir fyrir stjórn­völd. Sagði bara: ef þið herðið, þá eru líkur á að við getum haldið þessu aðeins meira í skefjum, ef við erum með óbreytt, þá verður þetta aðeins skárra. Ef við sleppum þessu lausu, þá er mjög líklegt að við fáum mikla útbreiðslu og einhverjar alvar­legar afleið­ingar. Og mér sýnist það hafa gerst.“

Þórólfur sagði að þá hefði neyð­ar­ástand skap­ast á spít­al­anum. „Ekki endi­lega bara út af Covid heldur voru margir starfs­menn sem smit­uð­ust og sýkt­ust og gátu ekki komið til vinnu. Þá voru menn jafn­vel að tala um að leyfa fólki með Covid að koma til vinnu.“ Dánar­tíðni hefði þá verið orðin lægri en í upphafi farald­urs­ins, en „með mikilli útbreiðslu verða margir fyrir þessu og þá lendum við í því að geta ekki sinnt öðrum sjúk­dómum, öðrum sjúk­lingum. Það verður keðju­verk­andi. Svo það er til mikils að vinna að reyna að halda þessu í skefjum eins og hægt er, þangað til við fáum einhverja varan­lega og betri lausn.“

Tíundi hver fær lang­vinn eftirköst

Þá nefndi Þórólfur að dauðs­föllin 400 væru ekki einu alvar­legu afleið­ingar farald­urs­ins hér á landi, heldur sætu 10–15% þeirra sem smit­ast uppi með langvar­andi afleið­ingar, þær sem ýmist hafa verið nefndar Long-Covid eða, nýverið, PASC:

„Ég er sammála því að ég held að alvar­legar afleið­ingar af Covid séu meiri heldur en við vitum.“

– Og meiri en má ætla af almennri umræðu?

„Já, ég held það. Og svo gleyma menn líka að þó að menn hafi ekki dáið, þá er long-covid, þessi langvar­andi áhrif af Covid, bara miklu meiri heldur en við aðrar sýkingar sem við höfum séð. Og það er það sem menn eru að berj­ast við líka. Eins og hefur svosem komið fram í umræð­unni hér, allt að 10% af þeim sem hafa fengið Covid geta átt við langvar­andi eftir­stöðvar að stríða eftir Covid. Og það eru líka mjög alvar­legar afleið­ingar, fólk sem var kannski í fullu fjöri er bara mánuðum og árum saman frá vinnu, getur varla hreyft sig.“

Bólu­efnin mikil­væg en þó vonbrigði

Þórólfur gerði grein fyrir því hversu mikil­væg bólu­efni hafa reynst til að fækka alvar­legum tilfellum, dauðs­föllum og alvar­legum lang­vinnum afleið­ingum. Hann færði þó einnig í orð að hvaða leyti bólu­efnin hefðu valdið vonbrigðum. „Það er engin spurn­ing um það – allar ábyrgar og góðar rann­sóknir sem hafa verið gerðar á áhrifum bólu­efn­anna gegn Covid sýna það að þau eru mjög góð til að koma í veg fyrir alvar­legar afleið­ingar. Þau eru ekki eins góð til að koma í veg fyrir smit eða sýkingu. Það voru vonbrigði með bóluefnin.“

Það ónæmi sem skap­ast við sýkingu kemur ekki heldur í veg fyrir endursmit, stað­festi Þórólfur. Því sagð­ist hann ekki vongóður um að endursmitum muni nokk­urn tíma linna. „Hvenær losnum við við þetta? Ég er ekkert viss um að við losnum nokk­urn tíma við þetta. Vegna þess að það virð­ist vera, bæði að bólu­efnin virka ekki vel til að koma í veg fyrir smit, þó að þau komi í veg fyrir alvar­legar afleið­ingar. Og fyrri sýkingar – við smit­umst aftur. Sem segir bara það að verndin sem við fáum af sýkingu, ónæm­is­svarið, er ekki nægi­lega gott til að koma í veg fyrir aðra sýkingu. Þó að það kannski komi í veg fyrir alvar­leg veikindi.“

– En Covid er ekki að fara?

