CDC stendur fyrir Centers for Disease Control and Prevention. Þessi stofnun er ígildi embætti sóttvarnalæknis á Íslandi. Meðal þess sem stofnunin gefur út eru skjöl sem heita „Vital Statistics Reporting Guidance“. Þetta eru leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsfólks um skráningu dánarmeina. Þær eru uppfærðar eftir því sem tilefni er til, svo að heilbrigðisstofnanir í Bandaríkjunum séu allar á sömu blaðsíðu, skráningar séu samræmdar. Þannig er einn leiðarvísir um overdose af lyfjum, annar um hryðjuverk, þriðji um náttúruhamfarir, hvenær skuli líta svo á að þetta séu beinar orsakir dauðsfalls, hvenær meðvirkandi, og hvernig skuli þá skrá það. Vorið 2020 komu út slíkar leiðbeiningar um Covid-19. Eins og gefur að skilja.
Þessar leiðbeiningar hafa síðan verið uppfærðar eftir því sem skýrari mynd hefur fengist af sjúkdómnum. Leiðbeiningarnar voru síðast uppfærðar nú í febrúar 2023. Það vakti ekki mikla athygli daginn sem breytingarnar birtust. Þetta er vinnugagn innan heilbrigðiskerfisins, uppfærslur á þess háttar skjölum eru ekki tilefni til blaðamannafunda. En nú í mars benda sérfræðingar og áhugafólk hvert öðru á nýmæli í skjalinu. Þar er kafli með heitinu „Certifying deaths due to post-acute sequalae of COVID-19“. Post-acute sequalae, hvernig myndi maður þýða það? Fylgikvillar að loknum bráðaveikindum? Eitthvað í þá veru, þetta er kafli um skráningu dauðsfalla þar sem veikindi af völdum veirunnar koma við sögu, eftir að bráðaveikindunum sem nefnast Covid-19 lýkur. Í þessum hluta skjalsins stendur nú:
„Emerging evidence suggests that severe acute respiratory syndrome coronoavirus 2 (SARS-CoV‑2), the virus that causes COVID-19, can have lasting effects on nearly every organ and organ system of the body weeks, months, and potentially years after infection. Documented serious post-COVID-19 conditions include cardiovascular, pulmonary, neurological, renal, endocrine, hematological, and gastrointestinal complications, as well as death.“
Á íslensku mætti þýða það sem svo:
„Margt bendir til að SARS-CoV‑2, veiran sem veldur COVID-19, geti haft langvinn áhrif á nær öll líffæri og líffærakerfi líkamans, vikum, mánuðum og mögulega árum eftir smit. Skráð alvarleg tilfelli í kjölfarið á COVID-19 innihalda hjarta- og æðakvilla, kvilla í lungum, taugum, nýrum, innkirtlum, blóði og meltingarfærum, ásamt dauða.“
Þessu fylgja síðan leiðbeiningar um hvernig skuli skrásetja dauðsföll þar sem langvinn veikindi af völdum veirunnar SARS-CoV‑2 voru annað hvort meginorsök dauðsfallsins eða meðvirkandi.
Efnislega er þetta ekki nýtt, enda er staðhæfingin vitaskuld byggð á birtum rannsóknum. Það sem er nýtt er að þessi lykilstofnun geri því svo skýr skil, berum orðum. Að veiran ræðst á fjölda kerfa líkamans og getur valdið þar skaða yfir langan tíma, stundum með alvarlegum afleiðingum, allt að dauða.
Hvað er svona merkilegt við það að CDC segi þetta berum orðum? Ýmislegt en meðal annars þetta: Þegar ákveðið var, í kjölfar bólusetninga, að fella niður allar aðrar sóttvarnir varaði fjöldi vísindamanna við mögulegum langtímaafleiðingum sem margar vísbendingar voru þá þegar um. Víða um heim ákváðu stofnanir að taka sénsinn, láta veiruna njóta vafans, og höfðu ekki hátt um áhættuna sem því fylgdi. Á Íslandi má til dæmis nefna heilbrigðisráðherrann sem talaði um dauðsföll ársins 2022 sem „tímabundinn kúf“ sem landið þyrfti að komast í gegnum. Á því og öðru eins tali mátti skilja að ef við bara fórnuðum þeim sem fórna þyrfti, þá myndu eftirlifendur endurheimta „eðlilegt líf“ eins og það hefur verið kallað. Þá yrði vandinn úr sögunni.
Post-acute sequalae of COVID-19 – langvinnu veikindin eftir Covid-19 – eru í skjalinu skammstöfuð PASC. PASC er þá heiti sjúkdómsins Covid-19 að fyrstu fjórum vikunum liðnum. Fyrst það heiti er komið í umferð innan stofnananna má vænta að það nái yfirhöndinni og verði innan skamms útbreiddara en Long-Covid, óformlega heitið sem fólk hefur stuðst við til þessa.