„… geti haft lang­vinn áhrif á nær öll líffæri og líffæra­kerfi líkam­ans, vikum, mánuðum og mögu­lega árum eftir smit“

07.3.2023 ~ 3 mín

CDC stendur fyrir Centers for Disease Control and Prevention. Þessi stofnun er ígildi embætti sótt­varna­læknis á Íslandi. Meðal þess sem stofn­unin gefur út eru skjöl sem heita „Vital Statistics Report­ing Guidance“. Þetta eru leið­bein­ingar til heil­brigð­is­starfs­fólks um skrán­ingu dánar­meina. Þær eru uppfærðar eftir því sem tilefni er til, svo að heil­brigð­is­stofn­anir í Banda­ríkj­unum séu allar á sömu blað­síðu, skrán­ingar séu samræmdar. Þannig er einn leið­ar­vísir um over­dose af lyfjum, annar um hryðju­verk, þriðji um nátt­úru­ham­farir, hvenær skuli líta svo á að þetta séu beinar orsakir dauðs­falls, hvenær meðvirk­andi, og hvernig skuli þá skrá það. Vorið 2020 komu út slíkar leið­bein­ingar um Covid-19. Eins og gefur að skilja.


Þessar leið­bein­ingar hafa síðan verið uppfærðar eftir því sem skýr­ari mynd hefur feng­ist af sjúk­dómnum. Leið­bein­ing­arnar voru síðast uppfærðar nú í febrúar 2023. Það vakti ekki mikla athygli daginn sem breyt­ing­arnar birt­ust. Þetta er vinn­u­gagn innan heil­brigðis­kerf­is­ins, uppfærslur á þess háttar skjölum eru ekki tilefni til blaða­manna­funda. En nú í mars benda sérfræð­ingar og áhuga­fólk hvert öðru á nýmæli í skjal­inu. Þar er kafli með heit­inu „Certify­ing deaths due to post-acute sequalae of COVID-19“. Post-acute sequalae, hvernig myndi maður þýða það? Fylgi­kvillar að loknum bráða­veik­indum? Eitt­hvað í þá veru, þetta er kafli um skrán­ingu dauðs­falla þar sem veik­indi af völdum veirunnar koma við sögu, eftir að bráða­veik­ind­unum sem nefn­ast Covid-19 lýkur. Í þessum hluta skjals­ins stendur nú:

„Emerg­ing evidence suggests that severe acute respiratory syndrome coronoa­virus 2 (SARS-CoV‑2), the virus that causes COVID-19, can have lasting effects on nearly every organ and organ system of the body weeks, months, and potentially years after infection. Docu­mented seri­ous post-COVID-19 conditi­ons include cardi­ovascular, pulmon­ary, neurological, renal, endocr­ine, hematological, and gastroin­test­inal complicati­ons, as well as death.“

Á íslensku mætti þýða það sem svo:

„Margt bendir til að SARS-CoV‑2, veiran sem veldur COVID-19, geti haft lang­vinn áhrif á nær öll líffæri og líffæra­kerfi líkam­ans, vikum, mánuðum og mögu­lega árum eftir smit. Skráð alvar­leg tilfelli í kjöl­farið á COVID-19 inni­halda hjarta- og æðakvilla, kvilla í lungum, taugum, nýrum, innkirtlum, blóði og melt­ing­ar­færum, ásamt dauða.“

Þessu fylgja síðan leið­bein­ingar um hvernig skuli skrá­setja dauðs­föll þar sem lang­vinn veik­indi af völdum veirunnar SARS-CoV‑2 voru annað hvort megin­or­sök dauðs­falls­ins eða meðvirkandi.


Efnis­lega er þetta ekki nýtt, enda er stað­hæf­ingin vita­skuld byggð á birtum rann­sóknum. Það sem er nýtt er að þessi lykil­stofnun geri því svo skýr skil, berum orðum. Að veiran ræðst á fjölda kerfa líkam­ans og getur valdið þar skaða yfir langan tíma, stundum með alvar­legum afleið­ingum, allt að dauða.

Hvað er svona merki­legt við það að CDC segi þetta berum orðum? Ýmis­legt en meðal annars þetta: Þegar ákveðið var, í kjöl­far bólu­setn­inga, að fella niður allar aðrar sótt­varnir varaði fjöldi vísinda­manna við mögu­legum lang­tíma­af­leið­ingum sem margar vísbend­ingar voru þá þegar um. Víða um heim ákváðu stofn­anir að taka séns­inn, láta veiruna njóta vafans, og höfðu ekki hátt um áhætt­una sem því fylgdi. Á Íslandi má til dæmis nefna heil­brigð­is­ráð­herr­ann sem talaði um dauðs­föll ársins 2022 sem „tíma­bund­inn kúf“ sem landið þyrfti að komast í gegnum. Á því og öðru eins tali mátti skilja að ef við bara fórn­uðum þeim sem fórna þyrfti, þá myndu eftir­lif­endur endur­heimta „eðli­legt líf“ eins og það hefur verið kallað. Þá yrði vand­inn úr sögunni.


Post-acute sequalae of COVID-19 – lang­vinnu veik­indin eftir Covid-19 – eru í skjal­inu skamm­stöfuð PASC. PASC er þá heiti sjúk­dóms­ins Covid-19 að fyrstu fjórum vikunum liðnum. Fyrst það heiti er komið í umferð innan stofn­an­anna má vænta að það nái yfir­hönd­inni og verði innan skamms útbreidd­ara en Long-Covid, óform­lega heitið sem fólk hefur stuðst við til þessa.