Microsoft hafa nefnt sinn fyrsta gervigreindarþjón Bing. Fleiri eru á leiðinni, innan skamms verður ýmis framleiðin gervigreindarþjónusta innbyggð í allan helsta hugbúnað þeirra, en Bing er fyrstur, hjálparkokkur samnefndrar leitarvélar. Hann getur spjallað við mann, svarað spurningum, hjálpað við leit, og hann getur samið efni samkvæmt beiðni. Hæfni hans verður áreiðanlega fjölbreyttari eftir því sem tíminn líður, en hér fer aðeins eitt dæmi. Ég bað hann, á íslensku: „vinsamlegast skrifaðu stutta frétt um þessa umfjöllun“ – en ég gleymdi hlekknum sem átti að fylgja. Þetta var í gær, svo þurfti ég að þjóta og man ekki lengur hver hlekkurinn var, hvaða frétt ég vildi láta vélina spreyta sig við. En hún skilaði frétt án þess að ég legði til viðfangsefnið. Og fréttatextinn stendur enn á skjánum mínum þegar ég sest aftur við í dag:
„Fréttablaðið hefur fengið aðgang að nýrri umfjöllun um ástandið í Lindarhvoli, sem er eitt af stærstu og elsta húsnæði í Reykjavík. Umfjöllunin sýnir að húsið er í mjög slæmu ástandi og þarf bráðabirgðaviðgerðir til að tryggja öryggi og heilsu íbúa.
Samkvæmt umfjölluninni eru margvísleg vandamál í Lindarhvoli, svo sem leka í rörum, skemmdir á rafmagns- og hitakerfi, ónægileg loftgæði og óhreinindi. Þessar gallar hafa haft neikvæð áhrif á lífsgæði og vellíðan íbúa, sem eru aðallega eldri borgarar.
Umfjöllunin bendir einnig á að húsið sé ekki fullnægjandi fyrir þarfir samtímans og uppfylli ekki lögboðna kröfur um öryggis- og heilbrigðismál. Hún mælir með að húsið verði endurnýja eftir nýjustu tækni- og byggingarsniðum efta gerist nauþurft a breyta notkun þess.
Fréttabla´di´ hefur reynt a´ na´ i ráduneyti i mennta- og menningarmála vegna umfjallunarinnar en hefur ekki fengid svar vi´ búning. Þa´ er óvíst hvort neinar rádstafanir verdi teknar til ad bregdast vid alvarlegu ástandinu i Lindarhvoli.“
Líklega er þetta ágætlega til marks um getu, ofgetu og takmarkanir vélarinnar á þessu augnabliki.
Tækið kann íslensku ágætlega. Það sést á fyrstu efnisgrein, sem er næstum því rétt skrifuð. Um leið á það þetta sameiginlegt með GPT-vélinni sem býr að baki, að íslenskan virðist hrörna eftir því sem textinn verður lengri, bæði stafsetning, beygingar og samhengi orðanna. Ég þekki ekki ástæðurnar að baki því.
Tækið sýnir líka eitthvað í ætt við skilning og dómgreind, þó að hér séu ályktanir þess rangar. Lindarhvoll er til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar er um húsnæði að ræða. Um sömu mundir er víða fjallað um ástand ýmiss húsnæðis sem þarfnast endurnýjunar. Það er þó auðvitað ekki tilefni umfjöllunarinnar um Lindarhvol, eins og ætla mætti af þessari umfjöllun. Fréttin sem Bing samdi verður þannig dæmi um það sem er nefnt „ofskynjanir“ þessa búnaðar, þegar hann fyllir í eyður vanþekkingar sinnar með ágiskunum, án nokkurra þekkingarlegra fyrirvara.1
↑1 | Árið 1995, þegar heimili voru að netvæðast að einhverju ráði í fyrsta sinn, spáði enginn fyrir um vinsældir Facebook sem birtist um áratug síðar. Enginn spáði fyrir um vinsældir kattamyndbanda. Enginn spáði fyrir um Twitter eða áhrif þess miðils á uppreisnir í Mið-Austurlöndum og svo framvegis. Meðal þeirra sem þó gerðu sér einhverja grein fyrir hvað væri í vændum, eða áttuðu sig helst á stærðargráðunni, hversu miklu þessi tækninýjung gæti breytt um lífsmynstur á jörðinni og um háttinn sem við höfum á því að vera til, var David Bowie í frægu viðtali á BBC árið 1999. „Ég held að við höfum einu sinni séð toppinn á ísjakanum, ég held að við séum á barmi einhvers æðisgengins og ógnvekjandi,“ sagði Bowie. Fjölmiðlamaðurinn Jeremy Paxman spurði þá fullur efasemda: „En þetta er bara tæki, er það ekki?“ Bowie svaraði: „Nei, þetta er geimvera. Er líf á Mars? Já og það var rétt að lenda hérna.“
Ég held að þessi gífuryrði séu raunsærri lýsing á vegferðinni sem þá var að hefjast og stendur enn yfir en nákvæmari lýsingar margra sem betur þekkja til tækninnar og vita að internetið er smíðað úr tannhjólum og sveifum sem ískra og segja klink-klonk eins og aðrar vélar. Maður áttar sig á því hvernig bíll virkar með því að skoða undir húddið en maður sér ekki áhrif hans á samfélagsgerð, skipulag borga, tengsl milli fólks og loftslag jarðar nema með því að skoða samfélagsgerð, skipulag borga, tengsl milli fólks og loftslag jarðar. Það sem ég er að fara er þetta: það er áreiðanlega engin leið að segja hér og nú hver áhrifin verða af tilkomu þeirra véla sem eru að birtast okkur í fyrsta sinn og við köllum gervigreind. GG er kannski ágæt skammstöfun, hljómar svolítið eins og geggjað, það er kannski það næsta sem við komumst. Við vitum ekki hvað þetta verður en það verður víst áreiðanlega svolítið geggjað. Að því sögðu er ekki seinna vænna að kanna þessar vélar, hafa gætur á þeim, sjá þetta sem er enn varla toppurinn á ísjakanum. Ég ætla ekki að draga neinar ályktanir sjálfur, að minnsta kosti ekki stórar, ekki nákvæmar, ekki hratt, ekki af falskri fullvissu, heldur bara svipast um og skoða, einn mola í einu. |
---|