„Nei, Covid …“

– Við verðum að fjalla um Covid hér eftir ár og tvö ár?

„Já, já, ég held það. Það gæti gerst að það kæmi nýtt afbrigði af Covid sem myndi ekki hleypa þessu í bál og brand.“

– En gæti ekki líka komið … það mun ekki koma fram bólu­efni sem tryggir okkur fyrir smiti? Það er ólíklegt?

„Mér finnst það ólík­legt já.“

Loftræst­ing, grímur og spritt

Daginn áður en Land­læknir birti gögnin um dauðs­föll ársins 2022 var í kvöld­fréttum RÚV fjallað um fólk sem enn gerir ráðstaf­anir til að forð­ast smit. Ef Covid-19 heldur bara áfram, ef fjöldi fólks tilheyrir í reynd viðkvæmum hópum, ef því er þar með hætt við alvar­legum afleið­ingum, ýmist bráða­veik­indum eða lang­vinnum veik­indum, allt að dauða, og ef ekki er „tækni­lega mögu­legt“ að vernda þá hópa eina sér á meðan samfé­lagið heldur sínu striki án sótt­varna, hvað geta þau þá gert til að lágmarka áhættu sína frá degi til dags? Gunnar Smári spurði hvort rétt væri að huga að loft­gæðum. – Nota þennan faraldur til þess að bæta loft­gæði í húsum og loftræst­ingu? Hann vísaði til loft­hreinsi­tækis í mynd­ver­inu: Við erum nú með svona tæki sem að dregur úr sýkingum, sem er notað hérna inni af því að við erum ekki með glugga á þessu herbergi. Myndir þú vilja fara með umræð­una þangað?

„Já algjör­lega,“ svar­aði Þórólfur. „Algjör­lega. Þetta er einn lærdómur sem við drögum af Covid. Það fer nátt­úr­lega allt eftir því hvers konar veiru eða bakt­eríu við erum að fást við, hvað svona hlutir skipta miklu máli. Í Covid, þá er mjög áhuga­vert að fylgj­ast með þeirri þróun sem að varð. Menn sögð­ust í byrjun – af því að nú þekkja menn kórónu­veirur, það eru bara algengar kvef­veirur, við kvef­umst aftur og aftur. Og þær smit­ast aðal­lega með svona dropa- og snert­ismiti. Það er að segja, þú þarft að vera í mikilli nánd. Og menn sögðu í byrjun, og höfðu rann­sakað það, að svona úðasmit eða svona loft­borið smit skipti ekki miklu máli. En svo fóru bara að koma rann­sóknir, alls konar rann­sóknir, meðal annars Íslend­ingur í Banda­ríkj­unum sem hafði verið að rann­saka þetta og var í sambandi við okkur, og fóru að sýna fram á það að svona úðasmit, loft­borið smit, í illa loftræstum rýmum, skipti bara veru­legu máli. Og þá fóru að berast sögur um smit sem að voru mjög há, eða tíðnin á þeim og líkurnar voru mjög háar, í rýmum þar sem loftræst­ingin var léleg. Þess vegna komum við með þetta seinna inn, bæði varð­andi grímu­notk­un­ina – menn voru nú ósparir á að skamma mig fyrir að hafa skipt um skoðun í því – og svo líka loftræsti­málin, eins og þú ert að tala um. Að hafa loftræst­ingu þannig að þú sért með góð loft­skipti. Það skiptir allt máli, held ég. Og ég held að þetta sé eitt­hvað sem við höfum lært af. Og kannski verður þetta til þess að það þarf að setja nýjar kröfur bara til húsnæðis. Hvernig loftræst­ingin er.“2

