Það fór svo furðu lítið fyrir útgáfu bókarinnar LTI í íslenskri þýðingu Maríu Kristjánsdóttur árið 2005, að enn í dag er farið rangt með nafn höfundarins á síðu útgefandans: Hann hét ekki Klamperer heldur Klemperer, Victor Klemperer. Bókin rataði í mínar hendur á sínum tíma fyrir einhvers konar hendingu, þá hafði ég aldrei heyrt hennar getið. Og ég hef sjaldan orðið jafn hissa við lestur á einu riti. LTI stendur fyrir Lingua Tertii Imperii, Tungumál þriðja ríkisins. Málvísindamaðurinn Klemperer var þýskur gyðingur sem hélt dagbók á árunum þegar nasistar komust til valda, yfir þær breytingar sem hann varð vitni að á orðfæri stjórnvalda, almennings og fjölmiðla. LTI byggir á þessum dagbókum og greiningu höfundarins á innihaldi þeirra, á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Efnislega man ég fátt úr bókinni í dag. Lestur hennar er hins vegar eins og bólusetning sem eykur manni svolítið viðstöðumátt gegn tungutaki í þjónustu yfirvalds. Í dag vitum við að ekkert bóluefni veitir hundrað prósent vörn og það gerir engin bók heldur. En ég hef ekkert annað lesið sem gagnast jafn vel til að þjálfa skynfærin í þessari tilteknu eftirtekt. Að taka eftir því, til dæmis, þegar nýr heilbrigðisráðherra talar um 400 dauðsföll sem „tímabundinn kúf“.
Listin að fela 400 lík
02.3.2023
~ 1 mín