En hvað þá í milli­tíð­inni? Á meðan nýjar kröfur um loft­gæði innan­húss hafa ekki verið festar í lög og reglu­gerðir eins og aðrar meng­un­ar­varnir, hvernig geta þá viðkvæmir hópar, eldra fólk, fólk með undir­liggj­andi kvilla, eða þá hver sem ekki vill veikj­ast eða valda öðrum veik­indum, varið sig fyrir smiti? Grímur og spritt, svar­aði Þórólfur:

„Það er ekkert slæmt að geta farið út í búð, að vera með grímu. Ef þú gerir það bara rétt og almenni­lega, og ert með almenni­lega grímu. Hvað er að því? Það hamlar þér ekki neitt, nema kannski það er einhver sem horfir á þig undar­lega. Og getur vel verið að einhver hreyti einhverju í þig.“

Stórar, erfiðar spurningar

Enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Ekki aðeins geisar farald­ur­inn enn heldur stendur enn opin sú spurn­ing hversu mikil og langvar­andi lang­tíma­áhrif hans verða. Þórólfur sagði að allir væru sammála um að alvar­legar afleið­ingar af Covid væru meiri en þær sjö millj­ónir manna sem talið er að hafi látist af völdum sjúk­dóms­ins. Eftir að lýsa fegin­leik sínum yfir því að hafa ekki farið sömu leið í faraldr­inum og sænsk yfir­völd fóru, bar Þórólfur sjálfur fram spurningu.

„Þetta er líka umræða sem snertir bara gamla fólkið, sko. Eigum við eitt­hvað að vera að púkka upp á þetta gamla fólk? Fólk sem er svona veikt og heila­bilað og komið inn á stofn­anir og við förum að heim­sækja á sunnu­dögum og eitt­hvað svona. Er þetta einhvers virði? Eða bara aðra sem eru með alvar­lega sjúk­dóma, eigum við að leggja í mikinn kostnað við að fram­lengja líf fólks um eitt, tvö ár? Eða eitt­hvað? Skil­urðu hvað ég á við? Þetta er mjög erfið umræða.“

– Ætlarðu að svara þess­ari spurn­ingu? spurði Gunnar Smári.

„Nei.“

– Þetta eru rosa stórar spurningar.

„Þetta eru alveg ofboðs­lega stórar spurn­ingar. Og þetta eru spurn­ingar sem menn vilja ekki taka, vegna þess að þetta er svo tilfinn­inga­lega erfitt.“

– En þetta er það sem við ættum að vera að ræða, vegna þess að Covid er að ganga yfir. Að sumu leyti erum við að svara þeim með því að svara þeim ekki.

„Já, klár­lega, það er bara aðgerð í sjálfu sér að ignor­era hlut.“


References
1 Ég vanda mig við að hafa rétt eftir, bæði innan og utan gæsalappa, en læt þó eins og upptakan sé vinnu­skjal, eins og ég væri að ganga frá viðtali til birt­ingar í hefð­bundnum prent­miðli, og raða spurn­ingum og svörum í röð sem mér virð­ist þjálli en tímaröðin. Sú úrvinnsla er á mína ábyrgð, þessi blogg­færsla er ekki unnin í samstarfi eða samráði við Samstöð­ina, starfs­fólk hennar eða annan utan­að­kom­andi aðila. HMH.
2 Viðbót eftir birt­ingu: daginn eftir að Samstöðin flutti viðtalið við Þórólf birti vísinda­ritið Nature ítar­lega umfjöllun eftir vísinda­blaða­mann­inn Dyani Lewis um tengsl loft­gæða við farald­ur­inn. Þar er fjallað um rann­sóknir sem hafa verið unnar, úrræði sem þegar hefur verið gripið til með nýjum viðmiðum, til dæmis í Belgíu, Banda­ríkj­unum, Bretlandi og Japan, og önnur sem eru í farvatn­inu. Titill vefúft­gáfu grein­ar­innar er „Indoor air is full of flu and COVID viruses. Will countries clean it up?“ en hún birt­ist á prenti í 615. tbl. Nature þann 9. mars 2023 undir titl­inum „Diseases in the Room“.